Goðasteinn - 01.09.2010, Page 181
179
Goðasteinn 2010
Guðbjörg var húsmóðir fyrst og helst, aðalstarf hennar var heimilishaldið en
vann við hlið bræðra sinna í öllum störfum úti við þegar á þurfti að halda, sér í
lagi í heyskapnum á sumrin, og einnig sá hún um mjaltirnar. Á Minni-Völlum
voru gamlar íslenskar hefðir í heiðri hafðar og þar réðu ráðdeild og búhyggindi
ríkjum jafnt utan dyra sem innan. Guðbjörg kunni góð skil á því verklagi sem
hún ólst upp við. Allt var heimagert svo sem kostur var, hún vann úr öllum mat
sem til féll, var mikil prjóna og hannyrðakona, prjónaði peysur, sokka og vett-
linga, heklaði milliverk og saumaði út.
Hún var kjölfestan á heimilinu sem með jafnlyndi sínu og rósemi vakti yfir
öllum sem þar dvöldu. Þar var ekki óðagotið. Hún gaf sér tíma í hvaðeina sem
hún tók sér fyrir hendur kom öllu í verk og allt var vel unnið. Drengirnir sem
voru sumarbörn á Minni-Völlum héldu tryggð við hana og þau systkin alla tíð
og litu margir þeirra á hana sem sína aðra móður.
Guðbjörg fylgdist vel með öllu sem fram fór í dagsins önn og í þjóðlífinu,
minnung og hafði mikinn áhuga á hverskyns fróðleik, sér í lagi öllu þjóðlegu.
Guðbjörg lifði farsælu lífi, fór vel með allt, og hófsemi og nægjusemi var æv-
inlega í fyrirrúmi.
Hún gætin í orðum en meinti það sem hún sagði og kom vel fyrir sig orði,
raungóð, þrautseig, trú vinum sínum og ættmennum og góð heim að sækja. Hún
var ein þeirra sem gerði jafnan lítið úr eigin verkum, en var þakklát fyrir vináttu
og tryggð allra þeirra sem hún umgekkst, sveitunga, vina og ættingja um farinn
veg. Til æviloka hélt hún andlegri heilsu þótt líkaminn væri orðinn slitinn.
Árið 2004 hættu þau systkin búskap og fluttu á Hellu og bjuggu sér heimili
að Hólavangi 9, en Óskar var þá fyrir nokkru kominn að Lundi og lést þar árið
2006. Nú í haust fluttu hún og Ásgeir að dvalarheimilinu Lundi.
Guðbjörg andaðist á Lundi að morgni fullveldisdags okkar Íslendinga 1.
desember, 89 ára að aldri. Útför hennar fór fram frá Skarðskirkju 8. desember
2009.
Sr. Halldóra J. Þorvarðardóttir