Morgunblaðið - 14.03.1984, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 14.03.1984, Blaðsíða 34
34 MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 14. MARZ 1984 Afmæliskveðja: Árni Helgason Stykkishólmi Svo er um suma menn, að þeir eldast eiginlega ekki, hvað svo sem kirkjubækur segja til um ald- ur þeirra, þeir eru sprækir, léttir á fæti, lundgóðir og þrautgóðir á raunastund, þótt komnir séu á átt- ræðisaldur. Einn slíkur maður er Árni Helgason í Stykkishólmi, sem verður sjötugur í dag, og alþjóð þekkir hann. Hann þarf ekki að kynna. Mig langar til að senda honum kveðju í sameiginlegu málgagni okkar, Morgunblaðinu, í tilefni af þessu merkisafmæli. Árni er svo náinn vinur vina sinna, svo samgróinn þeim, að eig- inlega veit ég varla, hvar skal byrja og hvar skal standa, þessi kveðjuorð, eins og Matthías sagði, þegar hann orti óðinn til Skaga- fjarðar. Mér hefur Árni reynst sannur vinur, bæði sjálfum mér og mín- um öllum, enda fór varla hjá að svo færi, vegna þess að við Árni og fjölskyldur okkar eigum svo margt sameiginlegt. Ætti ég að byrja á byrjuninni og rifja upp ætt Árna? Ég veit allt um hana, en hvers vegna? Hann er frá Austfjörðum og foreldrar hans voru Helgi Guðmundur Þorláks- son, kaupmaður á Eskifirði, og Vilborg Árnadóttir, en þrátt fyrir austfirskuna er Árni fæddur hinn 14. marz í Reykjavík, og það verð- ur aldrei af Reykjavík skafið, að þar er Árni fæddur. Árni, vinur minn, Jósefsson, sem hleður rafgeyma fyrir alla Reykvíkinga, þar niður við Ægis- garð, segir mér, að þeir Árni í Stykkishólmi beri nafn hins sama manns. Það þykir mér góð nafn- gift hafa reynst, og báðum borið gæfu. Hvar sem Árni Helgason tekur til hendi, munar um þá hönd. Ég hef sjálfur búið í litlu sjávarpiássi um 10 ára skeið, og ég þekki í raun, hve mikið munar um hverja áhugasama hönd til alls kyns starfa, hvort sem er til atvinnu- starfa eða menningarstarfa. Mér finnst Árni ómissandi í Stykkishólmi. Mér finnst raunar verst, að ekki skuli hægt að gera hann eilífan á þessari jörð, vegna þess að slíkur maður virðist okkur hinum, samlífsmönnum hans, vera svo ómissandi, að það er tæp- ast, að við getum hugsað okkur ísland án hans, hvað þá Stykkis- hólm. _ Þegar ég hóf að skrifa þessi vin- arkveðjuorð til Árna, fletti ég upp í Æviskrám samtíðarmanna, og —rétt á eftir varð mér ljóst, að Árni Helgason hafði komið svo víða við á lífsleiðinni, að slík upptalning í þessum kveðjuorðum hefði hljóm- að hjákátiega. Svo ég gaf það allt upp á bátinn, enda stendur Árni jafnréttur eftir. ★ Það sem ekki stendur í Ævi- skrám er um lundina hans Árna, hvernig hann er af guði gerður. Og þá ekki síður um hans góðu konu, Ingibjörgu, en gestrisnari hjónum hef ég aldrei kynnst, og hef ég þó mörgum kynnst góðum um ævina. Aldrei var svo komið í Stykkis- hólm, að ekki væri heilsað upp á Árna og Ingibjörgu, og alltaf var tekið á móti mér og mínum, minni fjöiskyldu, eins og við værum uppáhaldsbörnin þeirra. Mér segir hugur um, að svona nokkuð sé hér- umbil einsdæmi. Eyjabændurnir, Árni og Ingi- björg, léðu okkur eitt sinn eyjuna sína, Bíldsey, til dvalar um stund, rétt si svona til að kynna okkur eyjalíf. Samt leist Árna ekkert á, þegar ég sagði honum, að ég ætl- aði að kaupa Tungueyjar. Svo fór þó samt, og Árni heimsótti okkur þangað. Hann hefur svo sannarlega reynst okkur betri en enginn við þessi umsvif okkar á Breiðafirði. Ég man varla nokkurn, nema ef vera skyldi Brokeyjarfólkið allt saman, sem raunar hefur um mörg ár gert okkur dvölina í Tungueyjum mögulega með dag- legu sambandi gegnum talstöð, auk margs konar hjálpar og að- stoðar, sem sjálfsagt verður aldrei fuliþökkuð eða viðurkennd. Þess vegna minnist ég á þá Hjaltalínana í Brokey í þessu sambandi, að mér sýnist þeir að vináttu og hjálpfýsi minna mig á Árna. Raunar get ég tæpast borið hann saman við aðra, og hann hlýtur að mega vel við una. Ég get naumast hugsað mér Stykkishólm án Árna. Eg veit að margir geta tekið undir þau orð með mér. Stundum er sagt, Árni minn, að oflof sé háð og þessvegna segi ég hér amen eftir efninu og læt hér staðar numið. Ég veit samt, að í gegnum tíðina get ég sjálfsagt aldrei fullþakkað vináttu þína og Ingibjargar og gestrisni ykkar við mig og mína. Að síðustu þessi vinarkveðja: Við óskum þér af hjarta til hamingju með sjötugsafmælið, kæri vinur. Friðrik Sigurbjörnsson Ekki man ég hvenær það var, en langt er nú síðan, að vinur minn og skólabróðir sr. Þorsteinn Lúth- er í Söðulsholti, sagði við mig eitt vorið er við vorum saman á Syn- odus hér í Reykjavík: „Þekkir þú ekki Árna Helgason? Þá er mál til komið að þú kynnist honum." Og svo varð. Daginn eftir lögð- um við allir þrír saman af stað vestur á Snæfellsnes. Segir ekki meira af þeirri ferð okkar en síðan höfum við oft hist við Árni Helga- son, bæði hér í Reykjavík og vest- ur í Stykkishólmi á fögru gest- risniheimili þeirra Ingibjargar. En þangað hefur ekki einungis verið gott að koma til að þiggja þar góðgerðir, gistingu og aðra fyrirgreiðslu á ferðalagi, heldur og ekki síður til að spjalla við hús- bóndann um hin margvíslegustu efni, því að fátt er það, sem Árni Helgason lætur sér óviðkomandi. Hann hefur brennandi áhuga á velferðarmálum þjóðar og ein- staklinga og fulian skilning á því, að hver sú þjóð sem í gæfu og gengi vill búa, verður að saman- standa af þeim einstaklingum, sem láta sér annt um æru sína og gæta þess að vita fótum sínum forráð. Þess vegna er það eitt af hjartans málum Árna Helgasonar að efla bindindi, að fólkið temji sér reglusemi og sjálfsafneitun, kunni sér hóf í hverjum hlut í stað þess að vaða áfram í villu og svíma óhófs og nautnasýki. Já, Árni er bindindismaður í þess orðs besta og einlægasta skilningi. Það veit alþjóð, því að oft hefur hann skrifað og talað til stuðnings bindindishreyfingunni. En það væri einhliða lýsing á Árna Helgasyni ef annað væri ekki tekið fram þegar hans er minnst á þessum merkisdegi í lífi hans. Þessi fjölhæfi fjörmaður lætur svo margt til sín taka, að hans gætir víða í samfélaginu. Og langt er síðan hann fór að skemmta öðrum með gamankveð- skap sínum, sem hann bæði samdi og flutti sjálfur á ýmsum manna- mótum, öðrum til óblandinnar ánægju og sem góða tilbreytni í hversdagslífinu. En það er ekki aðeins gaman- kveðskapur, sem Árni lætur til sín heyra. Hann er einn af hinum ljóðfróðu íslendingum, sem hefur á takteinum tilvitnanir í kveðskap góðskáldanna eins og hann er yfir- leitt fróður um menn og málefni víðsvegar um land og lætur sér fátt óviðkomandi, sem orðið getur til hollra áhrifa og góðrar dægra- styttingar á góðra vina fundi. Á þeim fundi verða eflaust margir í dag til að minnast þessara tíma- móta, sjötugsafmælis Árna Helgasonar. Þangað eru sendar bestu heillaóskir og kær kveðja til þeirra Ingibjargar og Árna með þökk fyrir margan góðan greiða og glaða stund á liðinni tíð. G.Br. Á stórafmælum er stundum kyrjaður sá söngur að alveg sé með ólíkindum að afmælisbarnið hafi náð jafnháum aldri og raun virðist bera vitni. — Þegar Árni Helgason í Stykkishólmi er sjö- tugur er hitt fremur undrunarefni að hann skuli ekki hafa lifað heila öld eða jafnvel enn iengur. — Svo vel hefur hann lifað, svo lifandi hefur hann verið, svo miklu hefur hann komið í verk að það er raun- ar stórmerkilegt að ekki séu nema 70 ár síðan hann leit fyrst dagsins Ijós. Sá atburður varð í Reykjavík, við Skólavörðustíg, en kornungur fluttist hann með foreldrum sín- um til Eskifjarðar og þar átti hann heima fyrstu þrjá áratugi ævi sinnar. Síðan hefur hann verið í Stykkishólmi, sýslufulltrúi fyrst en nú um langan aldur stöðvar- stjóri Pósts og síma. Ævi Árna Helgasonar hefur ekki liðið í „leti og dofa". Hann er afar starfsamur, hann er fjölhæf- ur með afbrigðum og hann er óvenju lifandi maður. Um tíma, ég held tveggja ára skeið, gegndi hann tveimur embættum samtím- is vestra og báðum allumfangs- miklum. Hann var bæði sýslu- fulltrúi og símstjóri og lét sig ekki muna um að vinna jafnframt nefndastörf ýmis sem nú munu yf- irleitt falin heilum stofnunum. Og þá lét hann ekki deigan síga í fjöl- þættum félagsmálastörfum enda hugurinn vakandi og frjór og áhugamálin mörg. Frá æskuárum hefur Árni verið ákveðinn bindindismaður. Hann ann heilbrigðu og fögru mannlífi. Þess vegna hefur hann jafnan bar- ist með oddi og egg gegn þeim öfl- um sem úða eitri yfir mannlífsak- urinn. Hann hefur ætíð gert sér ljóst að fordæmið er besta kennsluaðferðin. Ásókn unglinga í vímu á rætur í vímuvenjum þeirra sem kallast fullorðnir. Margur á honum mikla þökk að gjalda fyrir óþreytandi forustu í starfi stúkn- anna í Stykkishólmi og á Eskifirði og raunar baráttu á landsvísu. Seint verður talið og tíundað hvern þátt barnastúkustarfið hef- ur átt í mótun hollra lífshátta. Og oftar mætti geta þess en gert er að með einföldum reikningi má leiða rök að því að hundrað manna bindindisfélag spari þjóðinni ár- lega að minnsta kosti 10 milljónir króna. Og hvað þá um bindind- ishreyfinguna í heild? Árni Helgason er manna skemmtilegastur. Hann er lifandi dæmi um það að menn þurfa ekki á sjálfsblekkingu drykkjusiðanna að halda til að geisla frá sér lífs- gleði og þeyta gamanmálum eins og skæðadrífu kringum sig. Víml- ar verða gjarnan sljóir þegar ör- stuttur tími eftirvæntingar og trúar á að nú séu þeir „mátulegir" er liðinn. Árni er jafnan því glað- ari og hressari sem lengra líður á samkvæmi eða vinafund. — Hann er hagorður vel og flytur gam- anmál prýðilega. Á fjölsóttri nor- rænni kvöldvöku á Gotlandi sumarið 1981 léku ágætir menn víða að listir sínar. — Þá sýndi Árni eftirminnilega hver snilling- ur hann er. Hann bar af öðrum og hlaut að launum hylli og aðdáun. Árni Helgason er hamingju- maður. Hann hefur alla ævi notið þess að vera öðrum að liði, vinna þörf verk, berjast fyrir háleitum hugsjónum. Hann á góða konu, greinda og heilsteypta, og þau eiga sérstöku barnaláni að fagna. Við hjónin þökkum Árna og Ingi- björgu áratuga trausta vináttu og góðar og skemmtilegar stundir. Á þessum merkisdegi sendum við þeim kveðjur og þakkir og biðjum þeim blessunar Guðs í bráð og lengd. Ólafur Haukur Árnason { dag, miðvikudaginn 14. mars, er Árni Helgason, póstmeistari í Stykkishólmi, sjötugur. Á þessum tímamótum í lífi Árna má ekki minna vera en við sjálfstæðis- menn á Snæfellssnesi sendum honum kveðjur á síðum Morgun- blaðsins. Árni Helgason er fæddur í Reykjavík 14. mars 1914, en ólst upp á Eskifirði. Foreldrar Árna voru Helgi G. Þorláksson og Vil- borg Árnadóttir. Árni hóf ungur störf sem sýslu- skrifari á Eskifirði, en 1942 tók hann við starfi sýsluskrifara í Stykkishólmi sem hann gegndi til 1954, er hann gerðist stöðvarstjóri Pósts og síma í Stykkishólmi. Því starfi hefur hann gegnt síðan jafnframt því að vera umboðs- maður Brunabótafélags Islands, Flugleiða og auk þess fréttaritari sjónvarps, útvarps og Morgun- blaðsins. Árið 1948 kvæntist Árni konu sinni, Ingibjörgu Gunnlaugsdóttur frá Bakka í Víðidal, en hún var þá kennari í Stykkishólmi. Börn þeirra eru Gunnlaugur, Halldór, Helgi og Vilborg Anna. Ingibjörg hefur stutt mann sinn með ráðum og dáð og hefur Árni notið þess ríkulega hve vel hann er kvæntur. Árni hefur tekið sér margt fyrir hendur um dagana á sviði at- vinnu-, félags- og menningarmála og hvergi dregið af sér og ekki er það víst að öllum hafi þótt hann fara alfaraleið. Árni er gæddur þeim fágæta hæfileika að geta náð tengsium við fólk án formála og gengið óhikað fyrir hvers manns dyr. Mun það oft hafa komið sér vel er hann hóf störf sem sýsluskrifari á Snæfellsnesi og þurfti að hafa margvísleg samskipti við fólkið í héraðinu. Hefur þessi eiginleiki Árna auðveldað honum starfið, en jafnframt hefur hann kallað yfir sig eril sem hefur náð langt út fyrir raunverulegar eimbættis- skyldur hans. Eru þeir ófáir sem Árni hefur aðstoðað í vanda og jafnan hefur hann þá leitað ein- földustu úrlausna í hverju máli, enda ekki maður sem lætur „kerf- ið“ tefja sig heldur maður sem framkvæmir og lætur heilbrigða skynsemi ráða niðurstöðu mála. Árni hefur víða komið við í fé- lagsmálum. Á sviði stjórnmála hefur hann lagt Sjálfstæðis- flokknum lið sitt og reynst þar ódeigur baráttumaður og fylginn sér, fljótur til svars og fundvís á mótsagnir og hið skopíega í mál- flutningi þeirra sem deilt er við hvort sem um er að ræða sam- herja eða andstæðing. Hafa sjálfstæðismenn á Snæfellsnesi notið krafta hans m.a. í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna. í atvinnumálum hefur Árni ver- ið sívökull og hvetjandi til fram- taks. Hefur hann með þátttöku sinni í útgerð og fiskvinnslu stutt unga framsækna afhafnamenn. Á sviði sveitarstjórnarmála i Stykkishólmi hefur Árni starfað sem endurskoðandi hreppsreikn- inga og að skólamálum. Það starf sem langt umfram annað hefur átt hug hans allan eru bindindismál og stúkustarf. Áhugi hans á bindindismálum og skrif hans um þau efni hafa fyrir löngu gert hann þjóðkunnan. Störf Árna að bindindismálum í Stykk- ishólmi spanna yfir fjóra áratugi og er framlag hans í þágu barna og unglinga á þeim vettvangi ein- stakt og ómetanlegt. Auðvitað hefur Árni farið sínar leiðir í stúkustarfinu sem öðru. Sú leið hefur byggst öðru fremur á þeim vilja hans og samstarfsmanna hans til þess að virkja börnin í stúkustarfinu og þroska þau til átaka jafnt í lífsstarfinu sem í baráttu við þær freistingar sem hvers konar vímugjafar eru. Þessa er nú vert að minnast um leið og Árna og fjölskyldu hans eru send- ar bestu óskir í tilefni sjötugsaf- mælisins. Sturla Böðvarsson „Mýs og mennu — komin út hjá bókaklúbbi AB BÓKAKLÚBBUR Almenna bókafé- lagsins hefur sent frá sér skáldsög- una „Mýs og menn“ eftir John Steinbeck í þýðingu Ólafs Jóhanns Sigurðssonar. I fréttatilkynningu sem Mbl. hef- ur borist segir m.a. að skáldsagan sé einhver frægasta bók Steinbecks og að hún hafi verið kvikmynduð tvisvar sinnum síðan hún kom út árið 1937. Þar segir ennfremur að höfundur hafi samið leikritsgerð af bókinni, sem hafi verið sýnd víða um heim, m.a. hjá Leikfélagi Reykjavíkur. I eftirmála bókarinnar segir: „Skáldsagan Mýs og menn gerist í landbúnaðardal í Suður-Kali- forníu á þeim árum sem hún var samin, 1936—1937, það er að segja í kreppunni miklu, sem enn í dag er iðulega vitnað til. Hún bregður öðr- um þræði upp mynd af farand- verkamönnum á búgarði, sem eru að ýmsum ástæðum lausir í rás- inni, flækjast stað úr stað, einkum og sér í lagi fjallar hún um vináttu tveggja gerólíkra manna. Annar þeirra er tröllvaxinn heimskingi, eða réttara sagt hálfbjáni, og rammur að afli, en hinn andstæða hans, grannur og lágvaxinn, skyn- ugur maður og trygglyndur, sem leggur sig í framkróka til að vernda vin sinn risann og forða honum undan afleiðingum af sí- felldum aulapörum hans, þar eð hann veit, að þau koma hvorki til af mannvonsku né glæpahneigð, heldur af áskapaðri vöntun. Gildur þáttur í sögunni en vonardraumur þcssara manna um að eignast lítið býli, öðlast rótfestu, öryggi og lífshamingju í skauti náttúrunn- ar.“ Þessi útgáfa „Músa og manna" er JOHil myndskreytt af norska myndlistar- manninum Öyvind Hansen. Bókin er 189 bls. með eftirmála þýðand- ans. Hún er prentuð í Prentstofu G. Benediktssonar og bundin í Félags- bókbandinu hf.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.