Morgunblaðið - 15.09.1990, Blaðsíða 3

Morgunblaðið - 15.09.1990, Blaðsíða 3
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 15. SEPTEMBER 1990 3 Er fyrst o g fremst reið - segir Birna Hjaltadóttir, fyrsti Islend- ingurinn sem kemur heim frá Kúvæt BIRNA Hjaltadóttir, sem búsett hefur verið í Kúvæt undanfarin ár ásamt manni sinum, er fyrsti Islendingurinn, sem yfírgefur Kúvæt eftir að Irakar gerðu innrás í landið fyrir um sex vikum. Hún kom til landsins á fimmtudagskvöld eftir langt og erfítt ferðalag frá Kúvæt um Bagdad og Lundúnir. I samtali við Morgunblaðið segir hún frá því hvernig líf liennar, manns hennar og annarra íbúa Kúvæt breyttist í einni svipan er Saddam Hussein Iraksforseti sendi hersveitir sínar inn í Kúvæt og innlimaði landið í veldi sitt. Birna hefur búið í Kúvæt í fimm ár ásamt manni sínum, Gísla Sig- urðssyni lækni, og börnum þeirra, Hjalta, Þorbjörgu og Halldóri. Gísli er yfirlæknir gjörgæzlu- og svæf- ingardeildar á háskólasjúkrahúsi í Kúvæt-borg og kennir auk þess Svæfingarlækningar við háskólann. Gísli nam við háskólann í Lundi í Svíþjóð, sem hefur samning um læknaskipti við háskólann í Kúvæt. Þannig atvikaðist það að fjölskyld- an flutti til Kúvæt. „Við vildum prófa eitthvað nýtt, Gísli sótti um starfið, fékk það og við fórum,“ segir Birna. Sjálf hefur hún unnið utan heim- ilis í Kúvæt. „í Kúvæt var svo mikið að gera á meðan allt var eðlilegt, að ég hafði varla tíma til að vinna. Ég fékk starf hjá sænsku tryggingamatsfyrirtæki og var þar við ritarastörf í ijóra tíma á dag tvo daga í viku. Það hentaði mjög vel, ég var komin heim áður en krakkarnir komu heim úr skólanum og hina dagana gat ég svo notað til að fara á ströndina, verzla eða gera hvað sem mig lysti.“ Friðsemd og frjálsræði fyrir innrásina Hún segir að það hafi verið gott að búa í Kúvæt. „Okkur var vel tekið, og það komu engin vanda- mál upp. Það er mjög mikið af útlendingum í landinu, og við kynntumst fólki af öllum heims- hornum. Lífið í landinu var ij'öl- breytt og skemmtilegt. Allt var til- tölulega friðsamt, en eins og geng- ur og gerist í islömskum ríkjum við Flóann var lögreglan mjög ströng, og það lágu þungar sektir við því að bijóta af sér. Aféngi og svínakjöt er til dæmis bannað. En konur eru tiltölulega frjálsar, þær fá að fara allra sinna ferða, þurfa ekki að hylja andlitið með blæju og mega aka bíl, en slíkt mega þær til dæmis ekki í Saudi-Arabíu. Lífið í Kúvæt er mjög frjálst, að minnsta kosti samanborið við nágrannarík- in. Menn eru þó fastheldnir á gamla siði.“ Lítið talað um stjórnmál — llvernig var viðhorf fólks til furstafjölskyldunnar og stjórnar hennar fyrir innrásina? „Fólk talaði lítið um stjórnmál. En mér fannst að fólkið væri óskap- lega hrifið af krónprinsinuni. Faðir hans hafði verið emir og var mjög vinsæll og alþýðlegur. En ég veit ekki hvaða hug menn báru til emírsins, sem ríkti áður en Irakar komu. Ég heyrði aldrei neitt slæmt um hann. Myndir af þjóðhöfðingj- anum voru víða í borginni eins og tíðkast í arabalöndum, og þegar þjóðsöngurinn var leikinn í sjón- varpinu var sýnd mynd af honum um leið.“ Bima segir að Kúvætar séu opn- ir fyrir vestrænum áhrifum að vissu marki og þeir þurfi á útlendingum að halda til þess að byggja upp til dæmis skólakerfið og olíuiðnaðinn. Ilins vegar séu þeir ekki mjög hrifnir af ferðamönnum, enda þurfi þeir ekki á þeim að halda pening- anna vegna. „Þegar við fengum fólkið okkar í heimsókn urðum við alltaf að sækja um leyfi, og til- greina sérstaklega hvort um var að ræða foreldra, systkini eða fjar- skyldari ættingja. Það gekk fljótar fyrir sig að fá nána ættingja til sín en kunningja eða fjarskyldara frændfólk.“ Kúvætar líta á sig sem sérstaka þjóð, segir Birna, en hún segist ekki viss um hversu sterk þjóðarvit- undin sé. „Hefðirðu spurt mig að þessu í vor hefði ég sagt að þeir hefðu sterka þjóðarvitund. En hvað er hægt að segja þegar nágranna- þjóðin ræðst inn í landið og fursta- fjölskyldan og ríkisstjórnin hlaupa í burt með allan herinn með sér? Við myndum örugglega reyna að veija okkar land. En við verðum að skilja að arabar hugsa öðru vísi en við og það er oft erfitt að skilja afstöðu þeirra." Kúvætar flytja inn flestar nauð- synjar, frá Vesturlöndum og frá Saudi-Arabíu. „Það er bókstaflega allt hægt að kaupa í Kúvæt, -topp- tízkuna frá París og Ítalíu og allt niður í fjöldaframleiðslu frá Tævan. Þetta var gósenland að því leyti, en launin eru lág. Ætli fólk sér að fara til arabalanda að græða pen- inga er betra að fara til dæmis til Saudi-Arabíu, en þar er miklu minna fijálsræði.“ Enginn bjóst við innrás Birna segir að í friðsældinni í Kúvæt hafi enginn búizt við innrás Iraka. „Við vorum hér heima í fríi þegar fréttir fóru að berast af liðs- safnaði íraka við landamærin. Gísli hringdi út í vini okkar Kristínu og Sameh og spurði hvernig ástandið væri. Þau voru sallaróleg og sögðu að þótt írakar væru við landamær- in væri ekkert að gerast.“ Birna og Gísli ákváðu því að fara út, enda var Gísli búinn með sumarfríið sitt og hún átti sjálf að byija í nýju ritarastarfi á spítalan- um í byijun ágúst. „Við ákváðum að skilja börnin eftir hér, enda er enn svo heitt í Kúvæt í ágúst og ekkert við að vera fyrir þau, vinir þeirra ekki komnir úr fríi. Við vor- um heppin að því leyti.“ „Þeir eru að skjóta rakettum" — Hvernig urðuð þið fyrst vör við að verið væri að ráðast inn í landið? „Til að byija með sváfum við eins og unglömb og vissum ekki af neinu. Svo hringdi Kristín. Hús- ið hennar í háskólahverfinu stendur næst vegi, sem liggur inn í borg- ina, en okkar hús er nær sjónum. Háskólahverfið er rétt við aðal- stöðvar hersins og þar í kring er mikið af herstöðvum. Kristín vakti okkur og sagði: „írakarnir eru komnir í heimsókn." Hún sagðist hafa heyrt skruðninga og velt því fyrir sér hvort nágrannarnir væru að slást! Hún fer svo út að glugga og sér þá eldflaugar fljúga framhjá og heyrir sprengingar. Hún kallar þá á Sameh og segir: „Þeir eru að skjóta rakettum!" Þegar svonalag- að gerist dettur fólki alls ekki strax í hug að það sé komið stríð. Fyrst fannst okkur eins og við værum að horfa á bíómynd." Morgunblaðið/Bjarni Birna Hjaltadóttir. Birna segir að úr íbúð sinni hafi þau hjónin getað fylgzt með því þegar hundruð skriðdreka hafi ekið inn í borgina og vopnabúnaður verið fluttur framhjá. „Svo voru þeir að sprengja herstöðvarnar í kring um okkur. Fyrsta daginn log- aði allt, það voru sprengingar allt í kring. Okkur fannst við samt aldr- ei vera í lífshættu, lætin voru ekki það nálægt okkur, þótt húsið nötr- aði og glerið glamraði í gluggunum. En gauragangurinn stóð aðeins einn dag, svo var allt búið. Við sáum aldrei beint neina bardaga; okkur virtist vera lítil mótstaða." Ungir menn skotnir á götunum — í fréttum hefur verið sagt frá því að Kúvætar hafi sýnt innrásar- liðinu andspyrnu upp á síðkastið. Er enn barizt í borginni?' „Það er ekki eins og fréttamynd- ir frá Beirút, þar sem er barizt hús úr húsi. Þegar maður lítur út um gluggann er allt eins og venjulega. Bílar aka eftir götunum, fólk er að fara til vinnu og það er eins og ekkert hafi gerzt. Gísli verður hins vegar miklu meira var við átök. Á sjúkrahúsið til hans kemur mikið af fólki, sem búið er að skjóta, aðallega karlmönnum. Til að byija með þurfti að hlynna að mörgum íröskum hermönnum, en núna eru það aðallega Kúvætar, sérstaklega ungir menn, 18 til 20 ára, sem hafa brotið útgöngubannið og gert uppsteyt gegn hernámsliðinu úti á götum. Þeir eru einfaldlega skotn- ir. Þegar svona lagað gerist eru herlög í landinu, og maður verður að læra að lifa við það. Það þýðir ekkert að vera að þvælast úti þeg- ar það er bannað." Birna segir að útgöngubann sé í Kúvæt-borg frá klukkan sjö öll kvöld. Á daginn sé ferðafrelsi, en hún hafi ekki viljað taka áhættuna að vera mikið á ferli í borginni, enda tali hún litla arabísku. „Ég hef varla farið út úr húsi í sjö vik- ur. Aðra vikuna eftir innrásina fór ég þó með Gísla á spítalann, bara til að sjá önnur andlit. íraskir her- menn höfðu þá tekið sér stöðu við hliðið að háskólasvæðinu í stað kúvæsku öryggisvarðanna. Þeir litu bara í nafnskírteinin okkar og voru mjög kurteisir. En síðan hefur eftirlitið verið hert, eftir að þeir byijuðu að leita að Ameríkönum og Englendingum. Sameh maður Kristínar ók Gísla oft í vinnuna vegna þess að hann talar málið. Margir írösku hermannanna eru ólæsir og óskrifandi og geta ekki lesið á nafnskírteini. Það er þess vegna betra að geta útskýrt ferðir sínar fyrir þeim. í eitt skiptið voru þeir stöðvaðir fimmtán sinnum. Núna virðast þeir hafa náð nógu mörgum útlendingum og eru farnir að slappa af aftur. Fyrir um tíu dögum fór ég aftur út með Gísla og við vorum ekki stöðvuð nema tvisvar sinnum. Auðvitað er ekki gaman að vera stöðvaður af vopn- uðum hermönnum, en mér fannst aldrei að þeir ætluðu að gera okkur neitt, og þeir höfðu ekkert ofbeldi í frammi.“ Irakar tæmdu flutn- ingahöfnina — Það hafa heyrzt ljótar sögur af framferði íraskra hermanna; að þeir hafi meðal annars ráðizt á konur, rænt og ruplað. „Við heyrðum alls konar sögur, en ég sá ekkért af þessu sjálf, enda fór ég lítið út. Gísli fékk nokkur tilfelli, þar sem hafði verið ráðizt á konur. Það voru þá asískar kon- ur, þjónustufólk, sem hefur verið skilið eftir þegar húsbændurnir flúðu. Hvað ránin varðar, þá tóku írakarnir til að byija með allt sem þeir sáu. Þeir fóru burt með bíla, vélar og alls konar tæki. Hverfið okkar er nálægt flutningahöfninni og írakar tæmdu hana, tóku hvern einasta gám. Svo vorum við farin að heyra að fólkið í borginni væri sjálft farið að stela, til dæmis asíska þjónustufólkið. Það var að stela sér mat, af því að það vant- aði mat.“ Símasamband við útlönd rofnaði strax eftir innrásina og Birna segir að sér hafi þótt slæmt að geta ekki haft samband við fólkið sitt heima. Irakar yfirtóku sjónvarp og útvarp og fluttu þar íraskar fréttir og áróður. Fréttir frá útlöndum fengu þau í gegn um alþjóðlegar útvarpsstöðvar á borð við BBC og Voice of America og einnig náðu þau sænska útvarpinu á stutt- bylgjutæki. Þá fengu þau upplýs- ingar um hvernig bæri að haga sér, til dæmis um útgöngubannið, frá borgarbúum og samstarfsfólki Gísla á sjúkrahúsinu. Birna segir að þau hafi haft mikið samband við hina íslendingana, Kristínu, Sameh og börn þeirra, og Gísli og Sameh hafi til dæmis farið saman í verzlunarleiðangra til að birgja fjölskyldurnar upp af mat. Nógur matur í borginni „Þau hafa nógar vistir. Gísli hefur svo mikinn mat að hann gæti verið þarna í heilt ár án þess að kaupa sér neitt. Ég var nýbúin að búa til kæfu, sem endist honum fram að jólum. Það voru miklar matarbirgðir í landinu, og írakarn- ir tóku ekki mikið af þeim. Kúvæt- ar, sem áttu heildsölu, dreifðu og seldu matvælum sjálfir. Til að koma í veg fyrir stuld eru þeir farn- ir að gefa fólki ýmsar vörur, til dæmis hrísgijón, sykur og dósa- mat. Þeir bera jafnvel matinn heim í hús til fólks. Það virðist vera nógur matur, en ferskt grænmeti og ávexti skorti. Það er enginn vatnsskortur í landinu, Kúvætarnir hafa séð um að vatnskerfið, rafmagnsveitan og sjúkrahúsin ganga eðlilega. íbú- arnir sjá sjálfir um að safna saman sorpi, og á sjúkrahúsunum vinna til dæmis húsmæður í sjálfboða- vinnu við þrif og matreiðslu. írakar vildu ekki hafa sína hermenn á sjúkrahúsum í Kúvæt og fluttu þá til íraks með sjúkrabílum, en skil- uðu ekki bílunum aftur. Kúvætar aka því sjálfir með lyf og sjúkl- inga.“ Birna segir að margir útlending- ar séu farnir úr landinu en þar á meðal séu fáir, sem hún hafi þekkt persónulega, enda hafi mikið af kunningjafólki þeirra enn verið í fríi er innrásin var gerð. „Ein ensk vinkona okkar fór með brezkum hópi burt í flugvél, og við vissum að hún væri komin heim til Bret- iands heilu og höldnu þegar við heyrðum röddina hennar á BBC.“ Er fyrst og fremst reið Birna segir að hún hafi aldrei óttazt um líf sitt meðan hún var enn í Kúvæt. „Mínar tilfinningar lýsa sér fyrst og fremst þannig að ég er svo reið. Ég er svo reið yfir því að einhver karl skuli geta umsnúið lífi mínu og farið að ráðsk- ast með mig. Ég þarf að yfirgefa heimili mitt og allar eigur, hætta í vinnunni. Ég er mjög reið.“ Birna segir þau Gísli hafi ekki viljað fara úr landinu með Svíunum, sem reyndu að komast úr landi í gegn um írak. Fyrst hafi þau ekki verið tilbúin að fara, og þegar ann- ar hópur hafi lagt upp hafi þeim verið sagt að ekki væri hægt að tryggja að þau kæmust lengra en til Bagdad. Þá var ekki búið að leyfa vestrænum konum og börnum að yfirgefa landið. „Við hugsuðum með okkur: Hvað eigum við að fara að gera í Bagdad, sitja þar á hóteli, bíða eftir að komast út og hanga þar? Við töldum miklu þægi- legra að bíða heima hjá okkur.“ Hvað vorum við annað en gíslar? — Lituð þið á ykkur sem gísla íraka? „Það var beggja blarids. Við vor- um inni á heimili okkar, en með takmarkað ferðafrelsi. Vorum við nokkuð annað en gíslar? Maður hlýtur að vera gísl, þegar maður má ekki yfirgefa landið nema með leyfi.“ Eftir að vestrænum konum og börnum var gefið leyfi til að fara úr landinu, segir Birna að Gísli hafi nánast skipað sér að fara. „Börnin eru að byija í skóla hér heima, foreldrar okkar eru aldraðir og ég varð að fara heim að hjálpa til. Gísla finnst ástandið líka vera að versna. Honum finnst að særðu fólki, sem kemur inn á sjúkrahúsið, hafi fjölgað, og spennan í loftinu sé orðin meiri.“ Birna leitaði til bandaríska sendiráðsins og spurði hvort það gæti aðstoðað sig að komast út úr landinu. Það var auðsótt mál. „Mér sagt að á þriðjudag myndi ég fá far út úr Kúvæt, og ég mætti taka með mér eins mikið og ég gæti borið sjálf. Ég mætti á tiltekinn stað á miðvikudaginn með 400 Bandaríkjamönnum. Okkur var safnað í langferðabíla og síðan ekið með okkur stutta vegalengd á flugvöllinn við Kúvæt-borg. Áður en ég fór inn í flugvélina var ég beðin fyrir þijú börn, bandaríska stráka, þriggja, sex og níu ára gamla. Faðir þeirra, Kúvæti, var að senda þá aleina úr landi til móður þeirra í Bandaríkjunum. Ég hafði þarna skyndilega eignazt þijú börn og hafði um nóg að hugsa á leiðinni. Frá Kúvæt var svo fjörutíu mínútna flug til Bagdad. Þar tók við mikil bið og skriffinnska. Við þurftum að láta stimpla vegabréfin okkar, fylla út eyðublöð og fá þau stimpluð, fá leyfi til að fara úr landinu og svo framvegis. Þetta tók tímann sinn fyrir fjögur hundruð manns.“ Frá Bagdad var flogið til Lund- úna og þar dvaldist Birna einn sól- arhring á heimili íslenzka sendi- herrans áður en hún komst heim til íslands. Miklir fagnaðarfundir urðu með henni og börnunum henn- ar þremur, en það skyggir á gleð- ina að Gísli varð eftir. „Ég hef ekki áhyggjur af honum. Ef það væri kominn desember og hann væri ekki kominn, hefði ég áhyggjur. En hann hefur nógan mat og hann er enn að vinna. Hann hefur félagsskap af Kristínu og fjölskyldu hennar, og svo ná- grönnum okkar í húsinu. Ég er ekkert hrædd um að hann sé í lífshættu, en auðvitað er leiðinlegt að þurfa að fara og skilja helming- inn eftir. Ég er vongóð núna af því að ég var að tala við hann Finn- boga Rút í utanríkisráðuneytinu, og þeir eru að vinna að því að fá hann út. Nú vonum við bara að hann komi fljótlega.“ Birna segir að leysist Kúvæt- deilan, sé hún tilbúin að fara til landsins aftur og búa þar áfram. Það sé þó ljóst að það verði ólíkt því, sem var. „Kúvætarnir vildu sjálfir lítið segja um innrásina og innlimunina. Ein vinkona mín sagði að þetta væri eins og vondur draumur. Irakar hafa tekið allt, rústað allt, þeir virðast ætla að skilja við landið eins og það var fyrir fimmtíu árum, eyðimörk. Það mun þurfa gífurlegt uppbyggingar- starf.“

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.