Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 23.10.2023, Page 18
18 Framkvæmdafréttir nr. 727
5. tbl. 31. árg.
Byggðu bráðabirgðabrýr á methraða
Á undanförnum áratugum hefur starf brúarvinnuflokka
Vegagerðarinnar einkum vakið athygli þegar þurft
hefur að bregðast hratt við og reisa bráðabirgðabrýr
eftir að flóð hafa skemmt eða hrifið á brott þær brýr
sem fyrir voru. Samfélagið allt hefur í æ ríkari mæli
reitt sig á að umferðin geti gengið snuðrulaust fyrir
sig á helstu þjóðvegum landsins allt árið um kring.
Vinnusókn utan heimilis, dagleg skólasókn innan
héraðs og utan, ferðir til að sækja verslun og þjónustu,
vaxandi umferð ferðamanna og fleira mætti telja til þar
sem vegfarendur treysta á að komast hindrunarlaust
á milli staða. Kröfur hafa því til dæmis vaxið mjög um
aukna vetrarþjónustu og bætta upplýsingagjöf um
ástand vegakerfisins á hverjum tíma. Þegar rof verður
á þessu nauðsynlega flæði umferðarinnar, eins og
þegar skörð koma í vegi eða skemmdir verða á brúm,
eru skiljanlega uppi kröfur um að allt verði gert til að
koma sambandi á aftur sem allra fyrst. Hér verða
rifjuð upp þrjú dæmi sem margir muna eftir þar sem
aðkoma og viðbragð brúarvinnuflokka áttu stóran þátt
í að lágmarka skaðann af rofi á vegasamgöngum eftir
hamfaraflóð í ám.
Flóðin urðu í þessum þremur vatnsföllum:
→ Gígjukvísl á Skeiðarársandi 1996
→ Múlakvísl á Mýrdalssandi 2011
→ Steinavötn í Suðursveit 2017
Gígjukvísl á Skeiðarársandi 1996
Hringvegurinn á Skeiðarársandi var opnaður árið
1974 og þar voru þrjár stórbrýr, á Súlu, Gígjukvísl
og Skeiðará. Það var vel þekkt að stór jökulhlaup
höfðu oft komið í þessar ár, einkum Skeiðará. Þau
stærstu tengdust eldgosum undir Vatnajökli, oftast í
Grímsvötnum. Síðasta stóra hlaupið hafði orðið 1938.
Við hönnun á brúnum var ekki miðað við að þær gætu
staðist þessi stóru hlaup, heldur miðaðist hönnunin
við að flóðvatnið rynni sem mest út úr hefðbundnum
farvegum og fram hjá brúnum, og skemmdir yrðu þá
einkum á vegum og varnargörðum, en minni á brúnum
sjálfum. Og það var vitað að brúin á Gígjukvísl var í
mestri hættu þar eð farvegurinn ofan hennar var mun
dýpri en við hinar árnar og því minni líkur á að flóðvatn
rynni út á sléttlendi utan farvegarins, hvort sem var af
náttúrulegum ástæðum eða með stýringu rennslisins
með varnargörðum.
Í október 1996 hófst eldgos undir Vatnajökli sunnan
við Bárðarbungu og það var strax ljóst að búast mætti
við mjög stóru hlaupi. Hlaupið kom hins vegar ekki fram
undan jöklinum fyrr en mánuði síðar, eða 5. nóvember.
Á fyrstu klukkutímunum sópaðist brúin á Gígjukvísl
burt, en hún var 330 metra löng.
Eins fóru 170 metrar af brúnni yfir Skeiðará sem
var 904 metrar á lengd fyrir hlaup, auk þess sem
einn stöpull gaf sig án þess þó að brúin félli niður.
Einnig urðu umtalsverðar skemmdir á vegum og
varnargörðum.
Það var í byrjun reiknað með að það gæti tekið tvö
ár að byggja nýja brú á Gígjukvísl og lagfæra aðrar
skemmdir. Augljóslega var ekki hægt að búa við rof á
vegasamgöngum um Hringveginn til svo langs tíma.
Það var því strax ákveðið að koma upp bráðabirgðabrú
hið fyrsta, og brúarvinnuflokkarnir kallaðir til. Þeir
reistu 160 metra langa brú úr stálbitum og með
trégólfi, sem hvíldi á 10 metra löngum tréstaurum sem
voru reknir niður í aurinn. Umferð var síðan hleypt á
brúna 17 dögum eftir að hlaupið kom fram á sandinn.
Brúarsmiðirnir þurftu einnig að gera við skemmdir á
Skeiðarárbrú, meðal annars að steypa nýjan millistöpul
í stað þess sem hvarf í flauminn og og „tjakka“ upp
brúna sem þar hafði sigið töluvert.
Ný brú var síðan byggð á Gígjukvísl af
verktakafyrirtækinu ÍAV og hún opnuð fyrir umferð
tæpum tveimur árum eftir hlaupið. Á myndinni sést
bráðabirgðabrúin í baksýn nýrrar brúar.
Skeiðarárjökull
Skaftafell
Lómagnúpur
Öræfa-
jökull
Gígjukvísl
Mýrdalsjökull Kötlujökull
VíkDyrhólaey
Hafursey
Álftaver
Múlakvísl
Breiðamerkur-
jökull
i
j ll
Jökulsárlón
Sauðdalstindur
Kálfafellsdalur
Öræfa-
jökull
Steinavötn