Goðasteinn - 01.09.2010, Blaðsíða 54
52
Goðasteinn 2010
arbækur, en annars var aðgangur að lestrarefni hjá Sigríði mjög takmarkaður.
Hún hafði mjög gaman af því að lesa og var orðin læs þegar hún byrjaði í skóla.
Hún lærði að lesa þegar eldri bræður hennar fengu tilsögn, en þá fylgdist hún
vel með og lærði tæknina á hvolfi eða öfugum megin frá.
Í reikningi var ekki notast við hjálpargögn, nema fingurna. Dæmi voru
skrifuð á töflu og þau sett í stílabók og síðan reiknuð. Lögð var áhersla á reikni-
aðgerðirnar fjórar þ.e. samlagningu, frádrátt, margföldun og deilingu. Marg-
földunartöfluna voru nemendur látnir læra utan að, auk þess sem farið var í
brot, tugabrot og prósentur. Aðgerðir eins og rúmfræði minnist hún ekki að hafi
verið kenndar. Í landafræði var lesið upp úr bókum og það voru til heimskort
til að finna staði á kortum, en það gerði kennarinn stundum. Sigríði fannst erf-
itt að ímynda sér líf í öðrum löndum á þessum tíma og einnig að skilja það að
jörðin væri hnöttótt. Hún minnist þess vel að hafa lesið í bók að í Danmörku
væri hver lófastór blettur ræktaður og hugsaði með sér að allt væri nú hægt að
prenta í bækur. Síðar á lífsleiðinni fór hún til Danmerkur og minntist þá þess-
arar setningar því hún sá að þetta var satt.
Sigríður minnist þess aldrei að erfitt hafi verið að ráða við nemendur og í
frímínútum var engin gæsla, heldur fóru þeir einir út að leika og allt gekk vel.
Helstu leikir í frímínútum voru kýlóbolti og „eitt par fram fyrir ekkjumann“.
Þegar krakkarnir urðu eldri, 12-14 ára, fóru þau stundum upp á loft í frímín-
útum og dönsuðu þar og sungu.
Ferðir til og frá skóla gengu yfirleitt vel. Stundum kom það fyrir að planki,
sem lá yfir læk sem brú, flaut í burtu. Þegar það gerðist þurfti að ganga mun
lengra og fara yfir á stíflu. Þá þurfti að hafa hraðann á svo ekki yrði mætt of
seint, en þessi leið lengdi ferðina um hálftíma. Sigríði finnst eins og það hafi
verið skólabjalla sem hringdi inn, en er þó ekki viss. Á hverju vori voru tekin
vorpróf og þá kom prófdómari og sat yfir börnunum. Þegar skólaskyldu lauk
voru tekin fullnaðarpróf.
Samgangur milli bæja var ekki mikill. Helst var það á sumrin, þegar farið
var í útreiðatúra að krakkar hittust. Fara þurfti yfir blautar mýrar og móa og
voru sums staðar settir plankar yfir blautustu svæðin svo auðveldara væri fyrir
börnin að fara yfir. Ekki minnist Sigríður þess að nemendur hafi verið blautir
þegar í skólann kom, enda áttu þau flest stígvél. Hafi börnin verið blaut var hiti
í húsinu og því hægt að þurrka föt og hlýja sér.
Fermingarfræðsla stóð yfir í tvo vetur. Það var presturinn sem sá um hana.
Hann byrjaði eftir áramót og tók þá börnin í fræðslu eftir messu, en ætlast var
til að þau mættu í kirkju. Í lok fræðslunnar kannaði presturinn þekkingu tilvon-
andi fermingarbarna.