Goðasteinn - 01.09.2010, Page 148
146
Goðasteinn 2010
mína í Odda tók ég upp samstarf við leikskólann Heklukot á Hellu, heimsótti
börnin þar vikulega og hafði fyrir þau fræðslu og helgistund, og 6-12 ára börn
hitti ég jafnoft á virkum dögum í skólanum. Þetta tryggði gagnkvæm kynni
prestsins við yngsta sóknarfólkið, en kemur þó ekki í staðinn fyrir eðlilega
kirkjusókn fjölskyldunnar allrar. Kristilegt unglingastarf fyrir allt prófasts-
dæmið sameiginlega sá Sigurður Grétar Sigurðsson guðfræðinemi um nokkra
vetur, en síðan samdi Oddasókn við KFUM og K um að annast reglubundið
kristilegt æskulýðsstarf á Hellu.
Fermingarfræðslan var alla tíð fyrirferðarmikill þáttur í starfinu, en ferm-
ingarbörnin hitti ég vikulega í skólunum allan veturinn, auk þess sem þeim var
jafnan ætlað nokkurt hlutverk í helgihaldinu þann tíma. Flest fermdi ég 35 börn
í prestakallinu árið 1995.
Gömlu fólki og einstæðingum reyndi ég að sinna eftir föngum, og kom á
föstum heimsóknartímum á dvalarheimilinum Lundi á Hellu og Kirkjuhvoli á
Hvolsvelli. Þar voru einnig haldnar guðsþjónustur með reglulegu millibili, svo
sem forveri minn hafði haft. Mikil og kærkomin aðstöðubót varð til kirkjulegrar
þjónustu á Lundi, þegar kapella heimilisins var vígð á jólaföstunni 2002. Lundur
átti sér vísan samastað í hjarta fjölskyldu minnar, því þar starfaði Jóhanna kona
mín sem hjúkrunarforstjóri frá 1995 til 2006, að undanskildum vetrinum 2003-
2004 þegar við dvöldum í borginni St. Paul í Minnesota í Bandaríkjunum.
Stórólfshvolssókn var færð undan prestakallinu um mitt ár 1996 og lauk þá
5 ára þjónustu minni við Stórólfshvolssöfnuð. Sú samfylgd var ánægjuleg og
áfallalaus að mínum dómi, en frá upphafi veru minnar eystra lá engu að síður
fyrir að sókninni var ætlað að flytjast yfir til Breiðabólsstaðarprestakalls, eins
og fyrr var getið, og því vitað fyrirfram að okkur væri ekki skapað nema skilja.
Í tvö og hálft ár, frá 1. júlí 1996 til ársloka 1998 var Oddaprestakall því aðeins
tvær sóknir með um 850 sóknarbörn og munaði mikið um hve léttari þjónustan
var, sérstaklega á stórhátíðum. Í ársbyrjun 1999 var Þykkvabæjarsókn (áður Há-
bæjarsókn) bætt við Oddaprestakall, og fjölgaði þá á ný um rúmlega 200 manns
í kallinu. Sú viðbót var mér kærkomin, og sambúð mín við Þykkbæinga var
með mestu ágætum, þó ég segi sjálfur frá. Margt var unnið af miklum mynd-
arbrag í Þykkvabænum, fannst mér, og lýsing séra Matthíasar á „hrossætum á
hundaþúfum” fannst mér ekki eiga við undir aldamótin 2000. Skólahald átti
sér langa sögu í Þykkvabænum, og þar var þá starfandi grunnskóli fyrir yngra
aldursstigið, frá 6-12 ára, og voru tæplega 40 börn í skólanum um aldamótin,
en fækkaði hratt og rétt fylltu postulatöluna þegar skólinn var lagður niður og
sameinaður grunnskólanum á Hellu 2004.