Goðasteinn - 01.09.2010, Blaðsíða 212
210
Goðasteinn 2010
Vilborg f. 1940, maki Steinar Þór Jónasson. Pálína f. 1941, maki Björgúlfur
Þorvarðsson. Gísli Ingvar f. 1943 d. 2003, ekkja hans Margrét Fjeldsted. Jóna
Borg f. 1948, maki Ludvig Guðmundsson. Dóttir fædd andvana 1955. Afkom-
endur þeirra eru 118.
Þau stunduðu hefbundin búskap í Norður-Nýjabæ og voru árin í Þykkvabæ
fjölskyldunni góð. Síðar bættist kartöfluræktin við en Jón Óskar var ásamt Ósk-
ari Sigurðssyni í Hábæ frumkvöðull að kartöflurækt í stórum stíl. Jón Óskar
vann einnig á þessum árum við smíðar. Í Þykkvbænum ríkti mikil samhjálp og
fóru menn á milli til smíða þegar þess gerðist þörf þar sem víða var lagt hönd á
plóg fyrir náungann. Sigurbjörg var hög í höndunum og fór snemma að sauma
föt, hún lærði kjóla- og klæðskerasaum og varð meistari í þeirri grein. Sig-
urbjörg stundaði alltaf þá iðn sem hún menntaðist til, vann við saumaskap og
hélt saumanámskeið í sveitunum.
Fjölskyldan flutti frá Þykkvabænum til Reykajvíkur árið 1953 og settist að á
Langholtsvegi 44. Á Langholtsveginum var hús- og hjartarými óþrjótandi enda
voru þau hjónin mikið gæðafólk. Allar dætur þeirra hófu sinn búskap á Langholts-
veginum. Oft var líflegt í húsinu og mikið um að vera. Þar voru í hverju horni börn
sem léku sér og ærsluðust, nutu þess að hafa ömmu og afa nálægt sér.
Í Reykjavík vann Jón Óskar hjá Áburðarverksmiðju Ríkisins, seinna við
smíðar, húsaflutninga, ýmsa verkamannavinnu, lengst af í Gúmmívinnustofu
Reykjavíkur og Barðanum. Jón Óskar vann utan heimilis, en Sigurbjörg var
heimavinnandi húsmóðir. Hún hafði þó atvinnu af saumaskap og saumaði mik-
ið heima, átti alltaf fasta viðskiptavini enda afskaplega góð saumakona.
Jón Óskar var verklaginn, vandvirkur og mikill hagleiksmaður. Á meðan
hann gat, skar hann í tré. Áhugamál þeirra hjóna voru samofin náttúrunni. Jón
Óskar hafði mikla ánægju af ferðalögum og laxveiðum. Hann fór víða til veiða
og vildi helst hafa með sér fjölskylduna, börnin eða tengdabörnin. Sigurbjörg
hafi dálæti á blómum og gróðri, hún hóf strax að koma upp myndarlegum og
fallegum garði á Langholtsveginum, gróðursetti þar ótal blómategundir. Jón
smíðaði þar gróðurhús og í því ræktuðu þau m.a. rósir. Hún fór víða til að tína
jurtir, þurrka þær og sjóða úr þeim grasavatn og áburð sem hún hafði mikla trú
á að hjálpaði fólki. Vildi hún m.a. þakka grasavatninu háan aldur og góða heilsu
þeirra hjóna. Voru það ófáir sem til hennar leituðu, sömuleiðis til sáluhjálpar
enda miðlaði hún óspart af jákvæðni sinni og gæsku.
Sigurbjörg var fróð um marga hluti og áhugasöm, ekki síst í ættfræði og var
hún stálminnug. Hún hafði gaman af vísum og kveðskap og kunni ósköpin öll
af vísum. Það átti vel við Jón Óskar að tefla enda var hann fámáll og hæglátur.
Hann var geðprúður og mjög gamansamur.