Morgunblaðið - 14.03.1984, Blaðsíða 33

Morgunblaðið - 14.03.1984, Blaðsíða 33
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 14. MARZ 1984 33 Hagur háskólans — eftir Halldór Guðjónsson Hér á eftir fer ræöa, sem Halldór Guöjónsson flutti á fundi stúdenta hinn 23. febrúar „gegn niöurskuröi á fjárveitingum til æðri menntunar“. Ræðumaöur var fulltrúi Félags há- skólakennara á fundinum. Fyrir þeim sem hér eru saman komin er ekki ástæða að rekja rök til þess að meiri fjárveitinga sé þörf til háskólahalds. Við erum hér saman komin vegna þess að við erum sammála um þetta. Engu að síður vil ég nefna tvennt í þessa veru til að miða þetta sammæli okkar við en ekki til að grundvalla það. Á áratugnum 1972—1982 minnkaði sá hlutur vergrar þjóð- arframleiðslu sem varið er til kennslu hvers háskólastúdents um meira en 20%. Hið sama verður uppi á teningnum ef skoðað er hversu mikill hlutur vergrar þjóð- arframleiðslu stendur bak við starf hvers fastráðins háskóla- kennara. Þessi hlutur hefur rýrn- að um nær 20% á undanförnum rúmum áratug. Menntun hvers stúdents og starf hvers háskóla- kennara hafa sem sé orðið billegri. Þótt ýmis önnur viðmiðun, sem voru nokkuð stöðug í gegnum tím- ann, komi til greina, virðist þetta hvað traustast og hagkvæmast fyrir málstað okkar þar sem líka má í alþjóðlegum samanburði sýna fram á að á þessum mæli- kvarða skipum við okkur með þeim þjóðum Evrópu sem lélegast hafa menntakerfi. Tölur sem þessar eru auðvitað ekki nákvæmar eða mjög mikils- verðar í ákvörðun um það hvað gera á. En þær gefa vísbendingu um að eitthvað mikið sé að og að úrbóta sé þörf. Það er hægt að vefengja svona tölur eða skýra þær með ýmsum hætti, en áreið- anlega ekki svo að ábendingin, sem í þeim felst, geti talist mark- laus. Enda eru aðrar og augljósari vísbendingar um að háskóla- menntun okkar búi við slíkt svelti að verulega spilli tilgangi hennar og árangri. Það dylst engum sem stundar eða sækir kennslu í há- skólanum að húsnæði hans og búnaður til kennslu er nær alls staðar ófullnægjandi og víða til háborinnar skammar. Svo aðeins sé horft til húsnæðisins, þá undrar mig við upphaf hvers misseris að unnt skuli reynast að koma kennslunni fyrir í því húsnæði sem völ er á. Hér er nánast óskilj- anlegt að ekki skuli fyrir löngu hafa komið til meiriháttar átaka eða jafnvel uppþota vegna þeirra aðstæðna sem kennurum, nem- endum og öllu starfsliði eru búnar til starfa. Hvers á háskólinn að gjalda? Ég læt þetta tvennt, ástand hús- næðis og fjármála, nægja sem rökstuðning fyrir þeirri sannfær- ingu okkar, að of þröngt sé búið að háskólanum. En það vaknar við þessi rök og kannski hver önnur, sem færa má fyrir sömu niðurstöðum, sú spurn- ing hvort það sem veitt er dugi þó ekki þrátt fyrir allt og þá einkum ef tekið er tillit til þess að háskól- inn keppir við aðra gjaldaliði ríkisins, við aðrar þarfir þjóðfé- lagsins. Það verður í þessu að horfa til þess að háskólinn er opinber stofnun og keppir því einkum um fé við aðra opinbera aðila. Það er því eðlilegt að líta á háskólann sem hluta af stjórn- málasviði þjóðfélags okkar. Ef við horfum nú til stjórnmála okkar á þeim tíma sem ég nefndi áðan, þ.e. frá 1970 til dagsins í dag, vaknar ein spurning: Hvað er það sem stjórnmálin hafa fært okkur til hagsbóta? Ég sé ekki sjálfur nema eitt meginafrek sem telja má okkur öllum til hagsbóta: Útfærslu land- helginnar. Ef litið er yfir stjórn- málasögu okkar síðan landhelgin var færð út, virðast helstu kenni- leiti vera þessi: Krafla Járnblendiverksmiðja Myntbreyting Fiskiskipakaup Það eru þessi atriði og þeim lík sem bera verður hag háskólans saman við. f ákafa við að gera svo margar og mikilsverðar vitleysur á svo skömmum tíma er varla nema von að stjórnmálamenn okkar og stjórnmálaumræða öll hafi verið næsta sinnulaus og hirðulaus um háskólamálefni og raunar menntamál almennt. Við höfum ætlað okkur að lifa af brauði einu saman og þá fengið steina í stað brauðs. Ein af þessum merkilegu vit- leysum okkar er sérstaklega eftir- tektarverð í því sambandi sem við höfum áhuga á hér, en það er Járnblendiverksmiðjan. Fróðir menn segja mér, að hinn erlendi sameignaraðili hafi reitt fram mikinn hluta stofnfjárframlags síns í sérfræðiþekkingu: Kunnátta Norðmanna við framleiðslu járn- blendis var metin til fjár og lögð að jöfnu við fé og vinnu sem þurfti til að kaupa verksmiðjuna og reisa hana. Við þennan samning gerðist það sem sé, að við greiddum fé fyrir hugvit. Þetta er á ýmsan hátt merkilegt og vil ég nefna þrennt: 1) Við keyptum greinilega ekki nógu mikið vit, ella hefði þetta gengið betur. 2) Það vit sem til þurfti, hefur ekki flust inn í landið, ella þyrftum við ekki að leita nýrra sameignaraðila. 3) Hugvit er greinilega góð vara til að selja með þessum hætti eða öðrum. Vel er hugsanlegt að Norðmenn hafi á sama tíma eða síðan selt öðrum sömu þekkingu á svipuðu verði og þeir seldu okkur. Svona viðskipti eru vitleysa og hirðuleysi, sem einkenna öll þau kennileiti íslenskra stjórnmála sem ég nefndi áðan, en þó er hirðuleysið um menntamál þjóð- R O Y A L SKYNDIBÚÐINGARNIR v / ÁVALLT FREMSTIR ENGIN SUÐA Tilbúinn eftir fimm mínútur 5 bragötegundir arinnar öll og háskólamálefni sér- staklega þegar til lengdar lætur væntanlega afdrifaríkara og óheillavænlegra en allt það sem ég hef nefnt. Ýmis rök má færa fyrir því að það sem skiptir okkur sem þjóð mestu máli, ekki aðeins í lengd heldur líka í bráð, sé mennt- un, fyrst og fremst almenn og góð háskólamenntun. Mikilvægi mcnntunar Nærtækustu rökin fyrir þessu eru þau dæmi um afrek eða öllu heldur afglöp íslenskra stjórn- mála sem nefnd voru hér að fram- an. Við sjáum öll nú, að í þessum tilvikum voru og eru gerðar vit- leysur og við vitum jafnframt, að það var hægt að sjá það fyrir að þarna yrðu gerðar vitleysur. Og við óttumst að samskonar vitleys- ur verði haldið áfram að gera. Við vitum sem sé, að við gætum ekki skynsemi í gerðum okkar. En. hvaða vopn önnur en menntun höfum við í viðureign við vitleysu? Önnur rök um mikilvægi menntunar eru fólgin í þeirri stað- reynd að allt líf manna og þá ís- lendinga einnig verður tæknilegra með hverjum degi sem líður. Við getum ekki vænst þess að búa við sömu framleiðslu- og neysluhætti nema örfá ár í senn, þá breytast þeir og verða æ vísvitaðri. Við þurfum til þess eins að geta tekið þátt í því sem fram fer í kringum okkur, bæði til þess að leggja þar eitthvað af mörkum og til þess að njóta þess sem fram fer, að „kunna tök á tækninni", eins og Halldór Guðjónsson „Hér er nánast óskilj- anlegt að ekki skuli fyrir löngu hafa komið til meiriháttar átaka eða jafnvel uppþota vegna þeirra aðstæðna sem kennurum, nemendum og öllu starfsliði eru búnar til starfa.“ það heitir í sjónvarpsauglýsing- unni, og vera ævinlega reiðubúin til að læra ný tök. Breytingarnar verða svo hratt og þær eru svo margvíslegar að engin leið er að laga sig að þeim án þess að kanna þær vísvitandi, leita og miðla upp- lýsingum um þær með markvissri og skipulegri vinnu. Ljóst er, að hið skipulega menntakerfi er eini hugsanlegi farvegurinn fyrir þessa óhjákvæmilegu aðlögun. Ljóst er, að við getum ekki í öllum efnum keypt þekkinguna að. Ef við tileinkum okkur ekki sjálf þá þekkingu, sem þarf til allra helstu þátta eðlilegs þjóðlífs, verðum við leiksoppar erlendra afla sem við skiljum ekki og getum þar af leið- andi engin áhrif haft á. Það er greinilegt að við þessar aðstæður er niðurskurður á fjárveitingum og samdráttur í menntamálum ekki aðeins óskynsamleg stefna, heldur stefnir hún tilveru þjóðar- innar í hættu. Þriðju og djúpstæðustu rökin fyrir mikilvægi menntunar eru þau að við búum við og viljum búa við lýðræði. Þung rök má færa fyrir því að það felist í öllum skynsamlegum hugmyndum um lýðræðisríki að því beri skylda til að mennta þegna sína svo sem mest má verða. Reyndar hafa margir spakir menn haldið því fram að þetta sé eina fram- kvæmdaskyldan sem hvílir á lýð- ræðisríki gagnvart þegnunum. Rökin fyrir þessari skyldu eru augljós: Ef lýðurinn er ekki upp- iýstur, er líklegt að stjórnin, sem völd sækir til hans, sé það ekki heldur og spilli í vanvisku hag ríkisins, umbjóðenda sinna og þjóðarinnar allrar. Það kann vel að vera að stjórnmál snúist á hverjum degi einkum um átök hagsmuna, en sagan leggur annan dóm á stjórnmálin, hún fordæmir það í stjórnmálum sem ekki eflir hag þjóðarinnar, hún fordæmir vitleysu og heimsku. Við erum vön, íslendingar, að segja að við séum fáir, fátækir og smáir. Ef heldur fram sem horfir í menntamálum okkar verðum við innan tíðar líka heimskir. Halldór Gudjónsson er kennslu- stjóri Háskóla íslands. „Vér eigum nógan eldinn, bræður... “ — eftir Guðrúnu Jacobsen Til fjármálaráðherra, Alberts Guðmundssonar. Mig langar til að koma þeirri beiðni á framfæri við yður, hvort ekki sé orðið tímabært að íhuga kjör lítilþægasta þjóðflokksins á íslandi. Hér á ég við þá sem hafa verið skikkaðir í Verkamannafé- lagið Dagsbrún og Framsókn. Ég veit eiginlega ekki hvers vér erfið- isvinnufólk eigum að gjalda, vér sem hefjum oss upp til vinnu í birtingu að morgni með malinn undir hendinni eða 13 krónur í strætó. Meðan oss er uppálagt að njóta ylsins af vinnugleðinni einvörð- ungu, frá sólarupprás til sólarlags, njóta kröfuhafarnir í öðrum félög- um desemberuppbótar, ódýrra utanlandsferða að ógleymdum námskeiðum af öllum mögulegum sortum fyrir ekki neitt á kaupi. Gott ef allir þessir sérkröfuhafar funda ekki líka um kaup sitt og kjör á kostnað ríkiskassans. Nú er það svo, að í þau fáu skipti sem vér verkafólkið þurfum að láta gera aðgerðir á fótum vor- um, megum vér þakka fyrir að fá þó að sofa úr okkur svæfinguna áður en oss er vísað burt með skóna undir hendinni. Nú hefur verkafólk af minni kynslóð ekki aðeins verið bundið við grautarpottinn allt sitt líf, hafið sinn búskap í misjafnlega ásigkomnum hreysum í Blesugróf eða Kamp Knox stríðsáranna, með tilheyrandi útibrunni, kolaeldavél og útikamri þegar best lét, heldur höfum vér mörg hver verið fyrir- vinnur heimilisins árum saman, komið oss upp þaki yfir höfuðið fyrir eigin tilverknað án útboðs á sál eða sannfæringu. Það erum ekki vér sem erum dýrust í rekstri ríkisins. Geðveikrahallirnar og Alkabólin eru ekki byggð fyrir oss. Persónulega hygg ég að jafnvel í þessum ofangreindu stofnunum séu fleiri skrifstofur en legupláss fyrir raunverulega sjúkt fólk. Oss hefur semsé aldrei gefist tími til að verða vitlaus. Ber ekki ríkinu að virða það að verðleikum? 8.3. 1984. Guðrún Jarohsen er rithöfundur. ASEA rafmótorar Nú eru ASEA rafmótorar í næsta nágrenni viðskiptavina sinna: — AUSTURLAND: Rafmagnsverkstæði Leifs Haraldssonar, Seyðisfirði VESTMANNAEYJAR: Geisli, Vestmannaeyjum. SUÐURNES: Rafiðn, Keflavík VESTFIRÐIR: Póllinn, ísafirði Sölumenn okkar veita frekari upplýsingar ef óskað er. "RÖNNING Sundaborg. simi 84000

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.