Goðasteinn - 01.09.2003, Side 100
Goðasteinn 2003
Rangœingabúð . Teikning Jón Benediktsson frá Velli í Hvolhreppi
Með skyrinu fylgdu einhverjir tugir lítra af rjóma. Peysufataklæddar konur úr
Rangárvallsýslu, jafnvel í möttlum, voru án vafa virðulegar við afgreiðsluna á
þessum hollustuvörum. Léttar á sér á grasmjúkri jörðinni, og sjálfsagt þjóðlegar
til fótanna á íslenskum sauðskinnsskóm, léreftsbrydduðum. Við greiðasöluna var
meðal annarra Guðrún Auðunsdóttir skáldkona frá Dalsseli, sem síðar var þekkt
fyrir ljóð og kliðmjúkar þulur. Eitthvað varð þessi veitingasala minni en vonir
stóðu til, en tjaldið kom að góðum notum sem fyrsta félagsheimili allra
Rangæinga. Talið er að 220 héraðsbúar hafi haft þar aðstöðu til að bera saman
bækur sínar og hittast og spjalla, en þeir höfðu sín tjöld til að sofa í.
Ullarábreiður fengust leigðar á staðnum fyrir eina krónu og fimmtíu aura yfir
tímann, sem hátíðin stóð yfir. Svo var upplýst að gott væri að hafa með sér kodda-
ver því tölvert hey hafi verið á staðnum sem var eitt af því, sem hátíðarnefndin sá
um. Leyfilegt var að hafa litlar olíuvélar í tjöldunum til smávegis hitunar, t.d. á
kaffi. Steinolía var fáanleg á staðnum.
Flestir sem fóru á Alþingishátíðina ferðuðust með svokölluðum boddíbílum, þar
sem farþegaskýli voru fest á vörubíla, sem gengu á milli Reykjavrkur og Þingvalla
dag og nótt, ef bílstjórar voru til skipta. Hæfilegur hraði var talinn 30 km á
klukkustund, svo að bílarnir rækust ekki hver á annan. Það má lesa í bók, sem gefin
var út um hátíðina. Áttatíu hvítklæddir lögreglumenn önnuðust löggæsluna undir
stjórn Bjarna Bjarnasonar skólstjóra á Laugarvatni. Á meðal lögreglumanna var
Ágúst Jónsson, síðar hreppstjóri og bóndi að Sigluvík í Vestur-Landeyjum, en hann
hafði kennt leikfimi við Laugarvatnsskóla fyrsta veturinn sem skólinn starfaði.
Hann hafði verið á íþróttanámskeiði hjá Jóni Þorsteinssyni íþróttakennara sem á
sínum tíma byggði stórt íþróttahús í námunda við Þjóðleikhúsið .
-98-