Helgarpósturinn - 08.12.1983, Blaðsíða 22

Helgarpósturinn - 08.12.1983, Blaðsíða 22
BÓKMENNTIR Aftur í sveitina eftir Jón Viðar Jónsson Stefanía Þorgrímsdóttir: * Sagan um Önnu 116 bls. Idunn 1983 Sagan um Önnu fjallar um eíni sem ekki verða talin nýstárleg í bókmenntunum. Þetta er saga um stúlku sem elst upp í sveit, flyst uppkomin á mölina ásamt manni sín- um, eignast þar börn og heimili, en flytur síð- an aftur í sveitina sem hún er ættuð úr. Á baksviði sögunnar skín þannig í þær breyt- ingar sem verða á öllum högum þjóðarinnar við að flytjast úr sveit í borg og væri þó full mikið sagt að þær væru aðalefni verksins. Umfram allt er þetta bók um íslenska nú- tímakonu, þau áhrif sem hinar ytri hræring- ar hafa á líf hennar og viðleitni héhnar til að skoða stöðu sína og lífshlutverki í ljósi þeirra. Lífshlaup það, sem bók þessi lýsir, er að mestu laust við stórviðburði eða dramatík; ætlun höfundar er greinilega að lýsa fremur hversdagslegri manneskju en dæmigerðri fyrir konur í svipaðri aðstöðu, en flétta sögu hennar saman við stærri þjóðlífslýsingu, breiða mynd af kjörum fólks, einkum kvenna, kryddaða ýmsu skemmtilegu smælki um sérkennileg fyrirbæri í íslensku mannlífi. Höfundur forðast mjög að fella beina áfellisdóma yfir þeim fyrirbærum sem áetla má að honum séu ekki með öllu geð- felld og fer þó ekki á milli mála að aðalper- sóna sögunnar, Anna Jóhannesdóttir, er á ýmsan hátt fórnarlamb þess samfélags þar sem karlinn hefur frumkvæðið í sínum höndum og ekki er til annars ætlast af kon- unni en hún ali honum börn og hugsi um heimilið. Anna er þó ekki efni í neinn meiri- háttar uppreisnarmann gegn karlveldinu og þó að hún þrífist ekki alltaf sem best í einan- grun húsverka og barnapössunar fer því víðs fjarri að hún eigi samleið með þeim kynsystrum sínum sem telja sig hafa náð æðra stigi samfélagsmeðvitundar og líta nið- ur á þær konur sem enn eru í þrældómi. Þrátt fyrir allt elskar hún sinn mann og þegar hann vill óður og uppvægur snúa aftur í sveitina, lætur hún undan fortölum hans og fer með honum — enda svo sem vandséð að hún sé nokkru bættari að vera um kyrrt í borginni. Það kemur þó í ljós að sveitin er ekki sú sama og áður var, a.m.k. finnst Önnu ekki svo, og nú lítur út fyrir að alvarlegar sprungur séu að koma í hjónabandið: „Eigin- maður hennar veit víst hvað hann vill og hann skilur þessi börn, sem þau hafa í sam- einingu búið til. Eða gerir hann það? Hún veit ekki einu sinni hvort hún vill þennan mann, sem hún getur ekki án verið, eða hvort hún vill það líf, sem hún lifir. Líf, þar sem henni virðast allir sitja um sig, njósna, fordæma, og gagnrýna, þar sem allir virðast leggjast á eitt um að móta hana í mynd, sem hún er ekki viss um að hæfi sér.“ (bls.106) Áður en sögunni lýkur tekst Helga bónda þó Stefanla Þorgríms- dóttir — hættir ekki á margt, en kemst yfirleitt nokkuð vel frá því sem hún ætlar sér, segir Jón Vióar m.a. I umsögn sinni. að gera konu sinni nýtt barn og er síðasti kafii bókarinnar löng lýsing á fæðingunni, heimafæðingu, sem ljósmóðirin getur ekki verið viðstödd og kemur sér þá vel reynsla grannkvennanna sem vita vel hvernig á að bregðast við aðstæðum sem þessum. Síðasta mynd verksins sýnir þannig hverju sam- staða kvenna fær áorkað í verki og væri þó hæpið að draga af því víðtækar þjóðfélags- legar ályktanir. Um viðbrögð Önnu við þess- um tíðindum segir að vísu fátt og má þó af ýmsu ráða að þau hafi fremur jákvæð áhrif á lífsafstöðu hennar. Væri þá e.t.v. hægt að lesa þann boðskap úr verkinu að konunni sé fyrir bestu að sættast við móðureðlið og haga lífi sínu samkvæmt því. En þá er skylt að gæta þess að Anna Jóhannesdóttir er ekki ein þeirra ógæfusömu kvenna sem eiga sér mikla drauma um voldug afrek utan heimilis. Sagan um Önnu miðlar tæpast neinni almennri lífsspeki sem er miklu frumlegri eða dýpri en sú sem vitnað var til hér að framan og þar er þó nóg af áþekkum hug- leiðingum, sem höfundur setur gjarna í upp- haf nýs kafla, áður en kemur að sjálfu frá- sagnarefninu. Meginveikleiki verksins er að hyggju undirritaðs sá að sjálf lýsing Önnu er öll með daufasta móti, nánast eins og höf- undur hafi ekki verið fær um að skoða hana úr nægilegri fjarlægð. Hana skortir sérkenni sem maður gæti fengið áhuga á og satt best að segja er erfitt að átta sig á því hvert hennar raunverulega vandamál sé, annað en almennur lífsleiði og lítt skilgreind ófull- nægja. Það er eftirtektarvert að lýsingar yngra fólks í sögunni eru almennt mun bragðlausari en eldri persóna, sem bera sumar því glöggt vitni að höfundur hefur næmt auga fyrir sérkennilegu fólki og gott lag á að sýna það á hnitmiðaðan hátt. I þeim hópi eru minnisstæðar persónur eins og Jóhanna, hin fámála móðir Önnu, amma hennar Anna, sem deyr á meðan nafna hennar er á barnsaldri, og Jonína gamla, gömul vinkona ömmu hennar, sem kemur í bæinn til að leita sér lækninga en notar tæki- færið til að ná sambandi við framliðna ætt- ingja. Einna skemmtilegust fannst mér þó lýsing á Hannesi móðurbróður Önnu, sem flutti til Reykjavíkur og varð þar frægur höfundur barnabóka um hið unaðsríka og ævintýralega líf sveitarinnar. Sagan um Önnu er fyrsta skáldsaga Stefaníu Þorgrímsdóttur og treysti ég mér lítt til að hafa í frammi spásagnir um framtíð hennar sem rithöfundar að lestri bókarinnar loknum. Stílsmáti verksins er ekki tilþrifa- mikill, heldur líður jafnt fram á yfirvegaðan, næstum varfærnislegan hátt; höfundur tek- ur engar meiri háttar sveiflur og hættir ekki á margt, en kemst yfirleitt nokkuð vel frá því sem hann ætlar sér. Þó að mikilli spennu sé ekki fyrir að fara í sögunni er hún hreint ekki óskemmtileg aflestrar og veldur þar ekki minnstu fínlegur háðstónn sem setur ríkan svip á textann. Höfundur nýtur þess sýni- lega að draga dár að kotungslegu samfélagi, þar sem oft þarf harla lítið til að verða stór að áliti sjálfs sín og annarra, og er ekki að sökum að spyrja hvort kynið er sekara í þeim efnum. Geðfelldustu lýsingar verksins eru á fullorðnum sveitakonum, sem hafa lært að bera byrðar lífsins af þrautseigju og þolinmæði, en þeirri spurningu, hvort Ánna sé á leið til þeirra, lætur það að sjálfsögðu ósvarað. POPP Svart og hvítt Linton Kwesi Johnson og Dennis Bovell — Tónleikar í Sigtúni. Ég held að tónleikar Linton Kwesi John- son, Dennis Bovell og hljómsveitar hans hafi verið einhverjir þeir bestu sem ég hef farið á í áraraðir. Þar fengum við að kynnast því hvernig á að leika góða reggae-tónlist. Það var líka greinilegt að fólk kunni að meta það sem það fékk að heyra þetta kvöld. Að minnsta kosti minnist ég þess ekki að hafa verið á tónleikum hér, þar sem nánast allur salurinn iðaði af lífi í takt við tónlistina. Það var dansað á gólfinu, á stólum og uppi á borðum. Það var klappað með tónlistinni og sungið þar sem við átti. Dennis Bovell og hljómsveit hans hófu leikinn og var salurinn með á nótunuin al- veg frá fyrsta tóni. Það var strax Ijóst að hér var meiri háttar gott band á ferðinni. Það er ekki, þegar svona hljómsveit er annars veg- ar, hægt að nefna einn hljóðfæraleikara öðr- um betri. Þessir sjö menn á sviðinu voru nefnilega alveg einstaklega samstilltir. Þetta voru ekki sjö einstaklingar að spila hver í sínu horninu, heldur léku þeir saman og mynduðu frábæra heild. Af þeim lögum sem Dennis Bovell söng kannaðist ég í fljótu bragði ekki við nema tvö, þ.e. Bah-be-lon og Brain Damage, en það síðarnefnda er titillag pinu sólóplötu Bovells. Eftir nokkur lög hljómsveitarinnar birtist svo Linton Kwesi Johnson á sviðinu, við mikinn fögnuð áheyrenda. Hann tók fyrst Want Fi Goh Rave en á eftir fylgdu m.a. Dread, Beat & Blood, lt Noh Funny, Inde- pendent Intavenshan, Inglan Is a Bitch, Sonny’s Lettah, Fite Dem Back ofl. Um mið- bik konsertsins las Linton Kwesi svo nokkur ljóð án undirleiks. Voru þau flest ný, utan það að hann leýfði okkur að heyra It Dread Inna Inglan (For George Lindo). I lokin þegar þeir höfðu verið klappaðir upp var m.a. flutt lag af nýrri plötu þeirra, sem væntanleg er á markað í byrjun næsta árs og lofaði það svo sannarlega góðu. Nú veit ég ekki hversu stór hópur áheyr- enda var virkilega kunnugur skáldskap Lint- on Kwesi Johnson, en þeir sem það. voru hafa áreiðanlega haft tvöfalda ánægju út úr kvöldinu, því kveðskapur hans er óneitan- lega með því betra sem heyrist í heimi popp- tónlistar, þó ekki sé hann nú beinlínis skemmtilestur, enda á stundum gerður meira til þess að vekja til umhugsunar, jafn- vel vekja reiði fólks og beina henni í réttan farveg. Það er viðbúið að langt verði þangað til maður fær jafn góðan konsert og þessi var, en hann á áreiðanlega eftir að lifa lengi sem góð minning um kvöldstund sem var virki- lega vel varið. Síöbúin kveöja — G. Rúnar Júl- íusson Þegar mér var rétt þessi nýjasta plata Rún- ars Júlíussonar, datt mér fyrst í hug að nú væri hann að senda frá sér enn einn ösku- haugamatinn, því plötur þær sem hann hef- ur verið að senda frá sér síðustu árin, hafa nú ekki beint verið til þess að hrópa húrra fyrir. Staðreyndin er hins vegar sú að Síðbúin kveðja er hreint ekki svo galin plata. Lögin á henni eru öll eftir Tim Hardin, en hann lést fyrir tveimur árum eða svo. Þetta eru ljúfar laglínur sem renna ágætlega í gegn. Ekki á- takamiklar en ósköp þægilegar. Nú er ég ekki kunnugur tónlist Tim Hardin, ef frá er talið einstaka lag, sem ég hef heyrt í flutningi annarra en hans sjálfs. Ég veit því ekki hversu langt Rúnar og hans lið hefur gengið í því að endurútsetja þau. Hins vegar er allur hljóðfæraleikur á plötu þessari ágætur og frekar líflegur. Nú og Rúnar syngur þetta svo með sínu nefi. Ég geri ráð fyrir að Tim Hardin hafi verið í einhverju sérstöku uppáhaldi hjá Rúnari, fyrst hann ræðst í að minnast hans með þess- uin hætti. Það hefði samt ekkert sakað ef nokkrar línur hefðu fylgt með til að skýra af hverju plata þessi er til komin og ekki hefði það verið verra að nokkur orð hefðu fylgt með um Tim Hardin. Nafn hans er nefnilega ekkert tiltakanlega þekkt og fólk veit næsta lítið um hann. En eftir þessum lögum að dæma virðist það vel þess virði að tékka á honum. Linton Kwesi Johnson — langt I jafn góðan konsert og þessi var, segir Gunnlaugur m.a. I umsögn sinni. Jóhann Helgason — Einn Varla hefur ferill nokkurs íslensks poppara miðast eins mikið við að slá í gegn erlendis og ferill Jóhanns Helgasonar. I tíu ár hefur verið reynt að koma honum á framfæri í út- löndum og hefur hann reynt við hinar ýmsu tónlistarstefnur til þess að ná settu marki, en hingað til virðist árangur ekki hafa verið mjög mikill. Nú er Jóhann Helgason kominn með nýja plötu, sem heitir Einn, og hefur þar greini- lega ekkert verið til sparað til þess að freista þess að ná settu marki. Ég hef þó mínar efa- semdir um að plata þessi eigi eftir að ganga betur en annað sem frá honum hefur komið hingað til. Enn einu sinni breytir Jóhann um stíl, til þess að fylgja tíðarandanum, en einhvern veginn finnst mér línan ekki alveg nógu skýrt mótuð. Þó er nú meginlínan frekar létt- fönkað popp. Söngurinn er ágætur en minn- ir þó stundum á hina og þessa erlerda söngv- ara en einkum finnst mér áberandi þau áhrif sem Brian Ferry hefur haft á ýmsa söngvara sem nú láta að sér kveða og koma þarna sums staðar nokkuð sterk í gegn. Hvort sem fyrirmyndin er sótt beint til Ferrys eða minni spámanna eins og David Silvain. Hljóðfæraleikur á plötunni er allur í hönd- um breskra tónlistarmanna og er hann ágætur en þó ekki sérlega frumlegur. Jóhann hefur alltaf getað samið ágætis popplög, nú eða þá fengið þau að láni, með breytingum. Það má segja að Einn sé ósköp þolanleg plata, sem rennur áreynslulaust í gegn. Ég hef aftur á móti ekki trú á að þetta efni eigi eftir að færa Jóhanni Helgasyni langþráða heimsfrægð. Til þess eru alltof margir um hituna og þessi plata hefur engin sérstök einkenni né annað til að bera til þess að skera sig úr fjöldanum. Þess utan, sem náttúrlega kemur tónlistinni ekki hætishót við, er ég hræddur um að Jóhann hafi ekki rétta ,,feisið.“ 22 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.