Fréttir - Eyjafréttir


Fréttir - Eyjafréttir - 20.07.2023, Blaðsíða 15

Fréttir - Eyjafréttir - 20.07.2023, Blaðsíða 15
20. júlí 2023 | | 15 Um 270 íbúðarhús með um 320 íbúðum fóru undir hraun og ösku í gosinu 1973. Til viðbótar fóru um 40 fasteignir –atvinnuhúsnæði – undir hraun, einkum í framrás þess í lok mars 1973. Fljótlega eftir gos voru grafin upp 80 íbúðarhús sem áður höfðu verið bætt sem altjón við Helgafells- braut og þar fyrir austan. Liðlega 40 húsanna voru metin ónýt og brotin niður. Hin 40 húsin voru í viðgerða- hæfu ástandi og voru síðar seld af Viðlagasjóði. Tæplega 30 húseignir sem voru nálægt hraunkantinum voru bætt af Viðlagasjóði og voru flest þeirra seld eftir gos. Þessu til viðbótar voru nokkur íbúðarhús og útihús í miðbænum dæmd ónýt af völdum eldgossins. Um 45% þeirra íbúa sem bjuggu fyrir gos í þeim hluta bæjarins sem fór undir hraun eða ösku komu ekki til baka eftir gosið. Um 55% íbúa á þessu svæði fluttu á ný til Eyja fljótlega eftir gos. Reiknað er með að 2 til 3 árum eftir gos hafi 60 til 65% íbúanna sem bjuggu í Eyjum fyrir gos ver- ið komin til baka á heimaslóð. Þetta er meðal þess sem fram kom á málstofunni, Eldgosið á Heimaey 1973 og áhrif þess á þróun byggðar og mannlífs í Eyjum. Var brugðið var upp á sýn- ingartjald myndum og skýringum sem tengjast eldgosinu á Heimaey og þeim gríðarlegu áhrifum sem það hafði á allt umhverfið. Arnar Sigurmundsson stóð fyrir mál- stofunni sem var hluti af 50 ára goslokaafmælinu í samstarfi við Safnahúsið, Kára Bjarnason og Viktor Pétur Jónsson sem annaðist skönnun og umbrot. Ráðstefnan var á laugardaginn í Kviku og var vel sótt. Arnar fékk þá Pál Zóphóníasson þá bæjar- tæknifræðing, og síðar bæjarstjóra og Hallgrím Tryggvason vélvirkja til að fjalla um þau krefjandi verkefni sem voru í gosinu. Hallgrímur vann við uppsetningu öflugs dælubúnaðar sem kom frá Bandaríkjunum í lok mars 1973 og skipti sköpum í baráttu við framrás hraunsins. Arnar þekkti vel til mála og var einn af þeim sem var við störf í Eyjum meirihluta gostímans og tók við starfi fulltrúa Viðlagasjóðs í Eyjum í september 1973 en þá flutti sjóðurinn skrifstofur sínar að Skólavegi 6. Þá voru yfirmenn Viðlagasjóðs í Eyjum Guðmund- ur Karlsson framkvæmdastjóri Fiskiðjunnar, sem þá var kominn á fullt í uppbyggingu frysti- hússins og flutning tækja og koma fyrirtækinu í gang fyrir vetrar- vertíð 1974. Páll Zóphóníasson var kominn aftur til starfa sem bæjartæknifræðingur bæjarins og gríðarleg verkefni framundan. Þá tóku við störf matsmanna vegna skemmda á húsum, eftirlit með húseignum sjóðsins, upp- gröftur í austurbænum og síðar sala á húseignum sjóðsins. Starf- semi sjóðsins í Eyjum lauk 1977 en þá sá fyrir endann á stórfelldri uppgræðslu á Haugasvæðinu, Helgafelli, Eldfelli, Heimakletti og víðar á bæjarlandinu undir stjórn Gísla Óskarssonar kennara og margra samstarfsaðila. Dapurleg örlög margra húsa Tekin voru fyrir verkefni og at- burðir sem hafa hlotið minni um- fjöllun. Má þar nefna nákvæma samantekt á fjölda mannvirkja, íbúðarhúsa og atvinnuhúsnæðis sem fóru undir hraun og vikur í gosinu. Þegar allt er talið var heildarfjöldi eigna um 400 og eru þá útihús talin með. Íbúðir voru nálægt 300. Árið 1974 var lokið að mestu að grafa upp úr gjalli húsin austan Helgafellsbrautar, við Kirkjubæjarbraut, Ásaveg, Búastaðabraut, Nýjabæjarbraut og Gerðisbraut. Stór og djúpur skurður var grafinn í Helgafells- braut til að draga úr hitaleiðni sem barst í húsin vestan götunnar og gat valdið miklu tjóni. Alls voru grafin upp um 80 hús á þessu svæði og við efri hluta Heimagötu. Um svipað leyti var að lokið að fjarlægja hraunið á efri hluta Heimagötu og við neðri hluta Kirkjuvegar. Arnar sýndi myndir af húsum í austurbænum 1974 eftir að þau voru grafin upp úr gjallinu að loknu gosi. Rúm- lega helmingur þeirra var grafinn upp og seld nýjum eigendum, önnur dæmd ónýt og brotin niður. Þá voru margar eignir einnig bættar sem altjón sem lágu mjög nálægt hraunkantinum við Heima- götu og neðri hluta Kirkjuvegar, Miðstræti og víðar. Guðmundur Sigfússon tók myndir af þessum húsum 1974 að beiðni Viðlagasjóðs og var það áður en þau voru metin af matsmönnum. Sem fyrr sagði voru mörg þeirra dæmd ónýt og brotin niður. Tölulegar upplýsingar og gríðarleg áhrif gossins Arnar, Páll og Hallgrímur höfðu frá mörgu að segja. Búastaðabraut sumarið 1974. Mynd Guðmundur Sigfússon. ÓMAR GARÐARSSON omar@eyjafrett ir. is

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.