Goðasteinn - 01.09.2010, Side 89
87
Goðasteinn 2010
milli Oddaverja og Sturlunga voru einkar mikil og nægir að nefna að Snorri
Sturluson ólst upp í Odda og Hálfdan Sæmundarson á Keldum átti Steinvöru,
dóttur Sighvats Sturlusonar, höfðingjadóttur af Vesturlandi sem giftist austur
þangað líkt og Hallgerður langbrók. Líklegt er að frjór jarðvegur fyrir arfsagnir
úr þeim héruðum, sem eru helsta sögusvið Njáls sögu, hafi verið meðal helstu
ætta á Suðurlandi, sérstaklega Oddaverja sem bjuggu margir á aðalsögusvið-
inu.
2.2 Brandur Jónsson og Þykkvabæjarklaustur
Bent hefur verið á að hetjur Íslendingasagna eigi sér stundum hliðstæður
í samtíma þeirra sem rituðu þær og séu sögurnar jafnvel ritaðar til minning-
ar um þá. Snorri goði þiggi t.d. ýmsa drætti frá Snorra Sturlusyni og Aron
Hjörleifsson sé líkleg fyrirmynd Gísla Súrssonar.4 Í Svínfellinga sögu er þessi
lýsing: „---ágætur höfðingi, klerkur góður, vitur og vinsæll, ríkur og góðgjarn.
Og í þann tíma hafði hann mest mannheill þeirra manna er þá voru á Íslandi“.5
Þarna er átt við Brand Jónsson ábóta í Þykkvabæ og síðar biskup á Hólum. Um
Njál Þorgeirsson er sagt „---vitr var hann og forspár, heilráðr og góðgjarn, ok
varð allt at ráði, þat er hann réð mönnum---“.6 Brandur var oft fenginn til að
miðla málum í deilum höfðingja á Sturlungaöld. Nafnið Brandur hefur líka
ákveðin tengsl við brennuna þannig að Njáll gæti verið hliðstæða hans að ein-
hverju leyti. Báðir báru þeir kyndla kristninnar.
Sú hugmynd hefur verið viðruð að ritun Njálu hafi tengst Þykkvabæjar-
klaustri þar sem Brandur Jónsson varð ábóti árið 1247. Þar voru forsendur fyrir
þjóðlegri og alþjóðlegri menntun en fyrsti ábótinn í Þykkvabæ var Þorlákur
Þórhallsson, síðar biskup, sem lærði í Odda, nam þjóðlegan fróðleik hjá móður
sinni og stundaði nám í Frakklandi og á Englandi.7 Brandur sjálfur sinnti bæði
helgisagnaritun og veraldlegri sagnaritun með þýðingum sínum á Gyðinga sögu
og Alexanders sögu en síðarnefnda þýðingin þykir meistaraverk og bent hef-
ur verið á tengsl hennar við Njáls sögu.8 Brandur minntist sérstaklega þriggja
lærisveina sinna, Jörundar Hólabiskups sem hann sagði hafa verið minnugust-
an, Runólfs Sigmundssonar sem hann taldi kostgæfastan og Árna Þorlákssonar
Skálholtbiskups sem hefði haft næmastan skilning. Þeir voru allir á besta aldri
þegar sagan er talin rituð 1275-12909 og því nærtækt að leita Njáluhöfundar
4 Helgi Þorláksson 1992:306-315
5 Sturlunga saga II 1988:550
6 Brennu –Njáls saga 1954:57
7 Biskupa sögur II 2002:49-51
8 Einar Ólafur Sveinsson 1954:XXXVI
9 Íslensk bókmenntasaga II:143