Þjóðviljinn - 30.03.1985, Blaðsíða 12

Þjóðviljinn - 30.03.1985, Blaðsíða 12
LEIKUST Hjarðljóð um óst íslenski dansflokkurinn sýnir DAFNIS OG KLÓI, Ballett eftir Nönnu Ólafsdóttur Tónlist: Maurice Ravel Ballettsaga: Nanna Ólafsdóttir og Sigurjón Jóhannsson Leikmynd: Sigurjón Jóhannsson Hér er stigið enn eitt merkilegt spor í sögu íslenska dansflokks- ins, því að Dafnis og Klói er fyrsti heilskvöldsballett saminn af ís- lenskum dansahöfundi. Og þetta spor var um leið mikill sigur fyrir íslenska dansflokkinn, fögur og heillandi sýning sem gekk beina leið inn í hjörtu áhorfenda og vakti óvenjulegan fögnuð. Nanna Ólafsdóttir segir sjálf að hún hafi lært mest sem dans- ahöfundur af þeim Marju Kuu- sela frá Finnlandi, sem samdi ballettinn Tófuskinnið, og Joc- hen Ulrich sem samdi Blindings- leik. Aðferðir hennar sverja sig líka mjög í þessar ættir, lögð er mest áhersla á leikræna þáttinn, að segja söguna skýrt og skil- merkilega og koma tilfinninga- innihaldi hennar til skila, en mér sýnist Nanna leggja öllu meiri áherslu á formræna þáttinn en t.d. finnski Raatiko-ballettinn. En umfram allt hefur Nönnu tek- ist að koma sögunni þannig til skila að hver hreyfing dansar- anna fær glögga og ákveðna merkingu innan ramma sögunn- ar, hér eru ekki stigin nein dans- spor danssporanna vegna, heldur er hvert spor hluti af hnitmiðaðri heild. Þannig tekst að koma inn- taki hinnar eldfornu sögu til skila þannig að allir skilji og finni til. Þetta er danslist af bestu gerð. Dafnis og Klói er saga úr frum- bernsku skáldsögunnar, 1800 ára gamalt hjarðljóð í óbundnu máli, ódauðleg lýsing á því hvernig ást- in kviknar í brjóstum ungmenna í skauti náttúrunnar. í meðförum Nönnu verður þetta saga um bar- áttu andstæðra afla í lífinu, þess góða, upprunalega og náttúrlega annars vegar - og hins vegar þess illa og ónáttúrlega. Þessar and- stæður koma víða mjög sterkt fram í sýningunni, t.d. þegar Dafnis og Dorkon heyja einskon- ar einvígi um hylli Klói, þá eru það mjúkar og eðlilegar hreyfing- arnar í dansi Dafnis sem reynast áhrifameiri en áreynslumikil og ónáttúrleg heljarstökk Dorkons. Einnig má nefna upphaf seinni hlutans þar sem við sjáum fyrst háttbundinn og eðlilegan gang sveitalífsins, en síðan ryðjast af- skræmislegir hermenn yfir allt saman, og enn má nefna and- stæðurnar undir lokin milli náttúrlegrar gleði og fegurðar elskendanna og afkáralegra og skrumskældra hreyfinga hins spillta hyskis. Þannig hefur Nanna dregið mjög skarpt fram ýmislegt sem þessi einfalda saga býður uppá. Útfærsla sýningarinnar er einnig í meginatriðum mjög góð. Hún geldur að vísu þeirra tak- markana sem það hlýtur að vera að eiga ekki völ á vel þjálfuðum karldönsurum að neinu marki, en yfirleitt tókst furðuvel að sneiða hjá þeim skerjum með því að of- bjóða ekki getu karldansaranna. Þó hygg ég þetta hafi verulega spillt hópsenum, sem skorti víða samstillingu og sterka hrynjandi. En það var í tvídönsunum sem þessi sýning reis hátt, einkum í stórfallegum og erótískt spenntum dönsum þeirra Einars Sveins Þórðarsonar og Helenu Jóhannsdóttur (hún dansaði Klói á frumsýningu, en síðan til skiptis við Katrínu Hall). Einar og He- lena dansa hlutverk sín af miklum þokka og glæsibrag, ná vel að tjá vaknandi ástarþrá og útrás henn- ar. Birgitta Heide skapaði mjög skemmtilega og skýra persónu úr hinni ástleitnu Lýkenon sem freistar Dafnis, og er skemmti- lega ágeng og djörf. Jónas Tryggvason sýnir afburða fim- leikahæfni í hlutverki Dorkons og einvígi þeirra Einars er bráð- skemmtilega útfært. Það er snjallt af hendi Nönnu að greina dísirnar frá venjulegum mennsk- um mönnum með því að láta þær dansa í klassískum stíl, og þær Auður Bjarnadóttir og Ásdís Magnúsdóttir eru öruggar í þess- um hlutverkum eins og vænta mátti. Fjölmargir aðrir dansarar koma fram í sýningunni og yrði of langt upp að telja. Hlutur Sigurjóns Jóhanns- sonar í sýningunni er mikill og góður. Hann hefur unnið með Nönnu að gerð leiksögunnar og hefur þar áreiðanlega nýst vel mikil leikhúsreynsla hans. Hann hefur einnig skapað verkinu fal- lega hjarðljóðsumgerð og gert búninga sem greina hinar fjöl- mörgu persónur vel í sundur og gefa til kynna eðli hvers og eins. Dafnis og Klói er fallegur óður til lífs og ástar, ótvíræður sigur fyrir Nönnu Ólafsdóttur og ís- lenska dansflokkinn. Sverrir Hólmarsson Norrœnt samstarf Fréttir af ástandi í Kópavogi sýnir HLAUPVÍDD SEX eftir Sigurð Pálsson Leikstjóri: Þórhildur Þorleifsdóttir Þetta leikrit Sigurðar Páls- sonar var upphaflega samið fyrir Nemendaleikhúsið og sýnt þar fyrir allnokkrum árum, en sýnir sig nú að vera á marga lund kjörið verkefni fyrir menntaskóla- leikhóp. Það er ritað í tiltölulega stuttum, samþjöppuðum atriðum og leikbyrðin dreifist nokkuð jafnt á allstóran hóp. Það fjallar á gamansaman en einnig átakan- legan hátt um eitt afdrifaríkasta skeið íslenskrar sögu, hernáms- árin, og einkum og sérílagi áhrif þeirra á íslenskar konur. Við erum í upphafsatriði kynnt fyrir sex ungum konum sem eru að salta síld á Siglufirði daginn sem Þjóðverjar ráðast inn í Pólland. Þær eru af mjög mismunandi uppruna og við fylgjumst síðan með hvernig örlög þeirra verða á stríðsárunum og hvernig þær all- ar - nema ein - verða hernáminu á einhvern hátt að bráð. Hlaupvídd sex er ekki djúprist verk í persónusköpun og það hef- ur mjög losaralegan söguþráð, en í því tekst ágætlega að bregða upp sterkum myndum af þeirri hol- skeflu peninga og erlendra menningaráhrifa sem skall yfir fátæka og grunlausa þjóðina. Það lýsir því hvernig „vendararnir” taka einkum og sérílagi íslenskar konur undir sinn verndarvæng, konur sem eru of hrekklausar og óheimsvanar til að átta sig á því hvað var raunverulega að gerast. Og í lokin, þegar stríðið er búið, hugga þeir konurnar með loforði um að þeir muni verða hér áfram og halda áfram að vernda þær. Sýningin er sett upþ í Hjá- leigunni í Kópavogi, sem er pínu- lítill en nokkuð skemmtilegur sal- ur, og það er alveg furðulegt hvað Þórhildi Þorleifsdóttur tekst vel að rúma mannmarga sýningu á þessu litla sviði án þess manni finnist nokkurn tíma þröngt um hana. Leikstjóm Þórhildar er reyndar á allan hátt með sérstök- um ágætum og fer saman hug- kvæmni í útfærslu og sérstaklega vönduð vinnubrögð þar sem rækt hefur verið lögð við hvert smáatr- iði. Það er ekki síst í sýningum áhugaleikara sem geta leikstjór- ar.s sýnir sig og því afskaplega mikilvægt fyrir slíka hópa að vanda val leikstjóra. Þórhildur hefur áreiðanlega náð uppundir það eins miklu út úr þessum hóp og yfirleitt er hægt, og auk þess náð að skapa sýningunni sérlega traustan heildarsvip. Styrkur hennar sást kannski best í at- riðum einsog yfirheyrslunum þar sem látbragð grímuklæddra dómaranna var snilldarlega út- fært, og atriðinu þar sem Katrín Brynjúlfs er að reyna að kenna stöllum sínum dansatriði. Stúlknahópurinn stóð sig allur með mestu prýði, en Margrét Sæ- berg vakti sérstaka athygli í hlut- verki Katrínar vegna þess hve leikur hennar var í senn tilfinn- ingaheitur og tæknilega agaður. Birgitta Guðmundsdóttir var mjög sannfærandi í hlutverki þeirrar drykkfelldu og lauslátu Nínu sem stendur á sama um allt, og Jóhanna Pálsdóttir kom afar vel til skila einfeldni, hrekkleysi og sakleysi sveitastúlkunnar Stellu. Þá er rétt að geta um Guð- rúnu ísberg, sem lék hina lýrísku sérrífrú Kötlu Brímdal af sér- stakri innlifun. Frú Katla er auðvitað margþvæld týpa en skemmtilega skrifuð af hendi Sig- urðar, liggur uppí sófa í sérrí- drykkju full upp af yfirstéttar- hroka og Einari Ben, og Guðrún túlkar hana af öryggi og ríku skopskyni. Hlaupvídd sex er skýrt dæmi um það að áhugasamur leikhópur á borð við þennan getur náð að skapa verulega eftirminnilegar sýningar, ef þeir velja sér verk- efni við hæfi og fá vel hæfan leik- stjóra. Hér hafa geysimargir lagt hönd á plóginn, fleiri en unnt er að nefna, en þeir hafa allir unnið af alúð og áhuga og verk þeirra hefur svo sannarlega borið ríku- legan ávöxt. Þökk sé þeim fyrir frábæra skemmtun. Sverrir Hólmarsson Þjóðleikhúsið sýnir VALBORGU OG BEKKINN eftir Finn Methling Leikstjóri: Borgar Garðarsson Leikmynd: Stígur Steinþórsson Þýðing: Þrándur Thoroddsen Það er vel til fundið að sætum í leikhúskjallaranum skuli nú vera skipað eins og á matsölustað og gestum gefinn kostur á að snæða svínasteik að dönskum hætti á undan sýningu, dreypa á vínglasi og sitja síðan mettir og sælir og njóta ísmeygilegrar fyndni og ágætrar lífsspeki danans Finns Methling. Þessi umgerð kemur áhorfendum í rétt ástand til að njóta til fulls þeirra leiklistar- krása sem hér er boðið uppá. Þær eru kannski léttmeti og ekki þungmeltar, en þær renna ljúf- lega niður og fara undurvel í maga. Þetta snotra verk segir frá 74 ára konu sem er nýbúin að missa manninn sinn. Hún fer 1. maí út í Fælledparken og sest þar á bekk sem hún ævinlega gisti ásamt manni sínum þennan dag, meðan hann lifði. Hún fer að tala við þennan fornvin sinn, bekkinn, rifja upp minningar um liðnar sælustundir á honum og segja frá samskiptum sínum við börn sín og nýjan vin sem hún hefur eignast, og á reyndar von á að hitta þennan dag. Hún hefur þor- að að gerast skotin í karlmanni, komin á þennan aldur og nýorðin ekkja, og þetta hneykslar börnin hennar afskaplega mikið. Þeim finnst að hún eigi bara að vera gamalmenni og sitja og prjóna. Höfundur lýsir gömlu konunni af mikilli samúð og gerir óspart gys að smáborgaralegum og lífs- fjandsamlegum viðhorfum barna hennar. Allt er þetta sett fram í samtölum Valborgar og bekkjar- ins á bundnu máli, sem Þrándur Thoroddsen hefur þýtt af mikilli list og alkunnri hagmælsku. Þrándur hefur kosið að halda sem mest í hinn danska blæ textans, rímar saman Ester og Bröndby- vester, og er það áreiðanlega rétt tekin stefna, því að andrúmsloft þessa leikrits er ákaflega danskt, þrungið því sem danir kalla „lune” og verður trauðla þýtt á aðrar tungur. Guðrún Stephensen hefur nú tæpast aldur til að leika Val- borgu, en hún hefur langa reynslu af að leika kerlingar og fer létt með þessa, gæðir hana þeirri glettni og lífsgleði sem við á. Karl Ágúst Ulfsson fer á kost- um í hlutverki bekkjarins, bregð- ur sér í ýmissa kvikinda líki, skopstælir og skrumskælir, og tekst sérlega vel upp þegar hann hermir eftir börnum Valborgar í samtölum við hana. Borgar Garðarsson hefur leikstýrt þeim af mikilli alúð við smáatriði og lagt sig fram við að gera sýning- una lifandi, enda finnst ekki í henni dauður punktur. Stígur Steinþórsson hefur gert einfalda leikmynd sem ber þó í sér ótrú- lega mikið af blæ þeirra dýrlegu garða sem Kaupmannahöfn hef- ur uppá að bjóða. Fyrir þá sem ekki hafa efni á að skreppa til Hafnar er kjörið að bregða sér í leikhúskjallarann eina kvöldstund og hverfa í hug- anum á vit þeirrar ágætu borgar. Það er næstum eins gaman - og miklu ódýrara. Sverrir Hólmarsson 12 SÍgA - ÞJÓÐVILJINN Laugardagur 30. mars 1985

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.