Goðasteinn - 01.09.2010, Page 165
163
Goðasteinn 2010
í rútu til guðsþjónustu og á eftir er kaffi drukkið og reynt er að hafa „örlítið
betra“ með messukaffinu. Síðan var dagur eldriborgara, haldinn hátíðlegur að
venju á uppstigningadag sem bar upp á 21. maí og hófst með guðsþjónustu í
Breiðabólsstaðarkirkju og kaffisamsæti í Goðalandi á eftir
Ný heimasíða hefur verið opnuð fyrir prófastsdæmin þrjú hér á Suðurlandi
undir veffanginu kirkjan.is/sudurland. Klerkar á suðurlandi settust á skólabekk
dagpart einn vordaginn fyrir tæpu ári og lærðu undirstöðuatriði heimasíðugerðar,
og hægt og bítandi er nú síðan að taka á sig heillega mynd. En það eru prestarnir
sem eru ábyrgðarmenn fyrir því efni sem birtist á síðunni.
Í byrjun október var haldið námskeið fyrir presta Rangárvalla-,
Skaftafells- og Árnesprófastsdæma í Skálholti. Þar mættu prestar þessara
prófastsdæma og hlýddu á og ræddu guðfræðileg málefni. Við höfum gert þetta
áður og þá eins og nú hlotið afar góðan hljómgrunn.
Héraðssjóður prófastdæmisins hefur stutt margvísleg kirkjuleg málefni í
prófastdæminu og verið styrktaraðili þarflegra verkefna á vegum kirkjunnar og
má þar m.a. nefna stuðning við kirkjukóra og önnur tónlistarverkefni sem fólk
hér í sýslu hefur komið að og staðið fyrir. Útgjöld hérðassjóðs til líknarmála
jókst töluvert sl. ár líkt og árið á undan og sem betur fer gátum við lagt lið.
Suðurprófastsdæmi. Frá og með 1. janúar 2010 sameinast prófastsdæmin
þrjú hér á Suðurlandi og Vestmannaeyjar í eitt prófastsdæmi, Suðurprófastsdæmi.
Vil ég nota tækifærið og kveðja prófastsdæmið gamla með söknuði og þakka
það sem liðið er, - allt gott og gegnheilt, um leið og ég lít með tilhlökkun til þess
sem framundan er.
Kirkjan og við sem innan hennar störfum stefnum vissulega að sífellt auknu
og margbreytilegra starfi og er það í samræmi við þá þörf, sem fyrir hendi er á
svo mörgum sviðum mannlífsins, og þá augljósu staðreynd, að það ber að vinna
verk þess, er okkur sendi, til hagsældar og blessunar öllum lýð. Megi svo verða
framvegis sem hingað til.
Að lokum skulu færðar ómældar þakkir prestum, sóknarnefndarfólki,
kórfélögum, organistum, meðhjálpurum, hringjurum og öllum þeim sem við
kirkjuna starfa eða koma að málefnum hennar á einn eða annan hátt, fyrir störfin
þeirra góðu.
Hið ærna starf kirkjunnar er hvarvetna unnið af miklum dugnaði og
ósérhlífni.
Sr. Halldóra J. Þorvarðardóttir
prófastur