Goðasteinn - 01.09.2003, Síða 116
Goðasteinn 2003
sinnum bað Sveinjón mig að koma með sér aftur fyrir bílinn og þiggja snaps, sem
hann var óspar á. Ekki var hægt að segja að maðurinn væri beint snyrtilegur,
honum var ekki mikið í mun að berast á í klæðaburði eða að snyrta sig í tíma og
ótíma. Kona mín, sem með mér var í bifreiðinni ásamt þremur börnum okkar,
spurði oft: „Hvað er þessi maður alltaf að vilja þér?“ Ég gerði lítið úr því, sagði
að við hefðum aðeins verið að rabba saman.
Þegar byggður var skólastjórabústaður í Þykkvabæ 1963-64 réði verktakinn
Sveinjón til að annast múrverkið. Þá var hann enn hinn knáasti karl, kominn
nokkuð á sjötugsaldur. Aðsetur hafði hann í barnaskólanum. Held, að hann hafi
litla sem enga þjónustu haft þar. Oft kom ég til hans, þar sem hann hélt til, og
einnig í bústaðinn hálfkaraðan, þar sem hann vann við múrverkið. Hann reykti
pípu allmikið, og var sú gjarnan munnstykkislaus.
Eitt sinn sá ég notaða smokka í kjallara skólahússins, sem unnið var jafnframt
við. Spurði ég þá Sveinjón að því, hvað þetta eiginlega væri. Sagði hann það vera
præservativ, eða vörn gegn frjóvgun konu af karlmannsvöldum. Þetta vissi karl
mæta vel. Var auðheyrt, að hann hafði undir niðri nokkurt gaman af, að unga
fólkið var ekki dautt úr öllum æðum og byrjaði snemma að huga að kynlífinu,
sem er uppspretta alls mannlífs, ef vel er að gáð.
Eitt sinn sem oftar var par gefið saman í hjónaband í gömlu sóknarkirkjunni í
Þykkvabænum af sóknarprestinum. Skömmu eftir athöfnina átti ég leið til
Sveinjóns, sem vann þá við múrverk í væntanlegum skólastjórabústað, beint á
móti kirkjunni. Barst þá í tal giftingarathöfn sú, sem þá var rétt um garð gengin.
Taldi ég, að þarna hefði væntanlega verið mikið gæfuspor stigið, er ástfangið par
hefði óskað eftir því að hljóta blessun kirkjunnar, sem innsiglaði sambúð þeirra
og samlíf ævilangt. En þarna kom ég heldur illa við kaunin hjá Sveinjóni. Hann
taldi að þarna hefði kirkjan tjóðrað þessar manneskjur saman. Nú væru þau ófrjáls
að því að líta fram hjá hvort öðru, þau væru orðin fangar, aumir bandingjar. Út úr
þessum ummælum gat ég lesið eftirfarandi: Trúlega hlaut maðurinn aldrei þá
konu, sem hann þráði, og orðið einn á báti í lífinu. Son átti Sveinjón reyndar,
iðnaðarmann í Reykjavík.
Þegar Sveinjón var andaður, orti ég eftirfarandi eftir hann:
Hefur degi hallað brátt;
held ég þegi varla.
Skal nú heygja, skýran þrátt,
skáldið Eyjafjalla.
-114-