Goðasteinn - 01.09.2010, Page 199
197
Goðasteinn 2010
Magnús Kristinn Finnbogason frá Lágafelli.
Tíminn líður eins og næturvaka og það er eitthvað
hulið og sterkt sem talar til okkar, um líf að baki þessu,
um framhald, sem við skiljum ekki, en trúum á gagnvart
þessum orðum: „Hverfið aftur þér mannanna börn, því
að þúsund ár eru í þinum augum, sem dagurinn í gær
þegar hann er liðinn, já eins og næturvaka.“ Og þegar
við spyrjum um hvað tekur við, þá hljómar svar Jesú til
Nikódemusar: “Undrast þú ekki að ég sagði þér. Yður
ber að endurfæðast. Vindurinn blæs, hvar sem hann vill
og þú heyrir þytinn í honum, en ekki veistu hvaðan hann kemur eða hvert hann
fer. Eins er farið hverjum sem af andanum er fæddur.”
Þetta eru þau trúarorð, sem mér finnst að hafi verið trú hans, bóndans, rækt-
unarmannsins, félagsmálamannsins, hugsjónamannsins og leiðtogans, Magn-
úsar Finnbogasonar frá Lágafelli, sem óskaði eftir að hans væri minnst af hverj-
um og einum samferðamanni, sem sá hinn sami ætti út af fyrir sig, en ekki í
skrifaðri ræðu eða annarri samantekt.
Hann fæddist á Lágafelli, 13. mars 1933 foreldrum sínum Finnboga Magn-
ússyni frá Reynisdal í Mýrdal og Vilborgu Sæmundsdóttur frá Lágafelli. Eldri
systur hans eru Hólmfríður og fóstursystir Guðrún Árnadóttir, sem kom barn-
ung á heimilið.
Magnús gékk í farskóla Austur-Landeyja og lauk síðan gagnfræðaprófi frá
Héraðsskólanum á Laugarvatni. Fór á vertíðir til Vestmannaeyja og víðar þar
til hann tók við búi á Lágafelli eftir lát föður síns 1959, fyrst í félagsbúi með
móður sinni. Hann giftist Auði Hrefnu Hermannsdóttur 1961 og eignuðust þau
þrjú börn: Vilborgu 1962, Finnboga 1971 og Ragnhildi 1975.
2001 fluttu Magnús og Auður að Gilsbakka 2 á Hvolsvelli, þar sem hann var
áfram eins og í sveitinni sinni, umkringdur Austur-Landeyingum og vinum, þar
sem hans biðu ný störf til að takast á við og leysa úr.
Síðan tókst hann á við veikindin sem greindust 2007, sem hann ætlaði að
sigra á sinn hátt eins og önnur viðfangsefni lífsins. Fór á sjúkrahús og síðar á
Kirkjuhvol þar sem hann naut góðrar umönnunar. Og sannarlega átti hann það
sem honum var dýrmætast, konuna sína sér við hlið og börnin, tengdabörnin og
barnabörnin, sem hann fylgdist svo nákvæmlega með frá degi til dags.
Hann andaðist á Kirkjuhvoli 5. maí 2009 og var jarðsettur frá Krosskirkju
16. maí.
Sr. Halldór Gunnarsson