Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 06.09.2023, Qupperneq 28
28 Framkvæmdafréttir nr. 726
4. tbl. 31. árg.
Vinnur að nýjum vef Vegagerðarinnar
Hvað hefur þú unnið lengi hjá Vegagerðinni?
Ég hóf störf hjá Vegagerðinni í byrjun maí á þessu ári.
Þannig að ég er fjögurra mánaða.
Í hverju felst starfið þitt?
Stóra verkefnið þessa dagana er að vinna að nýjum
vef vegagerdin.is, þróun á innri vef Vegagerðarinnar og
auðvitað viðhald á núverandi vef vegagerdin.is, þróun á
umferdin.is og sjolag.is Á nýjum vef verður hægt að tengja
fréttir, verkefni og tengt efni við hverja síðu og því mikil
vinna í að skrá fréttir, verkefni, rannsóknarskýrslur og sjá
til þess að þetta birtist allt saman rétt á vefnum. Það eru
gríðarlega miklar upplýsingar á núverandi vef og töluverð
vinna sem fer í að grisja það efni sem fer á nýjan vef og
velja úr.
Í mínu starfi er nauðsynlegt að vera í góðu
sambandi við sérfræðina þvert á stofnunina og hitta
fólk sem þekkir vel sinn málaflokk og ber ábyrgð á að
upplýsingarnar og texti sér réttur. Vonandi getum við
komið nýja vefnum í loftið í byrjun árs 2024.
Við hvað vannstu áður en þú komst til starfa hjá
Vegagerðinni?
Ég hef fjölbreytta reynslu af vinnumarkaði en síðustu
mánuðina áður en ég hóf störf hjá Vegagerðinni var ég í
markaðsdeild KPMG. Þar sá ég meðal annars um vefsíðu
KPMG, innri vef, innri samfélagsmiðil félagsins og innri
upplýsingagjöf eins og upplýsingaskjá og fréttir á innri vefi.
Á undan því starfaði ég sem vefstjóri hjá
Tryggingastofnun, TR. Hjá TR sá ég um vefinn og mínar
síður, miðlun upplýsinga á vef og innri upplýsingagjöf. Þá
hef ég líka starfað hjá Orkustofnun sem verkefnastjóri
kynningarmála og erlendra samskipta auk margs
annars, en fyrsta starfið fyrir utan barnapíustörf var
hjá Pósthúsinu í Hafnarfirði þegar ég bar út póstinn þá
fjórtán ára.
Ég er með B.A próf í frönsku og viðskiptafræði
og M.A. í blaða- og fréttamennsku en ég útskrifaðist
í byrjun árs 2008. Svo hef ég bætt við mig allskonar
áhugaverðum námskeiðum á síðustu árum í tengslum við
vefmál, almannatengsl og stafræn markaðsmál.
Hvernig er hefðbundinn vinnudagur?
Hefðbundinn vinnudagur byrjar á því að fara yfir
verkefnalista, tölvupósta og plana daginn. Svo fer það
eftir því hvaða verkefni ég er að vinna að hverju sinni
sem tekur við. Síðustu vikur hefur langmestum tíma verið
varið í nýjan vef enda af nógu að taka þar.
Hvað er skemmtilegast við starfið?
Skemmtilegast er að búa til flottan vef með skapandi og
skemmtilegu fólki. Þá hlakka ég svakalega til að koma
nýju vefsíðunni í loftið. Alltaf gaman að klára verkefnin og
sjá nýja vefi fara í loftið.
Hvað er mest krefjandi við starfið?
Það sem er mest krefjandi og það sem kom kannski mest
á óvart er hversu gríðarlega umfangsmikil núverandi
vefsíða er. Þá reynir á að velja úr það sem er mikilvægast,
greina hvað þarf að vera og hvað má missa sín. Ég er
sífellt að rekast á eitthvað nýtt efni á vefnum og hef
fundið efni á vefnum undir sögunni sem er frá árinu 1880
og margar aðrar gersemar sem leynast þar. Verkefni
Vegagerðarinnar eru virkilega fjölbreytt og margt sem ég
hef lært undanfarna þrjá mánuði.
Hvaða áhugamál hefur þú og hvað fæstu við fyrir utan
vinnuna?
Þessa dagana er golf, veiði og sumarhúsið
aðaláhugamálið. Annars er ég smá dellukona og
hef stundað allskonar áhugamál síðustu ár eins og
hestamennsku, útihlaup og veiði á sumrin en svo á
veturna er það ræktin, skíði og gönguskíði. Þá hef ég
átt nokkra góða spretti í prjónaskap og prjónað nokkrar
peysur. Ég elska að ferðast bæði hér heima og erlendis og
svo auðvitað gæðastundir með fjölskyldunni.
Vegagerðin í nær ynd
Yfir 300 manns starfa hjá Vegagerðinni og störfin eru bæði fjölmörg og fjölbreytt á láði, legi og í lofti.
Í þessum greinaflokki verður skyggnst inn í hin ólíku störf sem unnin eru hjá stofnuninni.
Petra Steinunn Sveinsdóttir er vefstjóri
Vegagerðarinnar. Stærsta verkefnið þessa daga er
að þróa nýjan vef Vegagerðarinnar, vegagerdin.is.
↘
Petra á fjölmörg áhugamál,
meðal annars fluguveiði.