Fréttir - Eyjafréttir


Fréttir - Eyjafréttir - 20.07.2023, Blaðsíða 5

Fréttir - Eyjafréttir - 20.07.2023, Blaðsíða 5
20. júlí 2023 | | 5 Hátíðarhöld í Vestmannaeyjum á sjómannadag 3. júní 1973 voru látlaus enda eldgosið enn í gangi og allt á kafi í vikri. Sigmar Þór Sveinbjörnsson, sem þá var gjaldkeri Sjómannadagsráðs, segir að Jóhannes Kristinsson formaður ráðsins hafi verið mjög ákveðinn í að athöfnin við minnisvarðann um hrapaða og drukknaða félli ekki niður. Tvær leiguflugvélar flugu með Jóhannes, Einar J. Gíslason (föður undirritaðs), systurnar Hr- efnu og Ingibjörgu Guðnadætur, sem sungu við athöfnina, og fleiri til Eyja. Þess má geta Hrefna er móðir stórsöngvarans Páls Rósin- kranz og Ingibjörg systir hennar bjó hér eftir gos þegar hún og þáverandi maður hennar, Gunnar Þorsteinsson, ráku verslunina Virkni við Strandveg. Ingibjörg var þá í Samkór Vestmannaeyja og söng einsöng með kórnum. Sjómannadagsblað Vestmanna- eyja kom ekki út 1973 en árið eftir kom út blað fyrir árin 1973 og 1974. Þar segir um dagskrá sjómannadagsins 1973: „Af eðlilegum orsökum voru ekki hátíðahöld í Vestmannaeyjum á sjómannadaginn vorið 1973. Eldgosið var þá enn í gangi, og aska og vikur lá yfir mikinn hluta bæjarins. Að tilhlutan Sjómannadagsráðs var vikur hreinsaður frá minn- isvarða drukknaðra og hrapaðra og var lagður blómsveigur að minnisvarðanum.” Gísli Helgason ræddi við Jóhann- es Kristinsson í Eyjapistli sem sendur var út í Ríkisútvarpinu 6. júní. Þar kom fram að erfiðlega hefði gengið að komast út í Eyjar á sjómannadeginum. „Það var vegna veðursins að við fengum ekki far fyrr en klukkan hálf fjögur. Þá fengum við loksins vélar eftir að hafa verið búnir að vera suður á velli frá því klukkan níu,” sagði Jóhannes. Á Heimaey var norðan kaldi, sól og blíða og hlýtt. Auk fyrrtalinna var m.a. Bjarni Sighvatsson tæknimaður með í för, Athöfnin byrjaði klukk- an 17.15 og var lokið klukkan 17.45. Einar J. Gíslason hélt ræðu og systurnar sungu. Um 200-220 manns voru við athöfnina. „Heimaey, hún skartar dökku í dag. Hún hefur gert það áður og ég fullyrði það hér á þessum sjómannasunnudegi að íbúar Heimaeyjar hafa séð ástandið miklu dekkra en það er í dag,” sagði Einar. Hann kvaðst líta 346 ár til baka og hugsa til atburðanna í júlí 1627 þegar vítiseldur Tyrkja brenndi bæ og byggð. Fólki var eytt og öðrum var rænt. „En það komu aðrir og tóku við og vegsemd Eyjanna blómgaðist, hagurinn batnaði þannig að hér varð eftirsótt byggð og hér var gott að vera. Svar þeirra er þá tóku við vil ég gefa ykkur Vest- mannaeyingar sem vinnið nú að björgun og uppbyggingu,” sagði Einar og vitnaði í ljóð Matthíasar Jochumssonar: Græðum saman mein og mein, metumst ei við grannann, fellum saman stein við stein, styðjum hverjir annan; plöntum, vökvum rein við rein ræktin skapar framann. Hvað má höndin ein og ein? Allir leggi saman. Einar kvaðst sjá þá framtíð að Heimaey mundi aftur byggjast og verða stærri og jafnvel veglegri en nokkru sinni áður. Hann minntist giftusamlegrar björgun- ar áhafna Eyjabátanna Gjafars, Elíasar Steinssonar og Friggjar og nefndi sjómenn sem látist höfðu frá síðasta sjómannadegi. Þeir Jóhannes Kristinsson og Kristinn Sigurðsson á Skjaldbreið lögðu blómsveig að minnisvarðanum. Sjómenn frá Vestmannaeyjum héldu fögnuð á Hótel Borg um kvöldið þar sem aflakóngar voru heiðraðir og Verðandaúrið afhent þeim sem hlaut hæstu einkunn á fiskimannaprófi. Aflakóngur var Guðmundur Ingi Guðmundsson á Huganum II og fiskikóngur Sigurjón Óskarsson á Þórunni Sveinsdóttur. Lúðvík Einarsson frá Breiðdalsvík hlaut Verðanda- úrið. Páll Þorbjörnsson afhenti viðurkenningarnar og var bjart- sýnn á að næsti sjómannadagur yrði haldinn í Vestmannaeyjum. Sjómannadagur í skugga eldgossins GUÐNI EINARSSON gudnieinars@gmail.com - Lagður blómsveigur að minnisvarða drukknaðra og hrapaðra. Vikur hreinsaður frá minnisvarðanum. Mynd: Guðmundur Sigfússon

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.