Ársrit Skógræktarfélags Íslands - 15.12.1946, Qupperneq 36
34
sem er mikið jökulvatn, er hefir grafið sig djúpt niður í
hin mjúka jökulframburð, sem er undir öllum jarðvegi
dalsins. Dalurinn er sléttlendur, en einstaka fell rísa upp
á flatlendinu. Frá sjónarmiði íslendings er dalurinn ein-
staklega búsældarlegur, enda er hann allur skógi vaxinn,
nema þar, sem lönd hafa verið rudd undir akra og tún.
Loftslag er ágætt í dalnum, sumur eru heit og staðviðri
mestan hluta árs, en vetur nokkuð kaldir. Þar er hægt að
rækta ýmsar tegundir korns, en aðal framleiðsla bændanna
er samt mjólk og kjöt, enda er mest þörf fyrir þær vörur í
Alaska. Búskapurinn í Matanuska hefir gengið fremur
skrykkjótt alveg fram að því er stríðið hófst, en þá batn-
aði mjög afkoma bænda í bili. Hvort framhald verður á
hinni góðu afkomu er ekki unnt að segja að svo stöddu,
en af því að bærinn Anchorage hefir vaxið mjög á stríðs-
árunum, eru nokkurar líkur til þess, að bændurnir muni
framvegis búa við betri markað.
Á fáeinum stöðum í dalnum er sandfok að byrja. Þótt
ekki hafi mikið kveðið að slíku enn, þá hafa samt einstöku
jarðir haft all mikil óþægindi af því. Fái þetta fok að vera
óheft í fáein ár, munu afleiðingar þess geta orðið tilfinn-
anlegar, því að þarna eru öll hin beztu skilyrði til upp-
blásturs, eins og vér þekkjum þau bezt hér á landi. Jarð-
vegur er grunnur lössjarðvegur, víða er búið að ryðja og
brenna skóginn, en eftir er lélegt graslendi, sem notað er
til beitar. Aðal vindáttirnar eru eftir endilöngum dalnum,
og þegar þurrir haustvindar blása af landi niður dalinn,
fer sandur að fjúka þar, sem nokkur sár eru á gróður-
sverðinum- Ég kom á einn slíkan stað, þar sem gróður
hafði verið upp höggvinn og skemmdur á árbakka, en síð-
an hafði verið lagður vegur nærri bakkabrúninni. Sandur
hafði síðan fokið yfir veginn og hlaðizt upp hinum megin
við hann. Er sandhrúgan hafði kæft gróður þann, sem
undir varð, fór hún að blása burt, og nú hefir myndazt
dálítill sandgeiri, þar sem háhrúgan lá áður, og stefnir
sandurinn beint út dalinn úr þessum geira.