Goðasteinn - 01.09.2003, Síða 33
Goðasteinn 2003
kl. 18:25, eða um 8 mínútum eftir að kvikan náði til yfirborðs. Rishraði gos-
makkarins hefur því verið um það bil 90 km/klst, en þetta er svipaður rishraði og
mældist í Heklugosinu 1947. í um 12 km hæð nær gosmökkurinn síðan massa-
jafnvægi, þ.e. askan, gösin og andrúmsloftið ná sömu eðlisþyngd. Þá byrjaði gos-
mökkurinn að breiða úr sér og berast með ríkjandi vindátt til norðurs frá Heklu
(mynd 3).
Sigurður Þórarinsson heitinn sýndi fram á að kvika í Heklu verður mun súrari
ef langur tími líður á milli gosa (almennt tala jarðfræðingar um basískar og súrar
kvikur þar sem basísk kvika er mjög frumstæð, þunnfljótandi og myndar nær
ávallt hraun, en súrar kvikur eru sagðar þróaðar úr þeirri basísku og eru seigar og
sprengivirkar. Rétt er að geta þess að kvikan er ekki súr í eiginlegum skilningi
þess orðs).
Eins og áður hefur verið getið er undir Heklu mikið kvikuhólf. I þessu
kvikuhólfi „súrnar“ kvikan á milli eldgosa, þ.e. kristallast og breytir um efnasam-
setningu. Eitt af því afdrifaríkasta sem gerist er að kvikugös komast ekki inn í
kristallana og eykst því hlutfallslegt magn þeirra á milli gosa. Kvikugösin og sú
afgangskvika sem ekki kemst í kristallana, til að falla út sem fast efni, safnast
fyrir efst í kvikuhólfinu. Þegar síðan kvikan leitar upp til yfirborðs þenjast kviku-
gösin út, sökum þrýstiléttis, þannig að rúmmál kvikunnar margfaldast. Þetta er
ástæðan fyrir því að upphafsfasi Heklugosa er ætíð mjög sprengivirkur og myndar
mikinn gosmökk yfir eldstöðinni á fyrstu klukkutímunum. Þá er stærð upphafs-
fasans í samhengi við hvíldartíma Heklu á milli gosa. í gosinu 2000 höfðu aðeins
liðið um 9 ár frá því að hún gaus síðast í janúar 1991. Samkvæmt Kjartani Ö.
Haraldssyni jarðfræðingi, sem skoðaði dreifingu gosefnanna, mun heildarrúmmál
þeirra hafa verið um 0,01 rúmkílómetri, sem er með þeim allra minnstu
gjóskugeirum þekktum frá Heklu.
Út frá mælingum á eldgosaóróa má ráða í hvað var að gerast á eldstöðvunum
þær fyrstu mínútur sem beinar athuganir voru stopular. Veðurstofan skráir eld-
gosaóróa samfara skjálftavirkni. Á mynd 4 er sýnt óróalínurit frá gosstöðvum
Heklu út gostímann fengið hjá Veðurstofunni. Af þessu má ráða að eldgosið náði
hámarki kl. 18:49, en upp frá því dregur jafnt og þétt úr krafti þess. Út frá mynd-
um teknum af Gísla Óskarssyni í Vestmannaeyjum sést að sprengivirknin er að
mestu yfirstaðin upp úr kl. 19:00, en hann flaug þá yfir eldstöðvarnar og tók
myndir af mikilli kvikustrókavirkni á gígaröðinni og hraunframleiðslu henni sam-
fara.
Sigrún Karlsdóttir veðurfræðingur hefur greint radarmyndir sem teknar voru af
eldstöðvunum á gostíma. Þar kemur fram eins og áður segir að gosmökkurinn er
kominn í um 12 km hæð eftir aðeins 8 mínútur, þetta kom einnig fram í gögnum
frá gervihnöttum er mældu styrk ósons í lofthjúpnum yfir íslandi á þessum tíma.
-31