Goðasteinn - 01.09.2010, Page 62
60
Goðasteinn 2010
síðan skipað upp með þeim áraskipum sem tiltæk voru í Landeyjum. Menn
úr sveitinni unnu við uppskipunina. Eins og gefur að skilja varð sjór að vera
ládauður. Vinna við þessa uppskipun fór fram við hinar erfiðustu aðstæður og
mátti þá oft litlu muna. Sá atburður varð á þessum árum að áraskipi hvolfdi og
fóru menn í sjóinn. Fyrir mikið snarræði var þeim bjargað og voru sumir þeirra
þá orðnir mjög þrekaðir og báru þess vart bætur síðan.
Einhverju sinni fékk ég að fara fram í Sand þegar verið var að vinna við
uppskipun. Ég var ekki gömul þá og mun þetta hafa verið mín fyrsta ferð nið-
ur að sjó. Þá var faðir minn og einnig bróðir minn þar í vinnu. Pabbi var einn
þeirra sem réri milli skips og lands með vörur. Var hann þá með skipsfélögum
sínum og formanni á því skipi sem þeir höfðu róið á til fiskjar þá um veturinn.
Einhver fleiri skip sem réru frá Sandinum voru þar líka í ferðum. Frá þessari
ferð minni í Sandinn eru mér minnisstæðir hlaðar af alls konar varningi sem
staflað var uppi á kampi svo sem mélvöru og sykri. Molasykur var í stórum
trékössum að mig minnir. Þarna var líka byggingarvara, svo sem timbur og
járnplötur. Þær voru sagðar erfiðar og varasamar í uppskipun eins og nærri má
geta. Ég man það að timbrinu var staflað á sérstakan hátt þannig að einskonar
skýli myndaðist. Mun vaktmaður, er gætti þess varnings er var í Sandi, meðan
á uppskipun stóð, hafa haft þar skjól um nætur.
Með bátsferðum frá Eyjum komu oft sumardvalarbörn í sveitina á vorin.
Þau fóru svo aftur sömu leið þegar haustaði. Fyrstu sumardvalarbörnin sem ég
man eftir á mínum bæ voru indælar telpur úr Eyjum. Fyrst telpa sem gætti mín
þegar móðir mín var á engjum. Svo komu aðrar sem voru meira til snúninga
eins og sagt var.
Börn komu líka í austurbæinn bæði frá Eyum og úr Reykjavík. Oft var gam-
an að kynnast þeim og leika sér við þau, þegar færi gafst. Systurnar í austurbæ
komu til þess að hjálpa til þegar leið að slætti. Þær dvöldu oft í Reykjavík á
vetrin og þegar þær komu, fluttu þær með sér andblæ frá höfuðborginni og
klæddu sig eftir tískunni eins og ungra stúlkna er siður. Mér er í minni hvað
ég var feimin við þær. Bróðir þeirra var einnig heima yfir sumarið. Hann átti
svokallaðan ferðagrammófón, eins og stöku menn áttu þá. Þetta tæki þurfti
auðvitað að trekkja upp öðru hvoru þegar spilað var á það. Ég man það að ég
nálgaðist þetta töfratæki með lotningu, stóð næstum stjörf af undrun og hrifn-
ingu þegar kallinn í plötunni var að syngja. Að hugsa sér alla þessa töfratóna
sem komu úr þessum svarta kassa. Fleiri en ég voru hrifnir og það var vinsælt
af gestum og gangandi þegar spilað var á fóninn. Mér er nú ljóst að hljómplöt-
urnar voru valdar af smekkvísi. Þarna voru plötur með íslenskum sönglögum,
sungin af eldri söngvurum okkar. Svo voru plötur með ýmsum klassískum