Skógræktarritið - 15.10.2019, Page 62
SKÓGRÆKTARRITIÐ 201960
skóginum er að fá greinalausa og kvistlausa
boli sem eykur verðgildi afurðanna.
Viðurinn er eftirsóttur auk þess sem það er
algengt borgartré. Ganga um hávaxinn og
þéttan beykiskóginn gaf ámóta tilfinningu
og að ganga um dómkirkju þar sem hátt
er til lofts og vítt til veggja. Þegar horft var
upp milli trjánna sáust topparnir bærast.
Það hallaði að degi og eftir viðburða-
ríkan dag héldum við til Jaca.
20. október – Þjóðgarðurinn í Ordesa
Eftir morgunverð var haldið af stað í átt
að þjóðgarðinum í Ordesa, kenndum
við dalinn og gljúfrin sem við fetuðum
okkur eftir í norðurátt. Garðurinn var
stofnaður svo snemma sem 1918 og var svo
stækkaður árið 1982 og tekur nú yfir 156
km2. Frá árinu 1997 hefur Ordesa verið á
Heimsminjaskrá UNESCO. Hér var Oscar
á heimavelli þar sem hann hefur unnið
að rannsóknum á skógum og gróðurfari í
garðinum sl. þrjú ár. Fyrirhugað er að birta
greinagóða skýrslu um þessar rannsóknir
eftir eitt til tvö ár. Það er hins vegar ekki
á vísan að róa í þeim efnum sagði Oscar,
þar sem stjórnvöld skera nú grimmt niður
allar fjárveitingar á þessu sviði, staða sem
hljómar jafnvel kunnuglega í okkar eyru.
Þegar horft var upp snarbrattar hlíðarnar
velti maður því fyrir sér hvernig skógur
getur hafst við í slíkum bratta. Þrátt fyrir
hornafræðina er skógarbeykið (Fagus
sylvatica) mest áberandi en einnig töluvert
af evrópuþin (Abies alba), skógarfuru
(Pinus sylvestris), pyreneaeik (Quercus
subpyrenaica) en auk þess var hér innan
um minna af hengibjörk (Betula pendula)
og ask (Fraxinus excelsior) auk nokkurra
víðitegunda, m.a Salix angustifolia og
ýmsar fleiri ónefndar tegundir. Um og
ofan 2000 m var svo að finna bergfuruna
sem við skoðuðum svo vel daginn áður,
sem tróndi hæst allra trjátegunda á hæstu
bríkum en þangað fórum við ekki heldur
héldum okkur í dalbotninum.
Kjörlendi trjátegunda í Pýreneafjöllum, samkvæmt hæð og landslagi. Mynd: Juan Manuel Rubiale