Helgarpósturinn - 13.12.1984, Blaðsíða 4

Helgarpósturinn - 13.12.1984, Blaðsíða 4
BÓKMENNTIR Ævintýri Vilhjálms frá Baskerville Þótt Nafrt rósarinnar eftir Umberto Eco hafi nú þegar verið seld í milljónum eintaka um víða veröld hef ég sterklega á tilfinning- unni að enn verði seidar töluvert margar milljónir af henni. Og það helgast af þeirri staðreynd að hún hefur svo margþætta til- höfðun, bæði sem afþreying og fræðirit. Anthony Burgess hefur kveðið svo sterkt að orði að Nafni rósarinnar muni verða skipað í sess með mestu stórvirkjum 20. aldarinnar á sviði bókmennta. Svo framsýnn getur auð- vitað enginn maður verið, en ég skal ekki neita því að mér vefst tunga um tönn ef ég á að benda á aðrar bækur líklegri til þvílíks langlífis. Fjölþœtt merkingarsvid Að undanförnu hefur þessi skáldsaga ver- ið kynnt nokkuð í öðrum blöðum svo óþarft er að rekja söguþráðinn ítarlega hér. I stuttu máli fjallar sagan um morðgátu í klaustri sem Englendingurinn Vilhjálmur frá Basker- ville er fenginn til að leysa á Ítalíu árið 1327. Sagan gerist á einni viku í nóvembermánuði og sögumaður er fylgdarsveinn Vilhjálms, Adso að nafni. Umberto Eco lætur sem bók- in sé skrifuð eftir handriti Adsos frá seinni hluta 14. aldar og byggi á sannsögulegum at- burðum. Sagan um morðin og það hvernig þau upp- lýsast er aðeins einn þáttur textans. Atburð- irnir eru nefnilega tengdir stjórnmálaat- burðum og lífsviðhorfum þessa tíma, eink- um á sviði guðfræði; allt er þetta spunnið saman í auðlesna samfellu, þótt Eco seilist djúpt í fræðabrunn sinn. Lesandanum finnst hann t.d. vera orðinn býsna fróður um átökin milli páfa og Þýskalandskeisara að lestrinum loknum. Þetta tiltekna mál kemur reyndar inn í söguna með þeim hætti að í klaustrinu fer á sögutímanum fram fundur áhrifamanna innan kirkjunnar, sem ætlaður er til þess að sætta sjónarmið þessara stríð- andi fyikinga. Þar spinnst spurningin um hvort kirkjunnar mönnum beri að vera fá- tækir inn í átökin. Loðvík keisari telur sér hagstætt að styðja munkareglur sem boða fátækt guðsmanna. Þessar munkareglur eru í ónáð hjá páfanum Jóhannesi XXII. Ver- aldlegur auður og veraldlegt vald voru viðkvæm mál fyrir kirkjuhöfðinga um þetta leyti. Misskipting auðsins og spilling há- klerka ól af sér hreintrúar- og trúvilluflokka, sem boðuðu eins konar sameignarstefnu. Einn þeirra fór um land með ránum og morðum. Eco ratar hinn vandfundna meðalveg milli gagns og gamans. Hann býður lesandanum fróöleik, sem í eðli sínu er sérfræðilegur, auk þess að veita ómælda skemmtun. Þótt maður lesi þarna um óteljandi tegundir villu- trúarflokka: Katara, valdensa, dolsíníana o.s.frv., þá gerist það hvergi að þetta efni virðist íþyngja textanum né ræna hann skemmtigildi. En fróðleikur Ecos um ýmis málefni 14. aldar, svo sem stjórnmál, trú- flokka, guðfræði, fræðaiðkun, matseld, skepnuhald og hvað sem nöfnum tjáir að nefna, er með ólíkindum. Enginn hefur hing- að til náð slíkum árangri í að kenna milljón- um miðaldafræði, enda aðferðin lævísleg: Að skrifa reyfara. Hláturinn... Kímnigáfa Umberto Eco er á vissan hátt risavaxin. Með því á ég við að fyndni hans hefur sérkennilega dýpt, — er ekki öll þar sem hún er séð. I því sambandi má rifja upp grein hans um sögurnar um James Bond eft- ir Ian Fleming; sú grein hefur verið prentuð víða, þó ekki á íslensku. Þar rekur hann sög- ur þessar fullkomlega í frumparta sína, út- skýrir tækni þeirra og hugmyndaheim, uns lesandinn telur sig geta skrifað eina Bond- bókina í viðbót að lestri loknum. Þessi tæknilega og nákvæma rannsókn er eins fjarri því að vera þurr vísindi og hugsast get- ur: Hún er eiginlega skrýtla dulbúin sem bókmenntafræði. Sá sem skynjar tóninn í fyndni Ecos til hlít- ar hlær ef til vill hvorki strax né hátt; gaman hans er í föstu formi og ekki fljótandi. Nautn- in kemur fram í rétt svo sýnilegu brosi sem endist ekki skemur en viku samfellt, líklega þó miklu lengur. Fyndnin nýtur sín vel í Nafni rósarinnar. En þar er ekki aðeins um fyndni hér og þar á yfirborði sögunnar að ræða, heldur er ein- mitt megininntak verksins í heild að kynna fagnaðarerindi hlátursins. Eða kannski fagn- aðarerindi glettninnar, mannúðlegrar efa- hyggju undir fána skynseminnar. Það er engin tilviljun að Vilhjálmur frá Baskerville er Englendingur. Það er ekki eingöngu vegna skyidleika hans við Sherlock Holmes, heldur einnig vegna þess að á Englandi fluttu menn boðskap reynsluhyggjunnar langt á undan Suður-Evrópumönnum, sem fyrir sitt leyti voru iðnari að halda sig við við- urkennda fornaldarhöfunda að hætti skóla- spekinnar. Uppáhaldshöfundur Vilhjálms er maður að nafni Roger Bacon, sem boðaði bæði að menn ættu eftir að hafa vald á alls kyns tækniundrum á borð við kafbáta og flugvélar, en jafnframt að tungumálamennt- un væri nauðsynlegur inngangur menntun- ar. I lok sögunnar á Vilhjálmur samtal við full- trúa myrkraafla og túlkar lærisveini sínum þvínæst lífsskoðun sína. Vilhjálmur kennir honum að óttast spámenn og þá sem þykjast hafa fundið endanlegan sannleika; en hvort þessi niðurstaða sé einhver endanlegur sannleikur og Vilhjálmur þá spámaður hans verður lesandinn sjálfur að segja til um. Vil- hjálmur hefur ævinlega gaman af að koma mönnum á óvart með þversögnum. ,,Einu sannleikarnir sem koma að gagni eru áhöld sem á að fleygja frá sér,“ segir hann (bls. 459). Reyndar eru hugmyndir hans um eðli vís- indanna og aðferðir þeirra eftirtektarverð- ar. Vilhjálmur er snillingur í að draga álykt- anir af staðreyndum og beitir að nokkru leyti til þess aðferðum viðurkenndrar rök- fræði þessa tíma. En í aðra röndina aðhyllist hann stjórnleysi á þessu sviði, skv. þeirri hugmynd að rökfræðin leiði mann ekki beinlínis að réttum niðurstöðum, heldur komist maður að þeim oft fyrir tilviljun. Þetta viðhorf til vísindaheimspeki minnir reyndar á kenningar manns að nafni Paul Feyerabend. Hugmyndin um gildi hlátursins er rakin til jörfagleði eða „karnívals". Það sem fram kemur í Nafni rósarinnar um þetta efni er auðsjáanlega innblásið af bókum rússneska bókmenntafræðingsins Michails Bachtin. Bachtin þessi skrifaði ágætt rit um franska rithöfundinn Rabelais, sem notaði sér rudda- legan og alþýðlegan húmor, sem á þeim tíma (16. öld) var að láta í minni pokann fyrir opinberri alvöru og kristilegri helgislepju. Bachtin skrifaði þetta á stalínstímanum og var með þessu að reka áróður fyrir lýðræð- inu; hann taldi hláturinn og heim jörfagleð- innar fela í sér lögmál sem væri í eðli sínu andstætt harðstjórum. Harðstjórinn þolir ekkert verr en að það sé gert grín að honum. Guðspjall Vilhjálms er glaðbeitt ást á sköp- unarverkinu og viðleitni til að létta líf manna með því að nota náttúrugæðin með aðstoð vísinda. Lífssýn höfundarins hlýtur að vekja samúð lesanda, og er óvænt ánægja að sjá hve vel hún fellur að skáldsöguforminu. í þeim punkti virðist verkið í sjálfu sér staðfesta kenningar Bachtins. Hér er ekki staður til að rekja hvað tákn- fræði er, en ýmsir munu hafa áhuga á að kynna sér hana eftir að hafa lesið skáldsögu Ecos. T áknfræðin á rætur að rekja til málvís- inda og fjallar meðal annars um samband tákna við hlutveruleika, um afstöður eftir Árna Sigurjónsson tákna innbyrðis í hverju máli (eða „merking- arkerfi", semsé formgerð) og fleira í þeim dúr. En þessa sér einmitt stað í Nafni rósar- innar, til að mynda þar sem minnst er á til- orðningu tungumálsins (Adam gaf dýrunum nöfn, að menn álitu) svo og í ræðum Vil- hjálms um táknráðningar mynda, um tákn sem vísa til tákna og í hinu einkennilega tungumáli munksins Salvatore, sem er reyndar ,,ekki-tungumál“ ellegar þá „aðal- tungumál", hinn undarlegasti hrærigrautur. Táknfræði var að nokkru leyti þegar til á miðöldum. Það tengist því að menn voru að fást við að túlka tákn Biblíunnar. Einkum má segja að þetta hafi komið glöggt fram í sam- bandi við Opinberunarbókina, af því að þar var tákngildið svo augljóst að það var óhugs- andi að lesa það bókstaflega. Opinberunar- bókin er einmitt einn af helstu lyklunum að Nafni rósarinnar og er ragnarakaspá hennar eins konar leiðiminni verksins. Miðalda- menn voru sér þess meðvitaðir að merk- ing texta (a.m.k. Biblíunnar) er á mörg- um plönum: Bókstaflegu, siðferðilegu og guðdómlegu. íslenska útgáfan... Thor Vilhjálmsson þýddi Nafn rósarinnar úr frummálinu og hafði þýðingar á önnur mál til samanburðar. Thor gerir nokkra grein fyrir glímu sinni við textann í stuttum eftirmála, þar sem einnig kemur fram að hann fékk hollráð frá ekki færri doktorum í miðaldafræði en þremur. Það dylst víst eng- um að þýðingin er ekkert minna en þrek- virki; reyndar áttu menn líka von á góðu úr þessari átt eftir að Thor fékk bókmennta- verðlaun DV í fyrra fyrir Hlutskipti manns eftir André Malraux. Við þýðinguna hefur honum tekist að leyfa list þeirra Ecos beggja að njóta sín. Thor er hamhleypa til vinnu. Meðal þess sem vekur athygli í þýðingunni er sú elja sem það hlýtur að hafa kostað að finna íslensk nöfn ótal kynjavera sem til voru í hugarheimi miðaldamanna, nöfn á plöntum, steintegundum og fleiru þess hátt- ar sem er sérfræðilegt í eðli sínu. Sums staðar bregður Eco fyrir sig upptalningum og sækir það stílbragð til klassískrar málskrúðs- fræði og er unun að lesa þá kafla hjá honum, — eða hjá þeim Thor. Orðgnótt bókarinnar er mikil, og hljóta vinir íslenskunnar að gleðjast yfir nýyrðum á borð við „bógómíla- skítur", svo lítið dæmi sé tekið. Auk þess verður ritið ómissandi handbók fyrir skrímslafræðinga jafnt sem helga menn. Kraftaverk eru ekki nýlunda í íslenskri bókaútgáfu. En það er alltaf jafn ánægjulegt þegar þau eiga sér stað, eins og lesendur Ecos munu sannreyna. BÓKMENNTIR Myndirnar betri en bókin Tómas Pór Tómasson: Heimsstyrjaldarárin á íslandi 1939—1945 Þetta er kallað seinna bindi, en þó er sums staðar í bókinni ýjað að því að framhalds megi vænta. Hvað sem því líður er hún beint framhald af fyrra bindinu sem út kom í fyrra, flytur m.a. sameiginlega nafnaskrá beggja binda. Kaflatal er framhaldandi, þannig að þetta bindi hefst á 7. kafla. Fjallar hann um aðdragandann að sambandsslitum við Dan- mörku og lýðveldisstofnun. Sú saga er rakin áfram í 10. kafla fram yfir lýðveldisstofnun. 18. kafla er sagt frá bandaríska hernum á ís- landi frá því hann kom 1941. Langmest fjall- ar sá kafli um „ástandið" svonefnda, dálítið um önnur samskipti hersins við íslendinga, svo og um hernaðarlegt hlutverk hans. 9. kafli er aðallega saga utanþingsstjórnarinn- ar 1942—44 og aðgerða hennar í efnahags- málum, svo og kjaramálum á því timabili. Loks er 11. kaflinn, sá langlengsti, helgaður hagsögu ýmislegri, og eru húsnæðismál þar tiltölulega fyrirferðarmest. Þó að 8. og 11. kafli reki vissa þræði allt til stríðsloka og jafnvel lengur, þá teldi ég eðlilegt að miða við hin skýru sögulok 9. og 10. kafla og hafa í bókarheitinu ártalið 1944 í stað 45. Þetta er allmikil myndabók, fast að 200 myndir, margar þeirra úr fórum setuliðsins, bæði breska og bandaríska, og kannaði höf- undur bandarísk söfn til að afla mynda. Svo eru ljósmyndir frá fjölmörgum innlendum aðilum, margar ef ekki flestar áður óbirtar, ennfremur skopmyndir og aðrar úrklippur úr blöðum. En lengri tilvitnanir í blöðin og aðrar heimildir eru settar upp sem innskots- kaflar eða rammaklausur. Aðaltextinn er svo í mjóum dálkum og millifyrirsagnir margar, þannig að umbrotið minnir á blað eða tímarit. Allt þetta er vandað og prýði- legt, myndavalið, myndavinnan og umbrot- ið. Samt er aldeilis ekki svo að skilja að þetta sé myndabók með litlu og léttu lesmáli. Les- málið er svo drjúgt að það samsvarar 3—400 venjulegum bókarsíðum, mikið af því sam- anþjappaðar upplýsingar og sagnfræðilegar ályktanir, meira að segja með einum 300 heimildavísunum og mikilli heimildaskrá. Sem sagt tilraun til að rita voldugt sagn- fræðilegt yfirlit yfir stutt tímabil þjóðarsög- unnar. En tilraunin tekst ekki vel, því að bókin er bersýnilega skrifuð í því endemis-flaustri sem gerir hana meingallaða nærri því að segja í smáu og stóru. Þetta er þeim mun Ieiðinlegra sem höfundur er augljóslega dugnaðarforkur og virðist að ýmsu leyti myndu kunna til verka ef hann gæfi sér tíma til; og svo myndi bókin sóma sér prýðilega þótt meginmálið væri miklu efnisminna, ef það væri að því skapi vandaðra. Nú má ég ekki fylla Helgarpóstinn með öli- um þeim syrpum af mállýtum, klúðuryrð- um, hugtakarugli, ósamkvæmni, handa- hófi og efnisvillum sem ég eiginlega þyrfti til að standa við þennan þunga dóm. Fáein dæmi verða að nægja. Ég gríp fyrst niður á bls. 136—137 þar sem segir af Eimskipafé- lagi íslands: „Einskorðuðust siglingar skipa Eimskips við Bandaríkin á árunum 1941—1945. ... í stríðsbyrjun átti Eimskipafélagið 6 ,,fossa“ ... Fjórir þeirra voru farþegaskip ... Félagið missti farþegaskipið Gullfoss við hernám Danmerkur en Þjóðverjar kyrrsettu skipið í Kaupmannahöfn.... Lengi vel leit út fyrir að skip félagsins kæmust hjá skakkaföllum af völdum ófriðarins en svo fór þó ekki. I nóvember 1944 sökkti þýskur kafbátur Goðafossi... og í febrúar 1945 var Dettifossi sökkt ... Átti Eimskip þá aðeins eftir eitt farþegaskip, Brúarfoss, sem var í ferskfisk- flutningum fyrir Breta." Þarna er auðvitað ofmælt að kalla meirihlutann af fossunum farþegaskip, þótt þeir hefðu nokkurt far- þegarými auk vörulesta. Nær væri að taka fram um Brúarfoss að hann var kæliskip. Það myndi skýra ágætlega ferskfiskflutninga hans fyrir Breta 1945, ef ekki væri nýbúið að fullyrða að siglingarnar hafi einskorðast við Bandaríkin það ár, auk þess sem upplýst er seinna í bókinni að Bretar hafi þá verið hætt- ir að annast sjálfir nokkra ísfiskflutninga. Ég giska á að það sem einskorðaðist við Banda- ríkin hafi verið siglingar á vegum Eimskips, Brúarfoss undanskilinn af því að Bretar hafi haft hann á leigu, og hafi þeir flutt á honum freðfisk. En ekki kemst ég með neinni ágisk- un fram hjá því að kyrrsetningin í Höfn hafi verið skakkafall fyrir Gullfoss. Framar í bókinni er til umræðu „sú ráð- stöfun Sveins Björnssonar ... að skipa utan- þingsstjórn". Sagt er að hún hafi „löngum þótt umdeild", en auðvitað var hún umdeild af því að hún þótti orka tvímælis. Og svo kemur í næstu setningu „lagalegt réttmæti Sveins“. Annars staðar er talað um „hráefni til iðnaðar, sérstaklega vélar og varahluti". Vöruskiptajöfnuður er alltaf kallaður við- skiptajöfnuður. Björn Ólafsson er stundum kallaður Einar Arnórsson (í myndatextum; þeir eru held ég ennþá hroðvirknislegri en meginmálið og stangast stundum á við það) og öfugt. Prósentureikningur er á fleiri en einum stað einfaldlega vitlaus. Þær tvær myndir sem ég gáði að í myndaskránni, nr. 78 og 129, eru þar fljótt á litið hvorug, en sú fyrri mun dyljast þar undir númerinu 79 vegna einnar af ótal prentvillum bókarinn- ar. Ekki finnast heldur heimildavísanir fyrir því atriði hagsögukaflans sem ég held að sé merkilegast, nefnilega fyllri upplýsingum en ég hef áður séð um afskipti Breta af gengis- skráningu á íslandi (bls. 151; sú umræða lítur nú ekki út fyrir að vera merkileg samt, fyrr en maður áttar sig á að höfundur meinar gengishœkkun þegar hann skrifar gengis- felling). Svona mætti halda áfram nærri því enda- laust. Skaði hvað mikið af góðri og gildri vinnu við efnisaðdrætti til þessarar bókar nýtist illa vegna hroðvirkni í úrvinnslunni. 4 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.