Goðasteinn - 01.09.2003, Síða 95
Goðasteinn 2003
Þegar hér er komið sögu má segja að komið sé að þáttaskilum í sögunni.
Vegurinn, eins og fram hefur komið, kominn að Skammbeinsstöðum og bæir að
austanverðu taldir komnir í þokkalegt vegasamband.
Vildu þá sumir taka til við uppbyggingu vegarins að vestanverðu, töldu að þar
með kæmust bæirnir uppi í Hagasókn fyrr í varanlegt vegasamband, þar sem þeir
höfðu sinn lélega veg í þá áttina.
Ef ekki hækkaði framlagið í veginn, sem lítil von var til og haldið yrði áfram
austanmegin, kæmist uppbygging vegarins með sama áframhaldi 1948 svona um
það bil miðja vegu milli Stúfholts og Skammbeinsstaða og kæmi þá engum að
notum það árið. Samt vildu allir bændur austanmegin að vegagerð yrði haldað
áfram þeim megin. Þetta var pínleg staða, komin upp togstreita milli „austurs og
vesturs“. Sumir sáu reyndar ekki þörf fyrir veg milli Skammbeinsstaða og
Stúfholts.
Guðmundur Þorleifsson á Þverlæk faðir minn sá að ef frestað yrði lagningu
vegarins að austanverðu yrði Þverlækur verst settur með vegasamband meðan það
ástand stæði, því lagning afleggjara þangað frá Skammbeinsstöðum var nær
óhugsandi vegna slæms jarðlendis. Vegstæði var hins vegar mjög gott og styttra, í
norðaustur frá Þverlækjar bænum um lága hæð sem Litli-Hryggur heitir, kæmi sá
vegur á Hagabraut mitt á milli Skammbeinsstaða og Stúfholts.
Eins og af framansögðu má sjá var hér úr vöndu að ráða. Mönnum þótti vega-
lagningin ganga alltof hægt. Það var lífsspursmál fyrir bændur í Upp-Holtum að
fá veginn sem allra fyrst svo hægt væri að stunda þann viðskiptabúskap sem var
að hefja innreið sína í sveitir landsins.
Það var í þessari stöðu sem Guðmundur faðir minn varpaði fram þeirri
hugmynd að tekið yrði lán til að hringtengja veginn, þ.e. frá Skammbeinsstöðum
að hinum akfæra slóða við Brúnkuflöt skammt framan Ketilsstaða. Þessi kafli er
rétt um níu km. langur, en öll er Hagabrautin 20 km.
Yrði lánið greitt upp með ríkisframlagi næstu ára. Allir aðilar málsins tóku
þessari hugmynd vel, en forráðamenn Vegagerðarinnar töldu ekki heimilt að nota
ríkisframlagið til greiðslu vaxta. Hreppsnefndin fjallaði um málið og taldi ekki
rétt að sveitarsjóður greiddi vextina þar sem í hlut ættu aðeins hluti íbúa sveitar-
innar. Nú greiða sveitarfélögin allan kostnað af svona lántökum.
Þegar málið var komið í þennan farveg var kallaður saman fundur með öllum
þeim ábúendum sem kæmu til með að njóta vegarins. Voru allir sem á fundinn
mættu á einu máli um að ekki mætti láta framkvæmdina stranda á þessu atriði og
samþykktu að taka á sig að greiða vextina og gerðu það allir möglunarlaust utan
einn sem skarst úr leik. Nú var málið í höfn, lánið tekið í Landsbankanum á
Selfossi með hreppsábyrgð að kröfu Einars Pálssonar bankastjóra. Var það auðsótt
mál, enda formsatriði.
-93-