Goðasteinn - 01.09.2010, Page 144
142
Goðasteinn 2010
Ágæta samkoma. Ég vil í upphafi orða minna þakka
Oddafélaginu fyrir þann heiður að bjóða mér að segja
frá veru minni í Odda við þetta tækifæri. Jafnframt
þakka ég ágætum félögum mínum þar fyrir ánægju-
legt samstarf og samverustundir á liðnum árum, og
óska félaginu alls góðs í framtíðinni.
Tildrög þess að ég fór á sínum tíma að gefa Odda-
prestakalli gaum, má að nokkru leyti rekja til kynna
okkar séra Arngríms Jónssonar þáverandi sóknar-
prests í Háteigskirkju, en á námsárum mínum í guð-
fræðideild gegndi ég þjónustu messudjákna hjá honum
samtals í þrjú ár, ásamt fleiri guðfræðinemum. Var það
lærdómsríkur tími og skerpti mjög skilning minn á helgihaldi kirkjunnar og
iðkun þess, en það er annað mál. Séra Arngrímur rifjaði stundum upp veru sína
í Odda og mér varð ljóst að staðurinn átti sérstakan sess í huga hans. Ég man að
einhvern tíma sagði hann að ekki væri til betra prestakall!
Sjálfur vissi ég lítið um Oddastað annað en flestir Íslendingar, og á ég þá
við almenn kynni flestra af hinum skemmtilegu þjóðsögum af Sæmundi fróða
og skiptum hans við kölska. Oddi virtist mér ekki hafa viðlíka sess í hugum
fólks og ýmsir aðrir kirkju- og sögustaðir. Þegar við guðfræðinemar heimsótt-
um Rangárþing haustið 1986 þótti einhverra hluta vegna ekki ástæða til að
vitja þessa sögustaðar, né heimsækja neinn söfnuð í þessu langfjölmennasta
prestakalli héraðsins.
Við konan mín, Jóhanna Friðriksdóttir, gerðum bragarbót á þessu einn skýj-
aðan júnídag árið 1987, lögðum lykkju á leið okkar og gerðum stuttan stans í
Odda í fyrsta sinn á ævinni. Nokkuð þótti mér staðurinn utan við alfaraleið, og
jafnvel dálítið einmanalegur, en orkaði þó að ýmsu leyti vel á mig, einkum og
sér í lagi kirkjan, sem séra Stefán Lárusson lauk upp fyrir okkur og sýndi. Slík
Sr. Sigurður Jónsson
Í Odda 1991 – 2006