Goðasteinn - 01.09.2003, Blaðsíða 189
Goðasteinn 2003
Látnir 2002
Lilja Matthildur Fransdóttir frá Króki,
Lundi, Hellu
Lilja var fædd í Reykjavík hinn 17. nóvember árið 1922.
Foreldrar hennar voru Anna Jónasdóttir, ættuð frá Stokks-
eyri, og maður hennar Frans Tuomikowski, sem var af
finnskum og rússneskum ættum. Sammæðra hálfsystkin
Lilju voru Ása og Hagbert, og alsystkin hennar voru Unnur,
Karl, ísfold Hulda og Óskar. Af þeim hópi lifir ísfold Hulda
nú ein eftir.
Leiðir Lilju og fjölskyldu hennar skildu strax á fyrsta
æviári hennar, þegar fjölskyldan fluttist til Álandseyja, en
henni var fengið fóstur í Skálmholti í Villingaholtshreppi hjá hjónunum Hólmfríði
Hjartardóttur og Guðbrandi Tómassyni er þar bjuggu með stóran barnahóp sinn. Þar ólst
hún upp fjarri skyldmennum sínum, en síðar á ævinni tók hún upp samband við systkini
sín, og rækti þau ættartengsl eins og tök voru á.
Lilja átti heima í Skálmholti fram undir tvítugt. Hún giftist ung Hirti Leó Jónssyni frá
Brúarlandi í Deildardal í Skagafirði, og eignuðust þau tvær dætur, Hólmfríði Rannveigu,
sem búsett er á Selfossi, gift Ólafi Sigfússyni, og Hrafnhildi, sem býr í Alicante á Spáni.
Hjúskapur Lilju og Hjartar stóð skamman tíma, og hún kom aftur heim að Skálmholti,
þar sem hún annaðist heimilishald í nokkur ár með Tómasi uppeldisbróður sínum, sem
misst hafði konu sína frá stórum barnahópi.
Lilja hóf sambúð 1948 með eftirlifandi eiginmanni sínum, Ingólfi Guðmundssyni frá
Króki í Ásahreppi. Þau áttu heimili að Grettisgötu 20 í Reykjavík fyrstu fjögur árin, en
futtust 1952 að Skálmholti og ári síðar austur fyrir Þjórsá að föðurleifð Ingólfs í Króki.
Þau gengu í hjónaband á gamlársdag árið 1955. Þau tóku í fóstur Ingólf Magnússon átta
daga gamlan árið 1949, og síðar kom á heimilið hálfbróðir hans, Jón Halldór Bergsson.
Hann er nú búsettur í Reykjavík, en Ingólfur býr í Hafnarfirði, kvæntur Þorbjörgu Fjólu
Sigurðardóttur.
Lilja og Ingólfur bjuggu í Króki fulla þrjá áratugi, og juku smám saman við bústofn
sinn. Þeim búnaðist vel með fyrirhyggju og vinnusemi, sem var Lilju töm frá blautu
barnsbeini, og fylgdi henni ævilangt. Hún hafði ánægju af bústörfunum, og dró hvergi af
sér við störf sín úti sem inni. Hún lagði mikla alúð við húsmóðurstörfin, töfraði fram
veisluborð úr litlu, og gerði sér far um fjölbreytni og nýbreytni í matargerð. Hún var
einkar lagin í höndum og listfeng, frábær hannyrðakona svo sem prjónaðir dúkar hennar
og víðkunnar prjónabrúður hennar bera fagurt vitni um. Þær sótti hún í erlend hannyrða-
blöð, og lét framandi tungumál ekki aftra sér við að ná tökum á þeim þrautum sem þar
var við að glíma.
Lilja var jákvæð kona að eðlisfari og bjartsýn. Nærveru hennar fylgdi hlýja og verm-
andi kærleikur. Hógværð og umburðarlyndi voru sömuleiðis sterk einkenni í fari hennar
-187-