Goðasteinn - 01.09.2010, Page 188
186
Goðasteinn 2010
Heiða Magnúsdóttir frá Haukadal
Heiða hét Stefanía Heiða Magnúsdóttir og var fædd
í Haukadal 25. ágúst 1939. Hún var af traustu og góðu
bergi brotin og stóðu að henni bændaættir til beggja
handa. Foreldrar hennar voru hjónin í Haukadal Jónína
Hafliðadóttir frá Fossi á Rangárvöllum og Magnús Run-
ólfsson frá Mykjunesi í Holtum, alinn upp í Marteins-
tungu. Hún var yngst fjögurra systkina þeirra; Sigrúnar
Ágústu, Hauks og Hafsteins. Heiða ólst upp í Haukadal
í öruggu vari foreldra sinna og bernskan leið við leik og
störf. Og veganestið úr foreldrahúsum voru þau góðu
lífsgildi sem hún síðar studdist við á vegferðinni.
Upp úr tvítugu réði hún sig til starfa í Gunnarsholti og vann þar í mörg ár
sem ráðskona og minntist jafnan þeirra tíma með hlýju. Síðar flutti hún að Hellu
og sinnti ýmsum störfum þar til hún hóf störf í Grillinu á Hellu þar sem hún
kynntist eiginmanni sínum Haraldi Teitssyni frá Reykjavík sem andaðist árið
2007. Þau eignuðust synina tvo, þá Teit f. 1976, og Atla Hauk f. 1977. Heiða og
Haraldur slitu samvistir.
Fjölskyldan bjó víða um land og Heiða vann hin ýmsu störf þar til þau fluttu
að Hellu á ný og þá fannst henni hún komin heim. En fyrst og helst var Heiða
móðir og húsmóðir og heimilið var hennar helga vé. Synirnir Teitur og Atli
Haukur, litlu sonarsynirnir og tengdadæturnar voru gleðin hennar öll sem allt
hennar líf snérist um. Ástin og tryggðin til þeirra knúði hana áfram til hinstu
stundar.
Heiða var að eðlisfari rólynd og hlý í viðmóti. Og hún kunni að gleðjast á
góðri stundu. Hún var vinur vina sinna, greiðvikin og til hennar var ævinlega
gott að leita.
Lífsviðhorf hennar endurspeglaðist í mildi hennar og nærgætni gagnvart
öðrum, umburðarlyndi og þeim eiginleika að sjá jafnan fremur kosti annarra
manna en galla þeirra. Og næm var hún á mannlegar tilfinningar svo börn og
unglingar löðuðust að henni, hún var samúðarrík og mátti ekkert aumt sjá.
Þessi hjartahlýja kona hlaut þau örlög að taka glímuna við þann vágest er allt
of fáum eirir. Hún tókst á við veikindi sín af jafnaðargeði og yfirvegun og var
sannarleg hetja til hinstu stundar. Og nú að leiðarlokum minnumst við Heiðu
fyrir ljúflyndi hennar og hlýju sem geislaði frá henni og laðaði að vini. Aldrei
ofdrifin, alltaf einlæg, trygglynd, æðrulaus og umhyggjusöm, jafnvel svo að
umhyggja hennar fyrir þeim sem henni þótti vænt um varð ofar hennar eigin
þörfum.