Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 06.09.2023, Blaðsíða 10
10 Framkvæmdafréttir nr. 726
4. tbl. 31. árg.
Leiðist aldrei í vinnunni
„Mér finnst alltaf svo gaman í vinnunni. Ég er búin að
vera í sautján ár með þessum vinnuflokki og hefur ekki
leiðst einn einasta dag. Það er frábært að keyra um og
vera sjaldan lengi á sama stað, maður kynnist nýju fólki
og nýjum stöðum. Og þótt aðstaðan sé mjög misjöfn
eftir staðsetningu þá gerir það ekkert til,“ segir Hrefna
og bætir við að vissulega sé mismikið að gera hjá sér
eftir hverju verkefni. „Ég er meira ein þegar strákarnir
eru að vinna lengra frá búðunum, þá útbý ég handa
þeim nesti. En ef við erum með allar vinnubúðirnar með
okkur þá er aldeilis nóg að gera, því ég sé líka um öll
þrifin, skipti um á rúmum og þvæ þvott.“
Hún segir að oft sé þörf á því að taka
herbergjagámana með, sérstaklega í verkefni á
Suður- og Suðausturlandi. „Þar er í raun vonlaust að fá
gistingu á sumrin vegna fjölda ferðamanna.“
Harmóníkutónar stytta stundir við
aksturinn
Þar sem verkefni brúarvinnuflokksins eru víða um land
þarf Hrefna oft að keyra langar leiðir til vinnu. „Mér
leiðist aldrei að keyra. Ég bara set harmóníkumúsíkina á
og ek af stað. Reyndar held ég að bíllinn fari ekki af stað
fyrr en tónlistin fer að hljóma,“ segir hún brosandi en
Hrefna hefur verið unnandi harmóníkutónlistar frá unga
aldri og sækir allar þá harmóníkuviðburði sem hún getur.
„Það gefur mér svo mikla gleði,“ segir hún kát í bragði.
Hrefna segist annars vera á besta bílnum,
Toyota Rav. „Ég hef átt slíka bíla lengi og endurnýja
þá á nokkurra ára fresti, mér finnst ég öruggari í
umferðinni þannig,“ segir hún og bætir kímin við að hún
fari síðan með Toyota-bænina kvölds og morgna, og
sýnir bænina sem hún hefur útprentaða á ísskápnum í
vinnubúðunum.
Aldrei upplifað aðra eins törn
Starfsfólk brúarvinnuflokksins vinnur vanalega
frá mánudegi til fimmtudags, frá sjö til sjö.
Síðan er frí föstudag, laugardag og sunnudag.
Brúarvinnuflokkurinn gegnir almannavarnarhlutverki
sem þýðir að hann þarf að vera tilbúinn að stökkva
til ef til dæmis brýr skemmast í náttúruhamförum. Þá
skiptir engu hefðbundinn vinnutími heldur er allt sett til
hliðar til að koma á samgöngum að nýju.
Hrefna hefur upplifað slíkt, en það var þegar brúin
yfir Múlakvísl skemmdist í flóðum árið 2011. „Á þeim
tíma vorum við að vinna nálægt Flúðum og þurftum
að flytja vinnubúðirnar og allan mannskapinn, einn,
tveir og tíu að Múlakvísl,“ segir Hrefna en þar sem
flóðið varð um helgi var Hrefna stödd heima hjá sér á
Höfn. „Þá þurfti ég að keyra Fjallabak til að komast
í vinnubúðirnar. Það hafði ég aldrei farið áður og var
skíthrædd við að keyra yfir þessar ár þó lítið væri
í þeim. Í hvert skipti sem ég kom að á, hringdi ég í
sveitunga minn sem hafði oftsinnis ekið Fjallabaksleið
og fékk ráðleggingar um hvernig best væri að fara yfir.“
Við tók löng og ströng törn hjá starfsmönnum
brúarvinnuflokksins og matráði þeirra. „Þetta var
mjög gaman en mikil vinna. Ég fór úr því að elda fyrir
sjö manns og upp í 107 daginn sem bráðabirgðabrúin
yfir Múlakvísl var opnuð. Sem betur fer gat ég fengið
vinkonu mína með mér sem var nýkomin í sumarfrí,
það bjargaði mér alveg,“ segir Hrefna sem svaf um þrjá
tíma á nóttu þessa daga sem smíðin stóð yfir. Báðir
brúarvinnuflokkar Vegagerðarinnar voru þarna að
störfum ásamt fleira fólki. „Ég hef aldrei upplifað aðra
eins törn og aldrei á ævinni orðið eins þreytt og þegar
þetta var búið.“