Bændablaðið - 10.10.2024, Side 4

Bændablaðið - 10.10.2024, Side 4
4 Fréttir Bændablaðið | Fimmtudagur 10. október 2024 FB Reykjavík Korngarðar 12 570 9800 FB Selfoss Austurvegur 64 a 570 9840 FB Hvolsvöllur Duftþaksbraut 1 570 9850 www.fodur.is fodur@fodur.is * Tilboðið gildir til 31. október 2024 eða á meðan birgðir endast TILBOÐ MÁNAÐARINS* 20% AFSLÁTTUR AF STÖMPUM OG STEINUM Umhverfisstofnun: Samfélagslosun dróst saman um 2,8 prósent – Áframhaldandi samdráttur í landbúnaði Samfélagslosun, sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda, dróst saman um 2,8 prósent milli ára. Losun frá landbúnaði var 4,4 prósent minni, sem flokkast undir samfélagslosun. Skýringin á samdrættinum á losun frá landbúnaði er sem fyrr að sauðfé fækkar, sem er talin nema um fjórum prósentum á ári að meðaltali frá 2016. Einnig var samdráttur í losun vegna minni áburðarnotkunar í landbúnaði árið 2023 samanborið við fyrri ár. Gögn frá RML „Það liggja ótalmörg gögn að baki þessu mati, bæði innlend og erlend,“ segir Inga Rún Helgadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, spurð um uppruna gagna varðandi losunina frá landbúnaði. „Dýrafjöldinn er sú breyta sem hefur einna mest áhrif. Iðragerjun og meðhöndlun búfjáráburðar er metin á hvert dýr og svo er margfaldað með fjölda dýra. Dýrafjöldinn hefur áhrif á bæði þessi atriði og einnig á hluta losunar frá ræktarlandi þar sem fjöldi dýra hefur áhrif á hversu mikill lífrænn áburður er borinn á tún. Margs konar gögn eru notuð við mat á iðragerjun sauðfjár og nautgripa og er þar notast við innlend gögn í sambland við erlenda stuðla. Meltanleiki fóðurs hefur til dæmis mikil áhrif og hann er reiknaður út frá gögnum frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML). Einnig tökum við inn margar aðrar breytur sem hafa minni áhrif eins og mjólkurframleiðslu, fitu- og prótíninnihald kúamjólkur, meðgöngutíðni kúa og meðgöngu- hlutföll, það er hvort ær séu ein-, tví- eða þrílembdar, og meðalþyngd í hverjum aldursflokki, auk þess sem inni- og útistaða dýra eru teknar inn í reikninginn,“ segir Inga. Þetta séu allt innlend gögn frá RML. Erlendir stuðlar fyrir metanlosun Hún segir óhjákvæmilegt annað en að nota einnig erlenda stuðla. „Við notum til dæmis stuðla frá IPCC [milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar] fyrir það hlutfall fóðurorkuinntöku sem verður að metani og notum aðferðafræði frá IPCC til að reikna iðragerjunina út frá þessum gögnum og stuðlum. Fyrir losun vegna iðragerjunar annarra dýraflokka er einfaldari aðferðafræði notuð. Notast er við innlend gögn yfir dýrafjölda og þyngd dýra og í framhaldi notast við stuðla frá IPCC. Til að reikna út losun frá meðhöndlun búfjáráburðar þarf einnig að hafa upplýsingar um inni- og útistöðutíma og notkunarhlutföll mismunandi gerða búfjáráburðargeymslna, auk nokkurra fleiri breyta,“ segir Inga. Unnið að því að afla innlendra gagna Varðandi þann möguleika að Ísland geti sjálft lagt til gögn og stuðla sem eigi við um íslenskar aðstæður, segir Inga að þau séu mjög meðvituð um að aðstæður á Íslandi séu um margt ólíkar þeim aðstæðum sem IPCC stuðlarnir eru miðaðir við. „Því erum við að reyna að fá fleiri innlenda stuðla og auka samstarfið við innlenda sérfræðinga varðandi val á stuðlum og bætt gögn. Þessar umbætur hafa verið í gangi undanfarin ár hjá okkur og munu halda áfram af fullum krafti. En það er skemmtilegt að segja frá því að það er flott verkefni að hefjast í samstarfi við Landbúnaðarháskólann til að afla innlendra stuðla fyrir losun frá hauggeymslum á sauðfjár- og nautgripabúum sem við erum mjög spennt fyrir.“ Hún segir að á hverju ári sé gögnum safnað í öllum flokkum bókhaldsins og losun hvers flokks reiknuð út. Tækifæri til umbóta Inga viðurkennir að það eru ýmis tækifæri til að gera enn betur og segir að það séu einmitt verkefni í gangi til að bæta úr þeim atriðum sem losunarbókhaldssérfræðingum finnst mikilvæg til að gefa sem réttasta mynd á losun Íslands. „Það er auðvitað margt sem við vitum varðandi losun frá búfjárrækt en einnig margt sem við vitum ekki. Við getum til dæmis ekki sagt hver heildarlosunin er vegna sauðfjárræktar á Íslandi þar sem til dæmis áburðarnotkun á Íslandi eru einungis til fyrir landið í heild en ekki skipt niður á ákveðnar búfjárgreinar. Við erum með umbótaáætlun og uppfærum aðferðafræði ákveðinna flokka eða söfnum breyttum gögnum í samræmi við hana. Þeim breytingum er ávallt beitt á alla tímalínuna, það er að segja losunin er uppfærð fyrir öll ár bókhaldsins og samanburður tveggja ára á því að sýna raunverulegan mun í losun milli þessara ára en ekki mun vegna breyttrar aðferðafræði við útreikninga í bókhaldinu.“ Landnotkunarflokkurinn losar langmest Heildarlosun Íslands skiptist í þrjá skuldbindingarflokka, í samræmi við skuldbingingar Íslands gagnvart EES samningnum: Samfélagslosun, sem inniheldur m.a. losun frá samgöngum, frá fiskiskipum, frá landbúnaði og frá meðhöndlun úrgangs og skólps; losun vegna landnotkunar (LULUCF), sem skógræktin er hluti af; og losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (svokallað ETS kerfi), sem inniheldur stóriðju. Skuld bindinga f lokkurinn „sam félags losun“ sam svarar 22 prósent af heildar losun Íslands, og af þeim losunarflokkum sem falla undir samfélagslosun, telja „vegasamgöngur“ mest, eða 34 prósent samfélagslosunar, þá „landbúnaður“, 21 prósent, „fiskiskip“, 18 prósent og „urðun úrgangs“, 7,5 prósent. Frá skuldbindingarflokknum „landnotkun“ er langmest af heildarlosun Íslands, eða um 63 prósent, og frá árinu 2021 hafa stjórnvöld þurft að uppfylla skuldbindingar í þeim flokki. Af þeim jarðvegsgerðum sem losa í landnotkunarflokknum er mólendi sá stærsti, um 77 prósent losunar, ræktað land er um 19 prósent og votlendi 11 prósent. „Stærstur hluti losunar innan landnotkunar er rakinn til framræslu lands og framræslan er að mestu framkvæmd í landbúnaðarskyni. Þannig tengist flokkurinn landbúnaði. Það sem flækir málin er að hláturgaslosun þessa framræsta lands, hvort sem það er í nýtingu í dag eða ekki, er talin fram í landbúnaðargeiranum á meðan koldíoxíðs- og metanlosunin er í landnotkunarflokknum. Koldíoxíðslosunin er þó mun meiri en hláturgaslosunin og mikill meirihluti losunarinnar því landnotkunarmegin,“ útskýrir Inga. /smh Landbúnaðarland. Urriðaá í Miðfirði. Mynd / smh Inga Rún Helgadóttir. Matvælaeftirlit: Stýrihópur greiðir úr misfellum Fyrir liggur að matvælaeftirlit hér á landi er óskilvirkt og nýr stýri- hópur hefur það verkefni að koma með tillögu að betra fyrirkomulagi, eftir að ESA áminnti Ísland fyrir brotalamir. Í mars 2023 sendi Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, íslenskum stjórnvöldum bréf þar sem tilkynnt var að stofnunin hefði hafið frumkvæðismál þess efnis að Ísland hefði ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum um opinbert eftirlit með matvælum. Áminning ESA Í júní bars formlegt áminningarbréf þar sem þess er krafist að innleitt verði skilvirkara eftirlit með matvælum, fóðri og dýraheilbrigði. Niðurstöður ESA byggir, samkvæmt tilkynningu stofnunarinnar, á „ítrekuðum niðurstöðum úttekta ESA á Íslandi sem gerðar hafa verið frá árinu 2010“. Þær úttektir hafi leitt í ljós að annmarkar eru á samræmingu verkefna þegar fleiri aðilar koma að eftirlitinu. Ísland hafði tvo mánuði til að koma sjónarmiðum á framfæri áður en ESA ákveður hvort það fari með málið lengra. Í svari matvælaráðuneytisins við fyrirspurn Bændablaðsins um áminningarbréfið segir að eftirlit með hollustuháttum, mengunar- vörnum og matvælum sé í dag flókið samspil ellefu stofnana á tveimur stjórnsýslustigum ríkis og sveitarfélaga, Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar ásamt níu heilbrigðisnefndum sveitarfélaga. Fyrir liggi skýrslur varðandi fyrirkomulag á málefnasviðinu sem benda á bresti í eftirlitinu. „Annars vegar frá KPMG síðan 2020 og hins vegar frá starfshóp á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins (URN) og matvælaráðuneytisins (MAR) sem gefin var út árið 2023. Í báðum skýrslum er niðurstaðan sú að matvælaeftirlit í núverandi mynd sé ósamræmt og óskilvirkt.“ Stýrihópur rýnir sviðsmyndir Í svari matvælaráðuneytisins segir enn fremur að nú hafi verið skipaður stýrihópur sem hefur það að markmiði að rýna þær sviðsmyndir sem koma til greina og koma með tillögu að fyrirkomulagi eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum. Stýrihópurinn samanstandi af sex fulltrúum frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, matvæla- ráðuneytinu, innviðaráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, heilbrigðis eftirlitssvæðum og Samtökum atvinnulífsins. Niður- staðna stýrihópsins er að vænta fyrir árslok. /ghp ESA hefur áminnt Ísland fyrir óskil- virkt matvælaeftirlit. Mynd / Orkun Orcan Ýtt undir nýliðun Ættliðaskipti og nýliðun í land- búnaði er enn til umfjöllunar í þingsályktunartillögu. Lögð hefur verið fram á Alþingi þingsályktunartillaga um ættliðaskipti og nýliðun í landbúnaðarrekstri. Er mælt fyrir því að auðvelda og hvetja til ættliðaskipta og nýliðunar í búskap með skattalegum hvata fyrir kaupendur bújarðar til að halda áfram búskap á bújörð. Einnig með lagaákvæði um húsnæðisstuðning og annan sambærilegan félagslegan stuðning sem hið opinbera veiti. Hvatt er til að horft sé til regluverks í Þýskalandi þar sem heimilt sé að ráðstafa jörð til lögerfingja án greiðslu, í því skyni að halda ákveðnum svæðum í landbúnaðarrekstri, en tekjuskattskvöð virkist ef viðkomandi hættir búskap. Tilgangur tillögunnar er sagður að halda ákveðnum svæðum í land- búnaðarrekstri og tryggja framtíð íslensks landbúnaðar. Tillaga svipaðs efnis hefur áður verið flutt á þremur þingum á síðustu árum. Flutningsmaður tillögunnar er Birgir Þórarinsson, Sjálfstæðisflokki. /sá

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.