Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 23.10.2023, Qupperneq 13
Framkvæmdafréttir nr. 727
5. tbl. 31. árg.
13
Veggreinir. Veggreinir er hátæknimælibíll sem tekinn
var í notkun hjá Vegagerðinni árið 2018. Hann er afar
vel útbúinn og getur mælt yfirborð, nánasta umhverfi
og uppbyggingu vega með auðveldum hætti. Á meðan
bílnum er ekið er gögnum safnað með myndatökum og
mælingum. Mælingarnar eru svo lesnar inn í sérútbúinn
hugbúnað sem aðstoðar við ástandsmat vega og getur
þannig aðstoðað starfsmenn Vegagerðarinnar við að
forgangsraða vegum sem þarfnast viðhalds og meta
umferðaröryggi þeirra.
Jarðsjárdróni. Með jarðsjárdrónanum, sem keyptur var
í sumar, var stigið stórt skref í hugbúnaði og úrvinnslu
jarðsjárgagna hjá Vegagerðinni. Dróninn kemst mun
víðar en hefðbundin jarðsjá og hann má nota til að
auka öryggi í rannsóknum, auka nákvæmni áætlana
og magntöku. Með upplýsingum úr jarðsjárdróna er til
dæmis hægt að minnka líkur á að upp komi óvæntar
aðstæður við framkvæmdir.
Rannsóknastofa. Rannsóknastofa Vegagerðarinnar
flutti í nýtt og betra húsnæði sumarið 2021. Þá var
tækjabúnaður hennar endurnýjaður að stórum hluta.
Á rannsóknastofunni í Garðabæ eru framkvæmdar
ýmsar grunnrannsóknir en á Vísindavöku var kynnt
hvað þar fer fram.
Þversnið af vegi. Á Vísindavöku var til sýnis sívalningur
sem sýndi hvernig uppbygging vegar á að vera. Neðsta
lagið er fylling, þá kemur styrktarlag, burðarlag og loks
slitlag.
Bein útsending frá jarðhita undir vegi í Hveradölum.
Aukin jarðhitavirkni mældist undir Hringvegi (1) í
Hveradalabrekku, við Skíðaskálann í Hveradölum, í
maí. Vegagerðin vinnur að rannsóknum á svæðinu en á
Vísindavöku var meðal annars sýnd bein útsending frá
hitamyndavél af svæðinu.
↑
Fremst má sjá falllóðið, þá
jarðsjárdrónann og loks veggreininn. Bein
útsending frá jarðhitasvæði í vegstæði á
Hellisheiði má sjá á skjánum.
↓
Þversnið af hinum fullkomna vegi.