Dagfari - 01.03.2024, Qupperneq 16
Kvalararnir voru hinir seku
Þetta er langt frá því að vera tæmandi listi yfir pyntingaraðferðir en þarna
er talað um að banka höfði fórnarlambsins í vegg en þetta mun hafa verið
tíðkað mikið í Guantanamó auk þess sem dæmi voru um að einstaklingum
sem óttuðust tvennt, dauðann og skordýr, var komið fyrir í líkkistu, skordýr
sett ofan í hana og lokið á svo skorkvikindin fengju ráðrúm til að skríða sem
víðast um manninn sem átti að játa það sem á hann var borið. Af 780 manns
sem gengu í gegnum þetta víti á jörðu reyndust sárafáir sekir um nokkur
illvirki. Hinir seku voru kvalarar þeirra.
Mohamedou lét ekki undan kvölurum sínum þrátt fyrir áralangar
misþyrmingar svo villimannlegar að orð fá þeim varla lýst. Hann hélt fram
sakleysi sínu, tilbúinn að láta allt yfir sjálfan sig ganga til að halda
sannleikanum til streitu. En það var þegar komið var að öðrum, og þá þeirri
manneskju sem honum var kærust, að hann gafst upp. Það var þegar honum
var sagt að búið væri að taka móður hans höndum heima í Máritaníu og að
til stæði að flytja hana til Guantanamó. Þar yrðu fangar látnir nauðga henni
kerfisbundið þar til hann játaði. Þarna voru mörkin. Mohamedou kvaðst
ekki geta afborið þetta, hann myndi skrifa undir allar þær játningar sem
óskað væri eftir.
Obama áfrýjar
Upplýsingar um að Mohamedou væri í Guantanamó bárust um síðir Nancy
Hollander sem varið hefur Chelsea Manning og fleiri uppljóstrara um
stríðsglæpi Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra. Nancy Hollander tókst
að sýna fram á að játningar Mohamedous hefðu verið knúnar fram með
pyntingum. Bandarískur dómstóll úrskurðaði í framhaldinu að hann
skyldi látinn laus. Við svo búið áfrýjaði Obama-stjórnin en náði ekki að
hnekkja þessum úrskurði. Engu að síður var Mohamedou haldið í Guantan-
amó í 7 ár til viðbótar – en nú án pyntinga. En hver er hin pólitíska umgjörð
Guantanamó og mannréttindabrota þar og í öðrum svartholum?
“Stríð gegn hryðjuverkum”
Umgjörðin er sú að George Bush junior, þáverandi Bandaríkjaforseti lýsti yfir
stríði á hendur hryðjuverkum, “war on terrorism”, skömmu eftir að
tvíburaturnarnir ásamt fleiri byggingum voru jafnaðir við jörðu hinn ellefta
september árið 2001. Í stríði gegn hryðjuverkum þurfti að sjálfsögðu að finna
hryðjuverkamenn til að berjast gegn og stað til að geyma þá á og knýja til
sagna. Nú varð til Homeland security, hert var á allri löggjöf sem varðaði
öryggi ríkisins og þess var skammt að bíða að Guantanamó búðirnar væru
opnaðar.
Yfir Bandaríkjunum sveif nú skyndilega allt annar andi en lengi hafði þekkst
þar. Þeir sem voguðu sér að gagnrýna stjórnvöld og stríðsrekstur þeirra í Af-
ganistan og síðar Írak voru sagðir vera föðurlandssvikarar sem ógnuðu öryggi
bandarískra borgara.