Goðasteinn - 01.09.2010, Page 187
185
Goðasteinn 2010
Verkahringur hans var bundinn Marteinstungu alla ævi og búskapurinn var
líf hans og starf. Hann var dugnaðarbóndi, byggði upp fjós og hlöðu, gerði upp
gamla bæinn, ræktaði góð tún og bjó góðu búi. Með árunum gekk Gunnar sonur
hans til liðs við hann og tók við búinu að fullu árið 1995. Fátt gladdi Manna
meira en vita að ævistarf hans og forfeðra hélt áfram að blómgast í höndum
nýrrar kynslóðar.
Hann var sérlega barngóður og ástríkur faðir, óendanlega þolinmóður og
skilningsríkur við barnssálina. Umhyggja hans fyrir börnunum sex og síðar
tengdabörnunum og afabörnunum átti sér lítil takmörk. Hann hafði sérlega gott
lag á því að hvetja þau og leiða þau áfram og sýna þeim hvernig ætti að bera sig
að við hin ýmsu verkefni, alltaf rólegur og umburðalyndur og þau fengu að taka
fullan þátt í öllum verkum búsins.
Og hann var fljótur að átta sig á breytingunum í samtíðinni og nýjum við-
horfum hveru sinni. Hann var með þeim fyrstu til að kaupa dráttarvél í sveitinni
og þá var ekki legið á liði sínu að leyfa öðrum að njóta með og aðstoða sveit-
unga við slátt oft fram á rauðanætur. Og eins kom snemma á búskaparárunum
Rússajeppi í Marteinstungu og hann nýttur vel og virtist endalaust taka við
einum krakkanum enn sem hoppaði upp í áður en haldið var af stað. Systkinun-
um eru ógleymanlegar minningarnar allar um ferðirnar í honum, - í réttirnar og
ferðalög hingað og þangað, því alltaf var verið að kappkosta við leyfa börn-
unum að fara af bæ og njóta þess holla sem í boði var.
Hann var kirkjunnar maður, enda innrætt frá barnæsku virðing og vænt-
umþykja fyrir kirkjunni á hlaðinu. Klukkum þessarar kirkju hringdi hann til
helgra tíða og athafna langt fram yfir nírætt. Og það var með ólíkindum að sjá
hinn háaldraða mann snarast líkt og liðugan ungling upp og niður turnstigann,
og handtök hans á kaðlinum, þau voru örugg og þétt.
Manni var léttur í lund og glaður í viðmóti, hlýr og traustur. Hann var sífellt
að, gekk að vinnu frá morgni til kvölds til hárrar elli og hélt heilsu og kröftum
fram á háan aldur. Hann hafði þó um nokkurt skeið fundið fyrir þeim sjúkdómi
sem að lokum hafði yfirhöndina. Í vor fluttu þau hjón suður í Kópavog, þar sem
heilsu Guttorms var farið að hraka verulega og Elke annaðist mann sinn af ein-
stakri alúð og nærgætni.
Hann andaðist þann 10. nóvember eftir skamma sjúkradvöl. Útför hans fór
fram frá Marteinstungukirkju 21. nóvember 2009.
Sr. Halldóra J. Þorvarðardóttir