Goðasteinn - 01.09.2010, Page 57
55
Goðasteinn 2010
Vorið 1936 flutti í austurbæinn Pétur Guðmundsson og kona hans Soffía
Guðmundsdóttir. Þau áttu mörg börn, sum uppkomin og önnur í bernsku.
Yngsti sonur þeirra hjóna fæddist eftir að þau fluttu að Hildisey. Afkomandi
þeirra býr nú í austurbænum í Stóru-Hildisey þegar þetta er skrifað.
Í Stóru-Hildisey var og er tvíbýli. Um aldamótin 1900 var þar þríbýli.
Faðir minn var fæddur árið 1872, á Vindási á Rangárvöllum. Forfeður hans í
beinan karllegg höfðu búið þar frá því um miðja átjándu öld. Faðir föðurömmu
minnar var ættaður úr Þykkvabæ en móðurætt var úr Landsveit. Sumar greinar
þeirrar ættar má rekja aftur í aldir, víðs vegar um landið.
Móðir mín var fædd árið 1885, á Blábringu á Rangárvöllum. Það býli mun
hafa verið stuttan tíma í ábúð. Föðurætt hennar var frá Uxahrygg í sömu sveit.
Sú ætt hafði búið þar frá því á seinni hluta átjándu aldar, hafði flutt að Ux-
ahrygg utan úr Ölveri í Árnessýslu.
Móðuramma mín var frá Vestmannaeyjum. Hennar ætt má að nokkru rekja
upp í Landeyjar eftir því sem ég hef síðar fræðst um. Móðir móðurömmu
minnar flutti til Utahfylkis í Bandaríkjunum, ásamt hluta fjölskyldu sinnar.
Mun það hafa verið seint á nítjándu öld. Þetta var dugnaðarfólk, sem efnaðist
vel í vesturheimi og hafði bréfasamband við ömmu mína meðan hún lifði.
Mín fyrsta bernskuminning tengist gamla torfbænum heima. Ég man eftir
óttalega löngum bæjargöngum með moldarveggi til beggja handa. Fyrst lágu
þau beint út úr bæjarhúsi að austanverðu. Síðan voru önnur göng, þvert á þau
og lá norðurendi þeirra inn í gamla eldhús en suðurendi til bæjardyra fram á
bæjarhlað. Ekki löngu eftir að ég man fyrst eftir var byggður nýr svokallaður
frambær. Þá voru bæjardyrnar færðar og nýr inngangur gerður í bæinn, svo að
styttra varð til dyra.
Í frambæ var búr og geymsla. Í búrinu var skyrið búið til. Á köldum stað í
horni stóð sýrutunna og ofan á henni skyrgrind með tilheyrandi skyrsíu. Þar
var búið til besta skyr sem ég hefi bragðað. Gömlu göngin héldu sér að nokkru
á aðra hönd eftir nýju viðbygginguna. Einnig stóð gamla eldhúsið áfram. Það
var nú aðeins notað þegar verið var að sjóða slátur og eins þegar reykt var kjöt
eða bjúgu. Móðir mín bjó til mjög góð bjúgu. Hún sagði alltaf að ef þau ættu
að vera góð, þyrfti að vanda vel til þeirra.
Í gamla eldhúsi voru stundum bakaðar flatkökur á glóðarhellu. Það var þó
sjaldnar gert eftir að eldavél kom í bæinn. Ég man hvað það var gaman að sitja
og horfa inn í glóðina þegar verið var að elda inni í gamla eldhúsi, þrátt fyrir
allt kafið sem óhjákvæmilega myndaðist við þessar aðstæður.
Við nútímakonur, sem sýslum með sjálfvirk rafmagnsáhöld mættum gjarn-