Helgarpósturinn - 30.04.1987, Síða 37
SÓLVEIG ÓLAFSDÓTTIR, lögfræðingur:
„SAUMAKLÚBBURINN EINS
OG HREPPUR Á ÞJOÐ-
VELDISÖLD"
,,Ég á margar mjög góðar vinkonur, en það
er ekki þar með sagt að ég tali opinskátt við
þær allar. Það eru kannski ekki nema ein eða
tvær vinkonur frá unglingsárunum, sem ég
myndi tala við um hvað sem væri, ef mér lægi
eitthvað á hjarta. Reyndar hef ég haft afskap-
lega litla þörf fyrir að tala opinskátt við aðra
en manninn minn. í mínum huga er þetta því
meira spurning um hvort maður á góða vin-
konu, sem maður leitar til þegar á þarf að
halda.
Samband mitt við þessar konur er einnig
gagnkvæmt á þann hátt, að þær vita að ég er
til staðar, ef þær þurfa að leita stuðnings af ein-
hverju tagi.
Síðustu 19 árin hef ég þar að auki verið í
saumaklúbb með bekkjarsystrum mínum úr
Verslunarskólanum. Þessi skólasystrahópur er
í mínum huga mjög mikilvægur frá félagslegu
sjónarmiði. Við hjálpumst allar að, jafnvel
þvert á pólitískar línur, í prófkjörum, prest-
kosningum og slíku. Þá er þetta hópur, sem
maður getur leitað til og treyst á.
Hins vegar erum við misjafnlega nánar vin-
konur innan hópsins og erum fullkomlega
meðvitaðar um það. Sumar eru góðar vinkon-
ur, sem ég veit að tala kannski meira saman
innbyrðis en þær tala við mig. Við höfum hins
vegar allar haldið þessum tengslum allt frá því
að við útskrifuðumst og vitum að við getum
reitt okkur hver á aðra, ef mikið liggur við. Sú
vissa er ákaflega þægileg. Þetta er ekkert ólíkt
hreppunum á þjóðveldisöld...
Hrepparnir virkuðu þá nefnilega eins og
nokkurs konar tryggingarfélög. Ef það brann
hjá þér, komu allir í sveitinni og byggðu upp
húsið þitt. Þetta er svona eins og hjá Amish-
fólkinu, sem m.a. var sýnt í kvikmyndinni Wit-
ness. Ef maður þarf á því að halda, þá er þessi
hópur til taks, þó svo einstaklingarnir innan
hans séu mismunandi nákomnir manni.
Ég hef aldrei átt karlmann að nánum vini,
fyrir utan manninn minn. Karlmenn eru yfir-
leitt miklu lokaðri og ég held mér fyndist ég
aldrei geta tjáð mig opinskátt við karlmann.
Reyndar verð ég að ítreka það, að mér finnst
ég ekkert þurfa að tala um mín hjartans mál
við neinn, nema þá ef mér liði hugsanlega eitt-
hvað illa. Þegar slíku er ekki til að dreifa, finn
ég enga þörf á því að tala við Pétur eða Pál um
persónulega hluti. Ég á hins vegar von á því að
í slíkum tilvikum myndu konur skilja mínar
innstu hugsanir betur en karlmenn.“
ÁSTA RAGNHEIÐUR JÓHANNESDÓTTIR,
dagskrárgerðarmaður:
„GRANNARNIR HEFÐU ALDREI
BOÐIÐ KARLMANNI í KAFFI"
,,Ég á nokkrar mjög góðar vinkonur, en það
er engin ein sem ég myndi beinlínis kalla
,,bestu“ vinkonu mína. Við erum nokkrar
saman í saumaklúbb, bekkjarsystur úr
menntaskóla, en mínar nánustu vinkonur hef
ég þekkt frá því í barnaskóla. Á tímabili fórum
við svolítið sín í hverja áttina, en síðan lágu
leiðir okkar aftur saman og þar sem grunnur-
inn var sterkur, var auðvelt að taka þráðinn
upp aftur. Ein þessara vinkvenna minna bjó er-
lendis í nokkur ár, en ég hélt alltaf einhverju
sambandi við hana og þegar við hittumst var
alveg eins og við hefðum aldrei verið aðskild-
ar.
Einni vinkonu minni kynntist ég tiltölulega
seint á lífsleiðinni og hún er ekki á sama aldri
og ég. En við hana get ég talað um ALLT.
Mér finnst vera ákveðin takmörk fyrir því
hverju ég segi vinkonum mínum frá ... einhver
lína, sem ég fer ekki yfir. Ég tala ekki alveg um
hvað sem er. Þó kemur einstaka sinnum upp sú
staða, að maður verður að létta á sér! Þá er
ómetanlegt að eiga góða vinkonu að leita til.
Enn ein mjög góð vinkona mín býr í norður-
hluta Noregs. Við hittumst stundum ekki í
mörg ár, en vorum óaðskiljanlegar á mennta-
skólaárunum. Það er mjög sérkennilegt að
hitta hana aftur, því það er alitaf eins og hún
hafi verið hér allan tímann. Okkar aðstæður
eru mjög ólíkar, en samt er sambandið jafn-
sterkt og það var þegar við vorum unglingar.
Alveg sömu tengslin. Það hafa myndast þarna
vináttubönd, sem ekkert virðist bíta á, hvorki
fjarlægðir, mismunandi aðstæður eða neitt
annað.
Ég hef ekki orðið vör við að maðurinn minn
sé neitt óhress með samband mitt og vin-
kvennanna. Hann skammar mig meira að
segja stundum, ef ég vanræki þær mikið.
Af einhverri ástæðu held ég ekki að vinátta
kvenna við karlmann væri möguleg á svipuð-
um nótum og meðal vinkvenna. Það er eins og
maður hafi örlítið meiri fyrirvara á því sem
sagt er við karlmann, þó svo hann sé vinur
manns.
Þegar börnin okkar voru yngri, höfðum við
hjónin óreglulegan vinnutíma og reyndum að
skiptast á um að vera heima. Fyrst var ég
heima á morgnana en hann seinni hluta dags-
ins og þá var mikið um að nágrannakonurnar
litu inn í morgunkaffi. Þær komu þó ekki, ef
þær sáu að maðurinn minn var heima. En um
leið og hann var farinn, létu þær í sér heyra.
Þannig eimdi enn eftir af óskráðu reglunum,
sem giltu hjá eldri kynslóðinni, um það að tím-
inn með eiginmanninum væri mikilvægari og
hefði forgang. Þegar ég vann fyrri hluta dags-
ins, kom hins vegar enginn í morgunkaffi til
Einars! Hann kvartaði líka stundum undan því
hvað það væri einmanalegt hjá sér. En hvað
heldurðu að fólk hefði sagt, ef konurnar í
blokkinni hefðu farið að kalla á karlmann í
morgunkaffi? Það hefði þótt stórskrítið.
Það hringir heldur enginn í karla til að kjafta
við þá þegar þeir eru heima á daginn, en við
konurnar fáum oft upphringingar frá vinkon-
um okkar, án þess að þær eigi ákveðið erindi.
Þetta gerir það að verkum, að karlmenn sem
sinna heimilisstörfum eru miklu einangraðri
en við konurnar. Þeir hafa eflaust alveg jafn-
mikla þörf fyrir svona tengsl og ég sárvor-
kenni þeim fyrir að vera í þessari aðstöðu.“
GUNNHILDUR JÓNSDÓTTIR,
grunnskólanemi:
„TÖLUM NÁTTÚRULEGA UM
STRÁKA"
„Ég á auðvitað nokkrar vinkonur í skólan-
um og við erum oft margar saman. Þessi hóp-
ur hittist svona af og til, en það er samt ekki
neinn formlegur saumaklúbbur eða svoleiðis.
Ein stelpan er hins vegar svona ,,aðal“ eða
„bestá' vinkona mín. Það er stelpa sem ég hef
þekkt frá því að ég flutti í Breiðholtið fyrir um
7 árum. Hún á heima rétt hjá mér og þess
vegna var það kannski svolítil tilviljun að ein-
mitt við tvær skyldum verða vinkonur. Fyrst
vorum við alltaf tvær saman, en svo fór hún að
vera mikið með öðrum stelpum í skólanum.
En þegar við byrjuðum í 7. bekk, var það eftir
nýju bekkjakerfi og þá fór hún aftur að vera
með okkur hinum. Og núna erum við bara all-
ar saman.
Við tölum alveg örugglega um svolítið aðra
hluti en strákarnir gera sín á milli. Til dæmis
tölum við náttúrulega um stráka og það gera
þeir væntanlega ekki mikið! Stundum segjum
við hver annarri allt um það, sem er að ske hjá
okkur. En ekki nema stundum ... Við stelpurn-
ar tölum auðvitað um allt öðruvísi hluti en
maður ræðir um heima hjá sér. Fjölskyldan
nennir ekkert að hlusta alltaf á það sem ÉG er
að tala um!
Þessi hópur á líka ýmis sameiginleg áhuga-
mál sem maður getur ekki sinnt með fjölskyld-
unni, en við erum samt ekkert endilega allar
mjög líkar. Við förum saman út að skemmta
okkur eða æfa ein hverjar íþróttir og svoleiðis.
Það gerir maður náttúrulega ekki með foreldr-
um sínum. Við ráðleggjum auðvitað oft hver
annarri, ef við á annað borð höfum einhver
svör við vandamálunum. Þegar eitthvað slíkt
er á ferðinni, eru það nú kannski bara allra
nánustu vinkonurnar sem maður ræðir við.
Mér finnst ofsalega mikilvægt að eiga vin-
konur. Það er alveg nauðsynlegt að eiga að
minnsta kosti eina mjög góða. En það er mjög
gaman að eiga fleiri, því það er ekkert sniðugt
að vera alltaf að tala við sömu manneskjuna.
Maður verður líka að geta talað við aðrar
stelpur."
ELÍSABET ÞORGEIRSDÓTTIR, rithöfundur:
„ÞARF EKKI AÐ LEITA ÚT FYRIR
HEIMILIÐ"
„Þegar ég var unglingur, fundum við skóla-
systurnar fljótt að við gátum talað um ýmsa
hluti, sem strákarnir virtust ekki tala um. Síð-
an hefur þetta þróast gegnum tíðina og ég hef
verið svo heppin að geta byggt mig upp tilfinn-
ingalega í gegnum sambönd við nokkrar trún-
aðarvinkonur.
Ég er fædd og uppalin á ísafirði og var þar
í saumaklúbb með ákveðnum hóp af stelpum
á meðan ég var í menntaskóla. Þegar maður
flytur síðan til Reykjavíkur, slitna tengslin við
upprunann hins vegar svolítið. Þessi hópur
hefur nú tvístrast, en sumar af þeim stelpum
sem ég var með þarna, finnst mér alltaf vera
mínar bestu vinkonur. Þau tengsl haldast, jafn-
vel þó svo einhverjar búi erlendis og maður
sjái þær kannski ekki svo árum skipti. Um leið
og við hittumst aftur, getum við farið að tala
saman um nákvæmlega sömu hlutina og áður.
Það hefur alltaf verið mér mjög mikilvægt
að eiga góða vinkonu, þó svo það hafi kannski
ekki verið sama manneskjan sem gegndi því
hlutverki frá upphafi og fram á þennan dag. Ég
hef þó alla tíð átt einhvern að, sem ég hef verið
í slíku trúnaðarsambandi við.
Ég er lesbía og bý með konu, en mér sýnast
konur sem búa með karlmönnum leita í það að
eiga a.m.k. eina góða vinkonu, sem þær geta
talað við um alla hluti. Mér finnst stundum
eins og konur, sem eru í sambúð með körlum
og sækjast eftir trúnaðarsamböndum við aðr-
ar konur, séu þar með að létta af sér einhverju,
sem þær geta ekki talað um við manninn sinn
heima fyrir. Ég þarf kannski ekki að leita svo
mikið eftir slíkum vináttutengslum, vegna
þess að sú kona sem ég bý með er jafnframt
trúnaðarvinkona mín!
Bestu vinir mínir hafa þó ekki alltaf verið
konur. Ég hef átt karlmenn að vinum og gat
talað við þá um alla hluti. Slíkt er hreint ekkert
útilokað, þó svo það fari auðvitað mikið eftir
persónuleika karlanna sem í hlut eiga. Karl-
menn eru mishæfir til að vera einiægir og opn-
ir, eins og gefur að skilja. Kannski á ég líka
auðveldara með að eiga karlmenn að góðum
vinum, þar sem spurningin um hugsanlegt
kynferðislegt samband þar á milli er ekki til
staðar. Mér gengur þess vegna ef til vill ekki
síður vel að stofna til vináttusambands við
karlmenn en konur. Þar sem ég er yfirlýst
lesbía, virðast sumar konur líka pínulítið
óöruggar gagnvart manni. En þetta er aðal-
lega við fyrstu kynni og það gengur yfir!"
HELGARPÓSTURINN 37