Goðasteinn - 01.09.2010, Page 48
46
Goðasteinn 2010
en reynt hafi verið að bæta það upp (Fljótshlíðarskóli Skýrsla um skólahald í
Fljótshlíðarskóla 1936-1937). Hér er komin skýringin fyrir því að kennsluvikur
eru 33 þennan vetur, en þá er verið að bæta upp veikinda- og ófærðardaga.
Það tók Óskar yfirleitt hálftíma að ganga í skólann. Á leiðinni þurfti að fara
yfir læk og á, Grófina og Kvoslækjarána. Hreppurinn lét setja brýr yfir, sem
búnar voru til úr tveimur símastaurum, plankagólfi og voru þær með handriði.
Í miklum vatnavöxtum flaut stundum brúin af Grófinni og þá komust börnin
ekki yfir og fóru ekki í skóla. Á Kvoslækjaránni stóð brúin miklu hærra, en í
vatnavöxtum flæddi allt í kring þannig að ekki var hægt að komast að brúnni.
Skólinn byrjaði klukkan 9 á morgnana og stóð til 3 á daginn. Börnin komu
með nesti með sér og borðuðu það um hádegisbil. Teknar voru frímínútur
tvisvar yfir daginn og voru þær fyrri fyrir hádegi og seinni eftir hádegi. Í frí-
mínútum var alltaf farið út í leiki t.d. kýlóbolta. Ekki minnist Óskar þess að
kennari hafi verið með í frímínútum, kannski örfá skipti, en annars léku þau sér
ein. Halldór kennari kenndi flestar greinar þ.e. lestur, réttritun, skrift, reikning,
landafræði, sögu, teikningu, kristinfræði, náttúrufræði og leikfimi. Eiginkona
Halldórs, Katrín, sá um að kenna stúlkunum handavinnu eins og áður hefur
verið greint frá. Stundum kom trésmiður á staðinn, Guðmundur Þórðarson
(sá sem var yfirsmiður þegar skólinn var byggður), og kenndi smíði. Einnig
var kenndur söngur og kom þá kennslukonan sem kenndi í Hlíðarendakoti og
var með söngtíma. Aðaláhersla var lögð á ættjarðarlög. Skemmtilegustu náms-
greinar Óskars voru teikning, reikningur og leikfimi.
Kennsla í reikningi fór þannig fram að dæmi voru skrifuð á töflu og nem-
endur skrifuðu þau í stílabók og reiknuðu síðan. Hjálpargögn voru engin, nema
þá fingurnir. Margir nemendur komu læsir í skólann, en Óskar man eftir nokkr-
um skólafélögum sem áttu erfitt með lesturinn, voru stirðlæsir. Hann minnist
þess ekki að þeir hafi fengið einhverja viðbótarkennslu vegna þessa, en hafi
það verið urðu aðrir nemendur ekki varir við það. Ekki minnist Óskar þess
að eldri nemendur hafi verið látnir hjálpa þeim yngri. Í sögu voru kenndar
Íslendingasögur og lögð áhersla á þær sögur sem gerðust í sveitinni, til dæmis
Njálssaga. Kennt var um merkustu menn Íslandssögunnar, svo sem biskupana
í Skálholti og á Hólum, Skúla Magnússon og Sæmund fróða. Í landafræði var
unnið með landakort og lönd skoðuð á stóru heimskorti sem hékk uppi á vegg.
Í náttúrufræði minnist Óskar þess að stórar veggmyndir hafi hangið uppi á
vegg til að skýra líkamann og voru þær notaðar til að teikna eftir í vinnubækur.
Kennari sá um að úthluta námsbókum og stílabókum, blýöntum og strokleðr-
um. Aðgangur að bókum var ekki greiður á þessum tíma og ekki kominn vísir
að bókasafni í sveitina. Yfirleitt gátu börnin aðeins lesið þær námsbækur sem