Dagfari - 01.03.2024, Side 12
Hverjir eru
Hútar?
Síðustu mánuði hafa borist tíðar
fréttir af því að Hútar í Jemen hafi
ógnað skipaflutningum á Rauðahafi.
Síðan í nóvember á síðasta ári hafa
þeir tekið yfir og gert árásir á skip
á ferð um Rauðahafið sem þeir telja
tengjast Ísrael. Þetta er augljós-
asta dæmið um hvernig hernaður
Ísraels hefur haft áhrif á allt svæðið
því þetta eru aðgerðir til stuðnings
Palestínumönnum. Um það bil 10%
af heimsviðskiptum hafa orðið fyrir
áhrifum og mikill meirihluti skipa
sem sigldu áður um Súes-skurðinn
velja nú að fara fyrir Góðrarvonar-
höfða, í kringum alla Afríku. Þetta
lengir ferðatíma varnings á milli
Asíu og Evrópu um vikur og daga.
Bandaríkin hafa brugðist við með
því að gera árásir á Jemen en hefur
mistekist að fylkja bandamönnum
sínum um þessar aðgerðir.
En hverjir eru Hútar? Formlega er
hreyfing þeirra kölluð Ansar Allah
og er pólitísk og trúarleg hreyfing
sjía-múslima í Jemen sem var
stofnuð á tíunda áratugnum og
sækir liðsmenn sína að mestu til
Hútí-ættbálksins frá Norður-Jemen.
Þeir tóku þátt í uppreisnum í
kringum arabíska vorið 2011 og réðu
í kjölfarið ríkjum í norður-Jemen.
Árið 2014 hófst borgarastríð þegar
þeir tóku höfuðborgina Sana sem
þeir ráða enn. Árið eftir blönduðu
svo Sádi-Arabía og fleiri ríki við Per-
saflóa, með stuðningi
Bandaríkjanna, sér í átökin.
Þau hófu stórfelldar loftárásir á
Jemen og héldu uppi herkví sem
hefur valdið einni verstu hungurs-
neyð síðustu ára. Stríðið hefur leikið
Jemen mjög hart og var það þó
fyrir eitt fátækasta ríki Miðaustur-
landa. Hútar ráða þó enn ríkjum í
Norður-Jemen, Sádi-Arabía hefur
að mestu dregið sig úr stríðinu eftir
háðulega útreið og fæst núna ekki
einu sinni til að aðstoða Bandaríkin
í aðgerðum sínum gegn þeim. Báðar
hliðar í borgarastríðinu hafa svo
verið sakaðar um stórfelld
mannréttindabrot og Hútar hafa t.d.
beitt fyrir sig barnahermönnum og
skert réttindi kvenna á yfirráðasvæði
sínu.
Hútar hafa stundum verið álitnir
einhverskonar leiksoppar Íran, sem
hefur stutt þá með vopnasendinum,
t.d. drónum sem þeir hafa beitt gegn
bæði Sádi-Arabíu og nú skipum á
Rauðahafi. Það er þó líklega orðum
aukið, Hútar hafa sína eigin hags-
muni og stefnu en eru vissulega sjíar
eins og Íranir og eiga
sameiginlega óvini í Sádi-Arabíu,
Ísrael og Bandaríkjunum. Það á ein-
nig við um Hesbolla og Hamas (sem
eru reyndar súnní-múslimar) sem
þeir hafa átt í samskiptum við. Hútar
líta á það sem skyldu sína að berjast
gegn Ísrael og Bandaríkjunum með
vopnavaldi í þágu Palestínumanna
fyrst að svo fá önnur lönd á svæðinu
fást til þess. Þetta hefur aftur dregið
athygli erlendra stórvelda að Jemen
sem mun líklega valda frekari
hörmungum og það er hæpið að
hægt sé að semja við Húta nema
Ísrael láti af hernaði sínum gegn
Gasasvæðinu.