Goðasteinn - 01.09.2003, Blaðsíða 78
Goðasteinn 2003
Eitt lík rak þarna í fjörunni meðan á björgun stóð og var það borið upp í næsta
hús. A leiðinni heim að Stað komum við þar við til að sjá hver af félögum okkar
það var, og reyndist það vera Ingvar Guðmundsson, annar vélstjóri.
Þegar við komum í land var fremur kuldalegt um að litast. Allir gluggar
hrímaðir af frosti og skafrenningsbylur. Þó var allt vel upphitað á Stað, og mót-
tökur allar eins og best verður á kosið. Við háttuðum þar í upphituð rúm og
þáðum góðgerðir. Læknirinn, Sigvaldi Kaldalóns, gaf okkur með aðstoð heimilis-
fólksins sitt ágæta brennivínskaffi og vildi allt fyrir okkur gera. Félagar okkar
sváfu vært í rúmum sínum og virtust una vel umskiptunum. Ekki var pláss á Stað
fyrir alla sem björguðust, og voru nokkrir á næsta bæ, Móakoti.
Þegar við komum að Stað, var klukkan eitthvað á milli tólf og eitt eftir hádegi,
og var þar með hin viðburðarrka og kuldalega 12-13 tíma vakt að baki og skildi
eftir sig orsakir og aðdraganda að ýmsum fleiri harmsögum, sem ekki verða
sagðar hér. Næsta morgun komu svo bflar úr Reykjavík til að sækja okkur. Því
ferðalagi fylgdu nokkrir erfiðleikar sökum ófærðar, enda var bæði ofan- og
neðanbylur og urðum við oft að moka frá bflunum eða ýta þeim á leiðinni heim.
Eg enda svo þessa nærri 40 ára gömlu sögu og bið velvirðingar á, ef einhvers
staðar er um misminni eða ranghermi að ræða. Einnig fylgir hér með alúðar-
kveðja og þakklæti til björgunarsveitar Grindavíkur, sem þar átti hlut að fyrir sitt
ágæta og vel unna starf. Einnig þakka ég af alhug þáverandi húsbændum og
starfsfólki á Stað, sem önnuðust hinar ógleymanlegu og ágætu móttökur og mikla
og erfiða fyrirhöfn. Einnig þakka ég lækninum fyrir alla hans alúð og umhyggju,
og yfirleitt öllum sem hlut áttu að hinni giftusamlegu björgun á 24 mönnum.
Að síðustu þakka ég svo mínum gömlu, góðu félögum, bæði þeim sem þarna
létu lífið og þeim sem eftir lifðu þá, en sem eru nú margir ýmist drukknaðir eða til
moldar bornir. Eg vona því að þessar hugleiðingar mínar nái til allra núlifandi og
út yfir gröf og dauða til allra, sem þarna áttu hlut að máli, með innilegri ósk um
að þau hafi og megi öll hljóta örugga bjarta og brimlausa lendingu á strönd eilífð-
arinnar.
Skrifað í maí 1969.
(Prentað íSunnudagsblaði Tímans, XII árg. 31. tbl.10. nóv.1973.)
-76-