Golf á Íslandi - 01.08.2015, Side 8
Hvar á Íslandsmótið að vera?
Íslandsmótið í golfi er stærsti viðburður sem
golfhreyfingin stendur fyrir á hverju ári.
Undirbúningur hefst mörgum mánuðum áður
en fyrsti keppandi slær upphafshöggið sitt og
vinnustundirnar að baki eru óteljandi. Mikill
fjöldi sjálfboðaliða leggur á sig ómælda vinnu til
að gera aðstæður með besta móti svo færustu
kylfingar landsins fái notið þess til fulls að leika
á mótinu. Þessi vinna sjálfboðaliðanna verður
aldrei fullmetin að verðleikum og því mikilvægt
að halda starfi þeirra á lofti við hvert tilefni.
Það er eftirsóknarvert fyrir golfklúbba landsins að halda Íslandsmót.
Í því felst m.a. góð auglýsing fyrir klúbbinn og golfvöllinn, enda kemur
fjöldi áhorfenda á staðinn til að fylgjast með spennandi keppni auk þess
sem þúsundir sjónvarpsáhorfenda fylgjast með heima í stofu. Eins og
flestir vita þá er sjónvarpað frá mótinu í beinni útsendingu á stærstu
sjónvarpsstöð landsins. Ég hef áður sagt það en segi það hér aftur,
að slíkt er einsdæmi í heiminum. Ég veit ekki til þess að sýnt sé frá
áhugamannamóti í golfi í beinni útsendingu í sjónvarpi. Þessi auglýsing
fyrir völlinn fær fleiri kylfinga til að vilja leika völlinn og njóta alls þess
sem hann hefur upp á að bjóða.
Undanfarin ár hefur umræða um Íslandsmótsvellina farið vaxandi og
togast á tvenns konar sjónarmið. Sjónarmið þeirra sem vilja eingöngu
að Íslandsmótið fari fram á höfuðborgarsvæðinu og þeirra sem vilja
dreifa mótunum um landið. Til þessa hefur golfhreyfingin notast
við seinni aðferðarfræðina og oftar en ekki hefur Íslandsmótið verið
haldið hjá golfklúbbi sem fagnar stórafmæli það árið. Að sjálfsögðu
er stórafmæli golfklúbbs, eitt og sér, ekki næg ástæða til að halda þar
Íslandsmót þar sem margt annað þarf að koma til, sem snýr að gæðum
vallar og annarri aðstöðu.
Það má tefla fram sterkum rökum fyrir báðum sjónarmiðum. Ef mótið
væri bundið við höfuðborgarsvæðið myndu, að öllum líkindum,
fleiri áhorfendur mæta á staðinn, sem er mikilvægt fyrir keppendur,
aðstandendur og samstarfsaðila. Það gefur mótinu mun skemmtilegri
blæ þegar margir áhorfendur fylgja keppendum eftir. Framkvæmd
mótsins getur líka að mörgu leyti verið auðveldari þegar mótið er haldið
á höfuðborgarsvæðinu.
Hins vegar getur það verið frábær lyftistöng fyrir klúbba utan
höfuðborgarsvæðisins að halda Íslandsmót. Völlurinn fær góða
kynningu, áhugi á íþróttinni í sveitarfélaginu eykst og mikil þekking og
reynsla við mótahald verður til. Þá geta klúbbarnir nýtt sér viðburðinn
til að auka samstarf við sitt sveitarfélag.
Þrátt fyrir frábært afþreyingargildi fyrir hinn almenna kylfing þá er
golf keppnisíþrótt og þegar bestu kylfingar landsins koma saman á
stærsta móti ársins þá þarf að gera ríkar kröfur til keppnisvallar og
aðstöðu. Það er mikilvægt að kröfur og væntingar til golfvallarins séu
miklar því bestu kylfingarnir verðskulda bestu aðstæðurnar. Það er
verkefni golfhreyfingarinnar að setja sér reglur og viðmið þegar kemur
að mótahaldi í framtíðinni og stendur sú vinna yfir. Eðlilegt er að
mismunandi viðmið séu lögð til grundvallar eftir því hvaða mót á í
hlut auk þess sem mismunandi sjónarmið geta átt við um unglingamót,
stigamót fullorðinna eða Íslandsmótið sjálft, svo dæmi séu tekin.
Golfvöllur sem uppfyllir skilyrði þess að halda almennt stigamót þarf
ekki endilega að vera heppilegur staður fyrir Íslandsmót.
Eftir nokkra daga hefst Íslandsmótið á Garðavelli á Akranesi. Völlurinn
er einn af betri völlum landsins og klárlega heppilegur vettvangur
Íslandsmóts. Völlurinn mun bjóða keppendum upp á krefjandi
áskoranir og munu tveir bestu kylfingarnir í hvorum flokki standa uppi
sem Íslandsmeistarar. Þótt völlurinn tilheyri ekki höfuðborgarsvæðinu
vonast ég innilega til þess að sjá sem flesta áhorfendur á Skaganum.
Vissulega er sjónvarpsútsendingin skemmtileg en það jafnast ekkert á
við að mæta á völlinn. Það er ávísun á góða skemmtun að fylgjast með
bestu kylfingum landsins, milliliðalaust í frábæru umhverfi.
Sjáumst á Garðavelli.
Haukur Örn Birgisson,
forseti Golfsambands Íslands
8 GOLF.IS - Golf á Íslandi
Forseti Golfsambands Íslands