Helgarpósturinn - 13.12.1984, Blaðsíða 6

Helgarpósturinn - 13.12.1984, Blaðsíða 6
Sigurður Pálsson formaður Rithöfundasambandsins: Firrum stökkt á flótta Það er enginn uppgjafartónn ell- egar barlómssöngur sem berst frá formanni Rithöfundasambands ís- lands, þegar tíðindamaður bóka- blaðs HP spyr hann um ástandið á „Bókinni". Sigurður Pálsson skáld hlær við hvellt og segist stöðugt vera á höttunum eftir þessari frægu „Bók" sem allir tali um. „Já,“ sagði Sigurður. „Ég hef aðeins heyrt af þessum misskilningi um undanhald bókmenntanna, höfundanna og út- gefenda. Þetta er að sjálfsögðu al- rangt, sem sannast meðal annars á því að nú eru nokkrir stærstu útgef- endurnir -og Rithöfundasambandið að gangast fyrir ókeypis bók- menntahátíð í Reykjavík. Við ætl- um að stefna saman hópi valin- kunnra rithöfunda, sem eru að gefa út bækur þessa dagana og þeir ætla að lesa upp úr verkum sínum í ráð- stefnusal Hótels Loftleiða á fimmtu- dagskvöldið, þ.e. þann 13. des. klukkan 20:30. Það koma fram 10 höfundar á fimmtudaginn og aðrir 10, eða þar um bil á sunnudaginn 16. des. klukkan 16:00. Það verður lesið úr íslenskum bókum og erlendum og þau eru hreint ekki af verri endanum nöfn þeirra sem lesa: Vésteinn Lúðvíks- son, Ingibjörg Haraldsdóttir, Thor Vilhjálmsson, Gylfi Gröndal, Þórar- inn Eldjárn, Egg-leikhúsið sem les eftir Guðberg Bergsson, Lilja K. Möller, Sveinbjörn Baldvinsson, Eiríkur Hreinn Finnbogason sem les úr bókinni Einar Magg, Árni Bergmann, Njörður P. Njarðvík, Fríða Á. Sigurðardóttir, Pétur Eggerz, Sveinn Einarsson, Hannes Pétursson, Þorsteinn frá Hamri, Jakob F. Ásgeirsson, Jón Óskar og Þorgeir Þorgeirsson. KYNNINGARSTARF í BÍGERÐ Við verðum þannig tvisvar á Hót- el Loftleiðum í desember. En ég hef svo mikinn áhuga á að beita mér fyrir auknu kynningarstarfi af hálfu Rithöfundasambandsins — þ.e. að höfundar lesi upp og kynni verk sín. Það eru þannig áform uppi um að halda þessum bókmennta- og höf- undakynningum áfram á Hótel Loftleiðum í vetur, lesa upp að minnsta kosti mánaðarlega og kannski hálfsmánaðarlega, en þess- ar fyrstu kynningar eru leið til að brjótast út úr þeim vítahring sem hefur skapast vegna féleysis Höf- undamiðstöðvarinnar. Það er nefni- lega þannig að til er fyrirtæki sem heitir Höfundamiðstöðin og á að starfa að bókmenntakynningum. Starf Höfundamiðstöðvarinnar hef- ur legið niðri sökum blankheita. Nú ætlum við að hrinda Höfundamið- stöðinni í gang — og kærum okkur einfaldlega kollótta þótt það vanti fé. Við leysum vandamálið til að byrja með — með því að þykjast bara ekki sjá .það. Nú — tilgangurinn með þessu kynningarstarfi er auðvitað að vekja athygli fólks á góðum bók- menntum, vekja athygli fólks á starfi rithöfunda. Og einnig að eyða þessari gömlu vanahugsun eða þvældu lummu um að rithöfundar séu á einhvern hátt baggi á ríkinu. Maður heyrir þetta suð stundum um að rithöfundar séu styrkþegar — og alls konar rugl og vitleysu um höf- unda og stöðu bókmenntanna. Ég hef meira að segja heyrt því haldið fram hér, að á Islandi séu ekki nein- ir nútímahöfundar, að enginn sé skrifandi lengur, að rithöfundar séu leiðinlegir (hvílík firra — fólk ætti að koma á fundi í Rithöfundasam- bandinu!) og svo framvegis og svo framvegis. Og svo er maður líka að heyra þetta með að bækur séu dýr- ar og að fólk hafi þar af leiðandi ekki efni á að kaupa þær. Þetta er náttúrlega ein firran enn. Bækur eru ekki dýrar. Bækur eru einmitt ódýrar. Maður sem hefur efni á að kaupa sér skyrtu, hann hefur efni á að kaupa sér bók. Og þar að auki eru bækur að lækka í verði. Það verður ekki sagt um annan varn- ing.“ Og formaður Rithöfundasambands íslands var rokinn á dyr, farinn út í ausandi rigningu að hóa í athygli samborgaranna —■ benda fólki á hin sönnu verðmæti hversdagslífsins á íslandi árið 1984. BARNABÓKMENNTIR Bogga á Hjalla eftir Sölva Sveinsson Vilborg Dagbjcirtsdóttir: Bogga á Hjalla Mál og menning 1984. Vilborg Dagbjartsdóttir hefur samið nokkrar bækur fyrir börn og unglinga, auk þess sem hún hefur haft umsjón með barna- síðum í blöðum af mikilli hugvitssemi, enda er hún reyndur kennari. Ætli þekktust sé ekki sagan um Alla Nalla og tunglið, sem síð- ast kom út í afar skemmtilegum búningi Gylfa Gíslasonar listmálara (Tvœr sögur um tunglid, Iðunn 1981). Auk þess hefur hún þýtt bækur handa börnum, t.d. sögurn- ar um Albin. í fyrra kom út Sögusteinn, safn þýddra ævintýra, Ijóða og leikja auk frum- samins efnis eftir Vilborgu, Á Vestdalseyri o.fl., sem vísa veginn til þeirrar bókar, sem hér er til umræðu. Báðar þessar bækur hefur Anna Cynthia Leplar myndskreytt haglega. Bogga á Hjalla sver sig í ætt bernsku- minninga. Slíkar sögur hófust til vegs á fyrsta hluta þessarar aldar, líklega fyrir áhrif nýrómantísku stefnunnar, og meðal höf- unda má nefna Sigurbjörn Sveinsson, Jón Trausta, Nonna, Ólaf Jóhann Sigurðsson, og endurminningar prakkara má kalla bækur Hendriks Ottóssonar og Arnar Snorrasonar (íslenskar barnabækur 1780—1979, 102—125). Og nú berast reyndar þær fregnir, að Þjóðverjar ætli að gera kvikmynd um Nonna og eftir sögum hans. Bogga á Hjalla er ekki löng bók, eiginlega bara kver upp á 45 bls., í flokki (að því er virðist) sem nefnist „Bækur fyrir bókelsk börn“. Hún ber öll einkenni góðra bernsku- minninga, sögð af sjónarhóli fullorðins manns, greinir frá hversdagslegum atvik- um, og frásögnin einkennist af söknuði og blíðu sem veldur því, að jafnvel fremur óþægileg atvik á sínum tíma eru lítið á- hyggjuefni í sögunni. í bernskuminningum er umhverfið raun- verulegt, staðhættirnir eru til. í Boggu á Hjalla er reyndar ekki sagt berum orðum hvar sagan gerist, en á saurblöðum er nost- urslega teiknuð mynd af Vestdalseyri við Seyðisfjörð 1930, svo ekki fer milli mála hvar atburðir gerast. Eins og ýmsar minningasögur er Bogga á Hjalla fremur ósamstæð saga, og mætti fremur kalla hana þáttasafn, sem aðalper- sónan bindur saman í eina heild. Og atburða- rásin er kyrrstæð ef svo má segja; endur- minningar eru oft tímalausar í þeim skiln- ingi, að hver atburður rekur ekki annan í rökréttri röð. Það er svo undir hælinn lagt, hvað fólk man úr æsku sinni. Hér er lýst alls konar uppátækjum krakka: Þeir ryðjast inn í yfirgefið hús, stríða systkinum, brjóta rúð- ur. Þeir vinna: Sendast, gefa hænsnum, reka kýr, sækja egg. Og það sem ekki var kannski tekið út með sældinni er sýnt hér í blámóðu fjarskans, af sjónarhóli þess sem lífið hefur reynt. Sögumaður er kumpánlegur, ávarpar lesanda sinn: „Þetta finnst þér skrítið að heyra", . .eins og ég veit að þú skilur mæta vel...“ o.s.frv. Annars er frásögnin í 3. persónu og höfundur sér einungis í hug aðalpersónunnar, Boggu á Hjalla. Persónur í þessum söguþáttum eru tals- vert margar og sumar nafnið eitt, aðrar viða- meiri. Móðuramma stjórnar börnunum á sinn hátt með sögum, gátum og rósemi, og Vilborg föðuramma er lífleg og jafnframt sérstæð í allri framgöngu sinni. Hún er fín og settleg á mynd bls. 24, en hrúturinn hennar minnir mig fremur á tvævetlu en lambhrút! Að öðru leyti finnst mér myndirnar góðar. Örvænting hanans í tjörunni (bls. 29) er t.d. ljóslifandi, og sárindin vegna slitnu perlu- festarinnar eru rækilega áréttuð í mynd bls. 17. Allar teikningarnar eru svart/hvítar, nema á kápuspjaldi, nosturslega unnar í þeim anda „blikandi fjarlægðar" sem ein- kennir atburðarás. Bogga á Hjalla er ágæt viðbót í bernsku- minningar okkar. Hún er ætluð yngstu les- endunum, en er engu síður prýðileg lesning fyrir stálpuð börn og unglinga, bregður birtu á horfna þjóðlífsþætti. Frásögnin er öll með þeim blæ, að braglínan úr vísu Látra-Bjargar (bls. 12) á vel við: „Samt vil ég til sveitar minnar snúa“. Reyndar ekki bókstaflega, en einfaldleiki og hófsemi horfinna lífshátta eiga jafnbrýnt erindi og ýmislegt annað, sem á loft er haldið. Og kannski eru það stór- merkileg sannindi að margt færi betur nú á dögum, „ef allir embættismenn í íslenska ríkinu væru jafnskylduræknir og hugrakkir" og Bogga á Hjalla þegar hún rak kýrnar og gekk fram á „huldukonu" við slátt. Að minnsta kosti sigraðist hún á erfiðleikunum. BOKMENNTIR Trúnaöur viö sjálfan sig Álfrún Gunnlaugsdóttir. Þel. Skáldsaga. (195 bls.) Mál og menning 1984. Það er því miður allt of sjaldan að maður verður fyrir því að saga nær manni svo á vald sitt að hún er ekki lögð til hliðar fyrr en að loknum lestri. En þetta henti mig þegar ég las á dögunum fyrstu skáldsögu Alfrúnar Gunnlaugsdóttur. Þrátt fyrir óvenjulegt form og fremur flókna atburðarás er í sög- unni magnaður upp seiður sem heldur les- andanum föngnum í veröld frásagnarinnar. Það er ekki fyrst og fremst spennan sem býr undir niðri í sögunni sem heldur í mann, heldur er það eftirvæntingin, hvað næst komi manni á óvart í þeirri upprifjun at- burða sem fram fer. Sagan hefst á því að sögumaður er að koma úr jarðarför vinar síns, en úr því gerist hún á einum fjórum plönum sem ofin eru hvert um annað. í fyrsta lagi er það nútíð sögumannsins er lýsir för hans frá jarðarför- inni og heim. Á þeirri leið rifjar hann upp langt samtal sem hann átti fyrir nokkrum dögum við hinn látna vin, en í því samtali segir hann frá því sem á daga hans hefur drif- ið í langri dvöl á Spáni og um leið er sögu- maður að rifja upp sitt eigið líf og líf þeirra vinanna áður en þeir skildu. Frásagnarað- ferðin kann að virðast nokkuð flókin, sér- staklega vegna þess að farið er af einu sviði yfir á annað á víxl og ekki alltaf í tímaröð, en það er svo haganlega gert að það truflar les- anda alls ekki. Síður en svo og þvert á móti, aðferðin heldur lesanda föngnum. Vinirnir tveir í þessari sögu standa að mörgu leyti í svipuðum sporum þó að örlög þeirra hafi verið ólík. Þeir eru að verða mið- aldra og eru hvorugur sérlega hamingju- samur. Þeir hafa báðir brugðist trúnaði við sjálfa sig og aðra þó með ólíkum hætti sé og við mismunandi aðstæður. Einar vinur hefur ef til vill aldrei átt mögu- leika til þess að verða heill maður, a.m.k. ekki síðan hann flýr í annað land, frá ástinni sinni sem hann forsmáir, til þess að læra og verða skáld. Hann gerir hvorugt, hann lærir ekkert og verður ekki heldur skáld. Hann getur ekki staðið við sjálfan sig og kemur jafnvel upp um vini sína, þegar hann lendir í smávegis klandri. Hann reynir að bæta fyr- ir það, en þá er glæpurinn frá honum tekinn og uppreisn hans dauðadæmd frá upphafi. Líf hans er tómt og glatað og hann bregst við samkvæmt því. eftir Gunnlaug Ástgeirsson Sögumaðurinn er af allt öðrum toga. Hann hefur látið ánetjast lífi sem hann kærir sig ekkert um og hefur aldrei gert. En hann hef- ur ekki haft mátt til að skapa sér sitt eigið líf á eigin forsendum og eyðileggur þar af leið- andi bæði sitt eigið líf og þeirra sem næst honum standa. Reyndar er ekki ljóst hvort hann er glataður, einhverja von virðist hann eiga, en hún er ekki stór. Þannig hverfist sagan um þessa spurningu um trúnað við sjálfan sig og aðra. Á það við um fleiri persónur en aðalpersónurnar tvær. Auðvitað lýkur sögunni á spurn, lesanda eru ekki gefin svör, en fram að því hefur marg- brotinn lífsvefur verið rannsakaður, lífsvef- ur sem sýnir lesanda spurninguna í svo sterku Ijósi að hann getur ekki svikist undan að leita sjálfur svara. 6 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.