Goðasteinn - 01.09.2003, Qupperneq 109
Goðasteinn 2003
Um berjahöppin brátt mun spurt;
bar þar flest að einu.
En brauðið heima bíður smurt
í búrinu hjá Sveinu.
íbúðarhús það, sem Ársæll bjó í og Björn Gestsson og fleiri endurbættu og
byggðu við, brann til kaldra kola eftir áramót 1968. Sumarið eftir lét Ársæll
byggja íbúðarhús í Hákoti, þar rétt hjá en það býli hafði verið í eyði um áratug, en
tún verið nytjað. Við steypu vann ég hjá honum eins og hjá mörgum, er eins stóð
á, og krafðist ekki gjalds fyrir. Menn unnu svona hver hjá öðrum þarna í Þykkva-
bænum. Ekki gat ég þó vænst þess, að hjá mér yrði unnið á sömu kjörum. En það
gerði ekkert til. Þarna bjó Ársæll með fjölskyldu sinni til æviloka. Börnin urðu
fjögur: þrír synir og dóttir.
Er ég bjóst til brottfarar úr Þykkvabænum um mitt sumar 1979, hið síðara sinn,
eftir dvöl um tveggja ára bil, þá þarfnaðist ég margra kassa utan um bækur og
annað, sem búskapnum tilheyrði. Mætti ég þá Ársæli í Hákoti, þar sem ég var
með fulla handkerru af tómum kössum. Eitthvað vissi Ársæll, að mér væri ekki
ætluð lengri dvöl á staðnum, og sagði, er hann leit kassana: „Er þetta undir varn-
ing?“ Honum rataðist orð satt á munn í því efni.
Sveinbjörg dó langt um aldur fram úr krabbameini, og ekki var þess langt að
bíða, að Ársæll kveddi jarðlífið. Hjartabilun varð honum að aldurtila. Um fjár-
manninn Ársæl mætti skrifa langt mál. Hann átti jafnan margt kinda, enda var
honum kindaeignin kær, líkt og Yngva, bónda í Odds-Parti, bróður hans.
Góðir vinir mást ekki úr huga manns, þótt árin líði.
Friðrik Friðriksson
Ég var lengi búsettur í Þykkvabæ í Rangárþingi, og komst þá ekki hjá því að
kynnast kaupmanninum þar, sem var Friðrik Friðriksson og bjó í Miðkoti. Hann
fæddist þarna árið 1894 og dó úr krabbameini 1970, eftir langa baráttu við þann
illvíga sjúkdóm. Þegar hann varð sjötugur, lét hann verslunina í hendur tengda-
syni sínum, Magnúsi Sigurlássyni. Gjafir voru honum færðar þá, og gat ég um
það í næsta þorrabrag:
-107-