Bændablaðið - 10.10.2024, Síða 10
10 Fréttir Bændablaðið | Fimmtudagur 10. október 2024
Auglýst eftir umsækjendum
um stuðning til söfnunar ullar
Matvælaráðuneytið auglýsir eftir umsækjendum um
stuðning til söfnunar ullar samkvæmt reglugerð um
stuðning við sauðfjárrækt.
Umsóknum skal skilað á mar@mar.is, umsóknareyðublöð
fást á vef ráðuneytisins, mar.is.
Stuðningur til söfnunar ullar er háður eftirfarandi skilyrðum:
• Umsækjandi skal vera reiðubúinn að taka við allri
vinnsluhæfri ull af öllum framleiðendum sem þess óska.
• Sækja þarf ull heim til framleiðanda eða taka á móti
ullinni á móttökustöð sem innan 100 km fjarlægðar
frá hverjum einstökum framleiðanda.
• Að minnsta kosti 30% allrar ullar sem aðili móttekur
skal þvegin hér á landi og band, lopi eða samsvarandi
vara unnin úr þessari sömu ull hérlendis.
Umsóknarfrestur er til 24. október næstkomandi.
→ Nánari upplýsingar veitir matvælaráðuneytið — mar@mar.is
Sláturgerð:
Vambir liðnar undir lok
Ekki fást lengur vambir með slátri
frá SS. Neytendur sakna þeirra.
Þeir sem taka slátur virðast ekki
lengur geta fengið vambir nema
þá eftir einhverjum sérleiðum, þær
eru almennt orðnar ófáanlegar til
sláturgerðar. Ýmsir eru ósáttir, segja
annað bragð af slátrinu, auk þess
sem rótgróin matarhefð glatist.
Munar um bragðið af vömbunum
„Við hjónin erum búin að taka slátur
í 52 ár, telst okkur til,“ segir Ásgeir
Eiríksson, sem hafði samband og
lýsti áhyggjum sínum af því að fá
ekki vambir lengur.
„Þetta er mikill uppáhaldsmatur
í fjölskyldunni og yfirleitt mörgum
boðið í mat þegar soðið er slátur hjá
okkur. Það er til dæmis mjög vinsælt
hjá unga fólkinu.
Nú ætla þeir ekki að hleypa
okkur í vambirnar meir. Ég fór í
Hagkaup og ætlaði að kaupa slátur,
eins og ég geri venjulega, en þá var
ekki hægt að fá vambir lengur,“
segir hann.
Ásgeir segist hafa brugðið á
það ráð að hringja beint í SS og
spyrjast fyrir. „Það stóð heima, mér
var sagt að engar vambir yrðu leyfðar
á Reykjavíkursvæðinu. Við þekkjum
aðeins til norður á Akureyri og þar
hefur vinafólk okkar tekið slátur í
mörg ár en mátt una við að fá ekki
vambir um árabil. En við hjónin
ætlum að gefa slátrinu frí hér eftir og
hætta þessu. Það munar um bragðið
sem kemur af vömbunum í slátrið
og öðruvísi slátur sem kemur úr
gervivömbum. Það er bara allt annar
matur,“ segir hann jafnframt.
Prótínkeppurinn sigrar
Ásgeir hefur séð um að gera vambirnar
tilbúnar fyrir slátrið öll árin og er síður
en svo sáttur við þessa niðurstöðu.
Þau hjónin séu bæði fædd árið
1945 og hann gruni að vambaleysið
muni marka endalok sláturgerðar hjá
í það minnsta einhverjum hluta eldra
fólks. „Ég á von á því að sú kynslóð
leggi þetta af að stórum hluta til,
því miður.“
Lengstum voru vambir sniðnar,
skornar niður og saumaðir úr þeim
keppir sem síðan voru fylltir með
blöndu af niðurskornum mör, rúgmjöli
og annaðhvort blóði eða hakkaðri lifur
og stundum líka nýrum. Notkun á
vömbum hefur þó orðið minni á síðari
árum og nú notast við tilbúna keppi,
m.a. svokallaða prótínkeppi.
SS hefur séð Hagkaup fyrir slátri
og fylgja prótínkeppir slátrinu. Í fyrra
voru 90% af öllum vömbum hjá SS
seld í dýrafóðursframleiðslu og hitt
selt með slátri. Þótti í raun ekki svara
kostnaði að kalóna og selja vambir.
Ekki fengust viðbrögð fyrir
fyrirspurn til SS um stöðu mála í
ár. Árið 2014 var reynt að hætta
með vambir hjá SS og þá eingöngu
seldir prótínkeppir. Bar SS fyrir sig
minnkandi sölu, kostnaði, rýrnun við
vinnsluna og úreltum tækjabúnaði.
Um 15 þúsund vambir höfðu selst
haustið áður, allar frá SS. Kalónaðar
vambir (hreinsaðar með leskjuðu
kalki og sjóðheitu vatni) fóru þó
aftur í sölu um tíma en nú virðast
vambirnar heyra sögunni til. /sá
Vambir utan um slátur virðast nú heyra sögunni til í matarmenningu Íslendinga. Mynd / Úr safni
Verkefnið Brothættar byggðir hlýtur 135 milljóna
króna aukafjárframlag frá Byggðastofnun. Með
fjárframlaginu á að auka viðspyrnu byggðarlaga sem
glíma við erfiðleika.
Verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir, hófst
fyrir rúmum áratug, en meginmarkmið þess er að sporna
við viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðarkjörnum og
sveitum landsins.
Verkefnið hefur almennt gengið vel og ánægja verið
ríkjandi hjá þeim byggðarlögum sem tekið hafa þátt, en
þau eru fjórtán talsins. Teljanlegar framfarir hafa orðið
nær undantekningarlaust, enda virk þátttaka, frumkvæði
og samstaða íbúa og sveitarfélaga almennt góð.
Kristján Þ. Halldórsson, sérfræðingur á þróunarsviði
og fulltrúi verkefnisins frá upphafi, segir að samkvæmt
byggðaáætlun hafi verkefnið úr 120 milljónum kr. að spila
árlega en nú bætast við 45 milljónir kr.. á ári í þrjú ár með
nýsamþykktu viðbótarframlagi.
Mun framlagið skiptast á þrjú ár, 2025–2027, og er
markmiðið að auka viðspyrnu í þeim byggðarlögum sem
á þurfa að halda, liðka fyrir þátttöku fleiri byggðarlaga,
lengja gildistíma nýrra samninga og auka þannig stuðning
við frumkvæðisverkefni. Til viðbótar verður tveimur
byggðarlögum sem hafa verið þátttakendur í verkefninu
en glíma enn við örðugleika, boðið að taka þátt í tilrauna-/
átaksverkefni til að fylgja eftir frekari árangri. Á málþingi
sem haldið var á Raufarhöfn fyrir ári síðan sögðu þau
Kristján og Helga Harðardóttir, sem einnig er sérfræðingur
þróunarsviðs, að unnið væri að því að taka fleiri byggðarlög
sem falla undir hatt verkefnisins.
Kristján og Helga segja aukaframlag Byggðastofnunar
skipta verulega miklu máli og kærkomin viðbót við að
styrkja starf Brothættra byggða enn frekar.
Auk þess gefi það tækifæri til að kanna leiðir og gera
tilraun til að koma til móts við byggðarlög sem voru
þátttakendur á fyrri árum verkefnisins en eru þrátt fyrir
það í þröngri stöðu um þessar mundir.
„Við erum að bræða með okkur og þreifa á áhuga á slíku
tímabundnu tilrauna- og átaksverkefni til þriggja ára. Því
erum við á þessari stundu ekki í stöðu til að upplýsa hvaða
byggðarlög munu verða þátttakendur. Á hinn bóginn getum
við sagt að stuðningurinn frá Byggðastofnun inn í þessi
verkefni er fyrst og fremst hugsaður til að styðja við bakið
á frumkvöðlum í viðkomandi byggðarlögum. Verkefnin
verða unnin í samstarfi við landshlutasamtök og sveitarfélög
og það er jafnframt von okkar að þetta geti orðið til þess
að íbúar nýti tækifærið til frekara samtals og samstarfs um
hagsmuni og möguleika síns samfélags,“ segir Kristján.
/sp
Byggðastofnun:
Aukið fjármagn til
Brothættra byggða
Helga Harðardóttir og Kristján Þ. Halldórsson, umsjónar-
aðilar Brothættra byggða. Mynd / Byggðastofnun
Fyrir Alþingi liggur þings-
ályktunartillaga um niður-
greiðslu á raforku til garðyrkju-
bænda.
Lagt er til að við búvörulög nr.
99/1993 verði bætt nýju ákvæði til
bráðabirgða um að þrátt fyrir ákvæði
1. og 2. mgr. 58. gr. skuli ríkissjóður
niðurgreiða garðyrkjubændum
allan kostnað við flutning og
dreifingu raforku vegna framleiðslu
garðyrkjuafurða á árunum 2025, 2026,
2027 og 2028, að þeim skilyrðum
uppfylltum að orkukaupin séu
vegna atvinnustarfsemi. Niðurgreidd
raforka sé sérmæld og fari einungis
til loftræstingar eða lýsingar plantna
til að örva vöxt þeirra. Framleiðslan
sé ætluð til sölu og að ársnotkun sé
meiri en 100 MWst á ári.
Heildarfjárhæð niðurgreiðslna
skv. 1. málsl. skuli ekki takmarkast
við heildarframlög í samningum sem
íslenska ríkið geri við framleiðendur
garðyrkjuafurða
Jafnframt skuli ríkissjóður
niðurgreiða garðyrkjubændum helming
kostnaðar vegna uppbyggingar á
dreifikerfi raforku til garðyrkjubýla,
gróðrarstöðva og garðyrkjustöðva
á árunum 2025, 2026, 2027 og 2028.
Ráðherra verði heimilt að fela
Matvælastofnun eða öðrum opinberum
aðila að annast faglega umsjón með
niðurgreiðslu á kostnaði við flutning
og dreifingu raforku, enda sé skipulag
þeirra og starfsreglur í samræmi við
ákvæði laga.
Flutningsmaður þingsályktunar-
tillögunnar er Inga Sæland, Flokki
fólksins og er þetta í fimmta sinn sem
hún er flutt. Bændasamtök Íslands
lýstu í umsögn á 153. löggjafarþingi
yfir stuðningi við frumvarpið. /sá
Raforka verði niðurgreidd
Mast:
Fuglainflúensa víða
Rökstuddur grunur er um
fuglainflúensu í hröfnum og
öðrum villtum fuglum.
Matvælastofnun (Mast) greinir
frá því að uppi sé rökstuddur
grunur um fuglainflúensu, bæði í
hröfnum og öðrum villtum fuglum.
Bráðabirgðaniðurstöður úr sýnum
úr villtum fuglum gefi til kynna
sýkingu með fuglainflúensuveirum.
Samhliða hafi í auknum mæli borist
tilkynningar til Mast um veika eða
dauða villta fugla.
Almenningi er ráðlagt að
handsama ekki villtan fugl sem er
hættur að forða sér í burtu, heldur
skal tilkynna slíkan fund til Mast
og fylgjast með fuglinum. Allir sem
halda alifugla og aðra villta fugla
skulu viðhafa ýtrustu smitvarnir til
að koma í veg fyrir smit frá villtum
fuglum í eigin fugla.
Sýni hafa verið tekin úr tveimur
hröfnum sem fundust annars vegar
á Laugarvatni og hins vegar í
Öræfum. Þá hefur verið tekið sýni
úr hettumávum á Húsavík. Annar
hrafnanna fannst veikur og drapst
svo, hinn hrafninn virtist vera
heilbrigður en gat ekki flogið. Hann
var tekinn til aðhlynningar en um
síðustu helgi, tveimur vikum eftir
að hann fannst, var hann aflífaður
þar sem ástandi hans hrakaði
mikið. Hettumávarnir fundust
dauðir á Húsavík. Tilraunastöð HÍ
í meinafræði að Keldum greindi
fuglainflúensuveirur í þessum sýnum
en beðið er staðfestingar á meinvirkni
og gerð fuglainflúensuveiranna.
Vísbendingar eru þannig um að
fuglainflúensa gæti verið víða í
villtum fuglum um þessar mundir.
Mast ítrekar að allir sem halda
alifugla og aðra fugla skuli gæta
ýtrustu smitvarna, því meiri hætta
er nú á að smit leynist í umhverfi
fuglahúsa. Stofnunin mun
endurskoða viðbúnaðarstig þegar
endanlegar niðurstöður um gerð
veiranna liggur fyrir. /sá
Fuglainflúensa hefur nú greinst í
hröfnum m.a. Mynd / Logga Wiggler