Goðasteinn - 01.09.2003, Blaðsíða 159
Goðasteinn 2003
Látnir 2002
fæddur 1988, augasteinn föður síns, sem átt hefur heima síðustu árin hjá honum og stjúp-
móður sinni, Sigurbjörgu Björgúlfsdóttur, dóttur Pálínu Jónsdóttur og Björgúlfs
Þorvarðarsonar á Hrafntóftum. Ásmundur og Sigurbjörg gengu í heilagt hjónaband 27.
júní 1998. Þau áttu saman margan hamingjudag og gott sálufélag. Dætur þeirra eru
Álfheiður Fanney, fædd 2000 og Ásrún Ásta, fædd 2002. Heimili fjölskyldunnar er að
Laufskálum 5 á Hellu.
Ásmundur starfaði lengst af hjá Glerverksmiðjunni Samverki á Hellu, en vann
vetrartíma fyrir nokkrum árum við virkjanaframkvæmdir á hálendinu. Fyrir utan skyldu-
störfin varði hann drýgstum hluta tíma síns í hesta og hestamennsku, sem var hans
aðaláhugamál frá unga aldri eins og fyrr var getið, og gaf honum mesta lífsfyllingu. Þar
eignaðist hann líka kunningja og vini sem margir nutu ómældrar hjálpsemi hans og
greiðvikni, en Ásmundur var löngum óspar á viðvikin þegar eftir var leitað. Hann færðist
þá tíðum töluvert í fang og gat stundum gengið nærri sér með ósérhlífni sinni. Hann var
heiðarlegur í viðskiptum og samskiptum, og vænti þess sama af öðrum. Hann var félagi í
Hestamannafélaginu Geysi í mörg ár, og lagði starfi þess lið með margvíslegu móti.
Innan hestamennskunnar var eitt megináhugaefni hans í seinni tíð varðveizla og ræktun
hjálmskjóttra hesta.
í kvæðinu „Fákar“ kemst Einar Benediktsson skáld svo að orði:
Efinni er þröngt, tak hnakk þinn og hest
og hleyptu á burt undir loftsins þök.
Hýstu aldrei þinn harm. Það er best.
Að heiman, lít, efþú berst í vök.
Þaðfinnst ekki mein, sem ei breytist og bœtist,
ei böl, sem ei þaggast, ei lund, sem ei kætist
við fjörgammsins stoltu og sterku tök.
Lát hann stökkva, svo draumar þíns hjarta rætist.
Ásmundur var glaðsinna og glaðbeittur í fasi, og oft stutt í ærsl og uppátæki. Hann
varðveitti ævilangt í sér barnið og sakleysi þess, og var einkar létt urn að umgangast
börn, skyld og vandalaus, og vann greiðlega traust þeirra og vináttu. Mörg sóttu þau til
hans í hesthúsið, eða fundu hann á förnum vegi, glaðan og reifan, eins og við munum
hann öll. En undir því viðmóti leyndist viðkvæmt og auðsært hjarta, heitt og til-
finningaríkt. í fylgsnum þess var stundum þröngt um Ásmund, og þar hýsti hann harm
sinn, bar einn tilfinningar sínar og vanlíðan og forðaðist að bera þær á torg, sem hann
áleit íþyngja þeim sem næst honum stóðu. Þetta ágerðist eftir bilslys sem Ásmundur lenti
í snemma árs 2000, og í reynd varð hann aldrei samur maður eftir.
Ásmundur lést á Hellu 8. september 2002. Útför hans var gerð í Odda 20. september
að viðstöddu miklu fjölmenni.
Sr. Sigurður Jónsson í Odda
-157-