Tíminn - 17.03.1989, Blaðsíða 9

Tíminn - 17.03.1989, Blaðsíða 9
Föstudagur 17. mars 1989 Tíminn 9 VETTVANGUR ■IIII Guðjón Jónsson: Fyrnast aldrei orð þín snjöll Einar Þveræingur Þegar innlendur þegn opnar hliðin fyrir fjandmönnum þjóðar eða leggur þeim vopn í hendur, þá heitir slíkt athæfi landráð. En margt athæfið er í sama flokki, þó að menn skirrist við að nota um það þvflíkt orð, eins og menn kalla einirunn ekki risafuru, þó að þeim sé gefið samheiti í grasafræðinni. Líf þjóðarinnar - eða Hvalur hf.? Þegar Guðrún Helgadóttir, for- seti Alþingis, gerði sig bera að þeint dómgreindarskorti (nýbúin að áfellast stórlega annan forseta fyrir brest af sama toga), að sjá það eitt markmið með rannsóknarveið- um á hvölum að vernda atvinnu- rekstur Kristjáns Loftssonar, þá þurfti enginn að undrast. Ekki gefast almennt skýrari dæmi um skort dómgreindar en það að að- hyllast sovéskan kommúnisma - enn í dag, eftir bæði Krústjoff og Gorbatsjoff. Það kann að hafa verið afsakan- legt að villast með þessum hætti fyrir 1936, sem og að sýnast nasism- inn á þeim tíma árangursrík stefna, eins og forseti þýska þingsins lýsti svo eftirminnilega á illa valinni stund. Þeir sem síðan sáu villu sína og höfðu manndóm til að viður- kenna hana og snúa frá henni, eins og Halldór Laxness, verðskulda uppreisn æru og hljóta jafnvel traust. Þó er vitað, að sá sem einu sinni villist alvarlega á fjöllum, verður aldrei samur maður, aldrei öruggur leiðsögumaður á ný. Rat- vísi hans veiklast, þó að hann kunni að vera fær til annarra hluta. Guðrún Helgadóttir kann að vera góður rithöfundur, ef hún lætur vera að reka áróður, reyna að segja til vegar í þjóðmálum. Til slíkrar leiðsögu verður henni aldrei treyst úr þessu, jafnvel ekki þótt hún í elli sinni sjái að sér og játi herfileg glöp sín að vona á Sovét. Eftir þvílíkan opinberan dóm- greindarskort eiga menn ekki að vera forsetar né áfellast aðra fyrir mistök. Háskólarektor Það er í þessu Ijósi sem skoðað verður upphlaup Guðrúnar Helga- dóttur s.l. haust, eins og útvarpið kynnti það þá. Vissulega hlaut hverjum manni að blöskra, hversu forseti Alþingis lagði fjandmönn- um þjóðarinnar vopn í hendur, en undrun vakti það ekki að sama skapi, vegna þess hver átti í hlut. Hitt var því meira undrunarefni og sárara en sagt verði, þegar háskóla- rektor lagðist jafn lágt - og það með öllu án tilefnis. Engi nauður rak hann til að minnast á þetta mál í ræðu sinni, hann réð áreiðanlega einn öllu um efni hennar. Og sá maður hafði til þess tíma notið óskoraðs trausts og virðingar. Árni Gunnarsson boðaði frum- varp um stöðvun hvalveiða. Samdægurs vissu grænfriðungar um allan heim hvað hann ætlaðist fyrir. Áfram, fjandmenn, áfram Það er síst að furða að öll þessi herhvöt frá íslensku fólki í æðstu virðingarstöðum orkar örvandi á grænfriðunga. Líka varð hér það slys að forsætisráðherra tók óvart lagið með þessum kór - allir hlutu að túlka orð hans í haust sem áskorun til grænfriðunga: Við myndum óðara gefast upp, ef þeir ógnuðu ofurlítið meir. Og sagði hann þó ekki þetta. Þá má ekki gleyma garminum honum Katli með grátraustina í kverkum. Ekki skal lá honum, víst er honum vorkunn eftir það sem nú hefur gerst, kannski mest sökum blaðurs- ins hér heima. En mikil nauðsyn var Theódór S. Halldórssyni að skilja strax, áður en hann bætti gráu ofan á svart, að með hjartað í buxunum mátti hann hvergi þar koma, sem grænfriðungar gætu séð hann eða heyrt. Annarra verður ekki getið, nema að lokum áköfustu stuðn- ingsmanna óvinanna, hinna símal- andi áróðursmanna þeirra hér heima: fjölmiðlafólksins, t.d. frétta- manna útvarpsins, og þeirra sem stýra þættinum „í liðinni viku“, en það er engu líkara en þau velji viðmælendur eftir afstöðu í þessu máli. Frá fréttamönnum skulu tvö lítil atvik nefnd, aðeins sem dæmi um vinnubrögð þeirra og bæði af meinlausara tagi. I fréttayfirliti nýlega var haft eftir Jóni Baldvin, að vel kæmi til greina að stöðva hvalveiðar nú. Þetta var gert að aðalatriði og flutt með áherslu. Fréttin í heild, eins og hún var síðan flutt, bar þó glöggt með sér, að ráðherrann hafði lagt áherslu á, að EKKI kæmi til greina að breyta unt stefnu í málinu fyrir þrýsting frá grænfriðungum. í annað sinn var sagt frá störfum Hafrannsókn- arstofnunar, sem upplýsti að frjó- semi langreyða væri meiri og fjölg- un örari en áður hafði verið talið. Þótti þetta merkileg frétt hjá frétta- stofu útvarpsins? Ekki aldeilis! Þar var áhersla lögð á, að „þungunar- tíðni hvala væri EKKI jafn stöðug” og áður hefði verið talið! Með þessu orðalagi varð umsögnin nei- kvæð og líkleg til að kveikja þann misskilning hlustenda, að árangur rannsóknarinnar veikti málstað ís- lands en styrkti grænfriðunga. Með svona lævíslegum hætti reka frétta- menn áróður óvinanna - og stund- um alveg grímulaust. Hvað gengur þeim til? Eru þeir að reyna að koma höggi á einhvern? Markmiðið er að stöðva allar veiðar Hvalveiðar sem nú eiga sér stað hér við land hafa að sjálfsögðu nær engin áhrif á viðkomu þessara skepna. í því tilliti skipta þær alls engu máli. Hví hamast græn- friðungar þá svo mjög til að koma okkur á kné - og sárvorkenna okkur þó, að sögn Árna Gunnars- sonar? Ástæðan er augljós: Tapi þeir þessari orrustu, telja þeir sig standa verr að vígi til að ná raun- verulegu markmiði sínu: að stöðva allar hvalveiðar um alla framtíð og loks að stöðva allar veiðar í sjó. Vera má, að þessu markmiði gætu þeir aldrei náð, þó að látið væri undan þeim í bili. Kynni því að hafa verið farsælla að freista þess að halda frið og stöðva veiðar þessi ár. Ég trúi því þó ekki. Þessari spurningu var hvorki unnt að svara fyrirfram né heldur er það hægt nú. En öll framkoma græn- friðunga, óvilji þeirra á að safna upplýsingum um hvali og öll með- ferð þeirra á sannleikanum gerir þá í fyllsta máta ótrúverðuga. Það er því mat mitt eins og flestra annarra, að svo framarlega sem þjóðin vill lifa og þarf að lifa af þessum veiðum, þá verður hún að halda velli í þessu stríði. Þannig verður hún að fylgja eftir sigrum sínum í landhelgisstríði fyrrum, - enda til lítils að heyja það stríð, ef okkur verður nú bannað að veiða. Það er nákvæmlega það sem um er að tefla við grænfriðunga. Ekki aðeins bannað að veiða hval, þótt örimni oMmfatmöföt mmnir það sé reynt fyrst, heldur líka þorsk, loðnu, rækjur, - það verða bannaðar allar veiðar í hafinu enda ekkert samræmi í öðru. Eitthvað myndu friðaðir hvalir þurfa að éta, og varla verður „mannúð" græn- friðunga bundin við einn flokk dýra. Þetta hafa grænfriðungar sjálfir viðurkennt, þegar Morgun- blaðið spurði. Og er sú hreinskilni virðingarverð og opinskárri en lík- legt mætti þykja, en á hinn bóginn einungis rökrétt niðurstaða. Þetta var og að sjálfsögðu mat Morgun- blaðsins, þess vegna bar það fram spurninguna. Almenn samstaða Þau dæmi um óþjóðhollan mál- flutning, sem fyrr er getið og flokka verður meðal alvarlegustu brota gegn hagsmunum þjóðarinn- ar, sjálfstæði hennar og tilveru, sýna ekki afstöðu almennings í landinu. Til skamms tíma ríkti mikill einhugur í þessu máli eins og áður í landhelgisbaráttunni. En nú virðist þess gæta í vaxandi mæli, að menn missi kjarkinn eða ruglist í ríminu og sýnist úlfurinn vera sinn góði hirðir. Þegar valinkunnum háskólarektor fer svona, ásamt ýmsu öðru fyrirfólki, og jafn mikil- hæfur fjölmiðill og Morgunblaðið sýnir ákveðna tilhneigingu til að gera dómgreind Guðrúnar Helga- dóttur að sinni, þá er engin furða þótt sumir sem veikari eru á svell- inu hugsi hvorki rökrétt né langt fram í tímann. Það er vorkunnar- mál. Þegar krosstrén bregðast Þó að hinn lævísi áróður útvarps- ins - sem málpípur þess fá borgað fyrir úr vasa almennings - sé einn ógeðfelldastur í þessu máli, þá er hlutur Háskólans kannski hryggi- legastur, það er í senn óvæntast og sárast að einmitt hann skuli bregð- ast svo hrapallega í sjálfstæðisbar- áttu þjóðarinnar, sjálft helsta krosstréð. í einni áróðursgrein úr þeim herbúðum segir raunar að skólinn sé „Ekki mjög góður há- skóli“ (Þorsteinn Gylfason í Mbl. 13. des.) og bendir margt til að það sé rétt - en það er ekki mikil huggun fyrir þjóðina. Annar mál- flutningur háskólamanna um þess- ar mundir vekur óhjákvæmilega þá spurningu, hvert þeir ætli að sækja laun sín og annan rekstrarkostnað Háskólans, ef grænfriðungar fara með sigur af hólmi. Erlendis mun þó forseti Alþingis vart vera minna nafn í þessu máli, þar sem persónan er óþekkt. Kannski var það þetta nafn, sem varð grænfriðingum nytsamlegast allra, ásamt vitneskju um væntan- legt frumvarp á Alþingi til fram- dráttar málstað þeirra. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. í staðinn fyrir að gefast upp fyrir einhuga þjóð, sem í krafti málstaðar síns léti engan bilbug á sér finna, þá fengu grænfriðungar nú einmitt það blóð á tunguna, sem þeir þurftu til að komast í ham og efla baráttu sína, til að sannfæra sjálfa sig og kaupendur íslenskra afurða um að skammt væri orðið í uppgjöf á íslandi, nú væri að bresta þrek þeirra, sem fyrr stóðust bæði viðskiptastríð og áralangar styrj- aldir við hinn konunglega breska flota. Vissulega er nokkur árangur augljós orðinn í Þýskalandi, og er mikil ábyrgð þeirra sem hafa stuðl- að að sliku með gálausu tali. „Maður þarf stundum að hugsa!“ Nú dettur mér ekki í hug að þetta fólk sé að bregðast þjóð sinni að yfirlögðu ráði. Það er ekki vitandi vits að kalla yfir sig skefja- lausa samkeppni eða einkarétt hvala til fæðunnar í sjónum, bann við öllum veiðum - að sjálfsögðu með einni kunnri undantekningu. Heldur lokar það einfaldlega aug- unum fyrir því, að slíkt sé markmið grænfriðunga - þrátt fyrir svör þeirra birt í Morgunblaðinu. Það gerir sér enga grein fyrir, hvílík rökleysa það væri að friða hvali - og friða þá eina saman en stunda aðrar veiðar líkt og nú. En þetta fólk mætti, átölulaust af mér, eiga sína órökréttu og vanhugsuðu trú, það mætti í hug sínum og hjarta taka undir við grænfriðunga og berjast sömu bar- áttu, ef það einungis héldi sig innan réttra marka: á lokuðum fundum Alþingis, í utanríkismála- nefnd eða ríkisstjórn. Þar sem ákvörðun verður að taka. Bara ekki í áheyrn óvinanna, því að það er brot í sama flokki og landráð, þótt menn kveinki sér við að segja það, og þó að í rauninni gangi mönnum ekkert verra til en hugs- unarleysi eða misskilningur, hræðsla eða bláber heimska - jafn- vel hrein hjartagæska á villigötum. Ef þessa hefði verið gætt, þá hefði ekkert gerst sem jafnað yrði við landráð. Og þá hefði verið tekinn frá undirrituðum sá kaleikur að! skrifa þessa grein - sem var að stofni til samin fyrir jól, en þá lögð í salt í þeirri von, að annaðhvort legðust opinberar umræður af eða þær yrðu umberanlegar. Því miður er hvorugu að heilsa. Samstarf eða stríð? Nú ber að viðurkenna, að svo mjög sem grænfriðungar eru mis- lagðar hendur, þá vinna a.m.k. sumir þeirra að ýmsum góðum málum, sumum lífsnauðsynlegum. Og meðal góðra verka var að friða ofveidda hvali. Þar vorum við þó langt á undan og bönnuðum slíkar veiðar áður en elstu grænfriðungar fæddust. Það er ekki von þeir viti það, slíkur sem áhugi þeirra er á sannleikanum, enda halda þeir því víst ekki á lofti. En stríð milli okkar og þeirra er grátlegt, þar sem einmitt ætti að vera grundvöll- ur fyrir samvinnu um verndun lífrikisins, alveg sérstaklega kannski um forvarnir gegn mengun hafsins. Og þrátt fyrir allt sem sagt er hér, er ég reiðubúinn að láta sannfærast um að það megi taka grænfriðunga í sátt. Geta málsvar- ar þeirra í Háskóla og á Alþingi staðfest, að þeir ætli sér ekki að stöðva allar veiðar á hval í framtíð- inni og á þeim dýrum sem hvalir eta? Geta þeir staðfest að markmið þeirra sé ekki að stöðva allar veiðar í sjó, og fyrri viðurkenning um það sé markleysa? Geta þeir staðfest, að þvert á móti muni grænfriðungar beita kröftum sín- um til að bæta fyrir fyrri gerðir sínar og styrkja erlendis markaði okkar fyrir afurðir úr sjó, ef við hættum hvalveiðum um sinn? Auðvitað væri fáranlegt að ljúka ekki þeirri áætlun sem unnið er eftir, svo lítið sem á vantar. Sam- komulag yrði að byggjast á því, að henni verði lokið og að vel verði staðið að talningu hvala næsta sumar. Síðan yrði hætt undan- bragðalaust og beðið eftir úrskurði Alþjóðahvalveiðiráðs. Og þessu fylgdi siðan samvinna, sameiginlegt átak til að vernda lífríki Atlantshafs, einkum kring- um ísland. Ræða Einars Þveræings En gangi ekki saman, væri stuðn- ingsmönnum hins útlenda hers, grænfriðunga, hollt að minnast Einars Þveræings og íhuga, fyrir hvað hann skipar-þann sess í sög- unni sem raun er á. Vænti ég, að sumir þessara vildu teljast til fylg- ismanna hans og lærisveina og myndu óska sér að eiga sess á sama bás í sögu þjóðarinnar, en ekki með þeim manni, sem ferlegustum fótum trað þetta land. Guðjón Jónsson. E.S. Þessi grein var afhent Morg- unblaðinu til birtingar 23. febrúar. Síðan hefur það gerst, að formæl- endur grænfriðunga hafa staðfest opinberlega, að markmið þeirra séu þau sem í greininni segir, að stjórna fiskveiðum í heiminum, - sem þýðir að stöðva þær. Aðrir formælendur hópsins hafa borið þetta til baka, en það sýnir einungis að þeir gera sér grein fyrir, að ekki sé klókt að viðurkenna þessi mark- mið nú þegar, meðan veslings ís- lendingarnir reyna enn að verjast og tryggja lífsbjörg sína,-þ.e. þeir sem ekki hafa þegar gugnað eða gengið á mála hjá hryðjuverka- mönnum. Þá liggur fyrir að Morgunblaðið neitar að birta þessa grein fyrr en kannski - kannski að enn nokkrum vikum liðnum, jafnframt því sem a.m.k. sumir stjórnenda þess hafa stutt sjónarmið grænfriðunga. Það er að vísu minnkandi ástæða til að birta greinina vegna batnandi um- fjöllunar um þetta mál, en hún er Tímanum heimil ef hann vill. 14. mars 1989. G.J.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.