Morgunblaðið - 19.12.2007, Blaðsíða 39

Morgunblaðið - 19.12.2007, Blaðsíða 39
sinni austur í Vaðlavík. Árin liðu og alltaf var samband milli fjölskyld- anna á Melaheiðinni og í Svigna- skarði. Það var svo árið 1979 sem ég var orðinn fjölskyldumeðlimur á Mela- heiðinni. Oddný dró sveitastrákinn á mölina og flutti hann inn á heimili foreldra sinna. Jón og Sigrún tóku mér strax opnum örmum og þar bjuggum við þar til við eignuðumst okkar fyrstu íbúð. Það má segja að Jón hafi tekið við uppeldinu á mér þegar hann tók mig í vinnu og á samning í járnsmíði. Þar var gott að læra hjá manni eins og Jóni sem kunni ráð við öllu og lagði mikla áherslu á að allir hlutir væru sterk- byggðir og traustir. Alltaf sá Jón leið til að laga hluti sem komu illa brotnir og laskaðir í hans hendur. Áhugi Jóns fyrir þeim verkefnum sem hann var að vinna að hverju sinni var aðdáunarverður og það voru mörg snúin og erfið verkefni hreinlega leyst við eldhúsborðið á Melaheið- inni. Þar voru hlutir teiknaðir á blað, málsettir og hugsað fyrir öllu og næsta morgun var allt klárt, bara eftir að smíða stykkið. Vaðlavíkin átti sterk ítök í huga Jóns, þangað fórum við nokkrum sinnum saman og það leyndi sér ekki hvað honum þótti vænt um sveitina sína, þar var veiðin mest og veðrið best. Það var Jóni mikið gleðiefni þegar Bergur og Birna keyptu Eskiholt og fóru að búa, og síðar þegar við Oddný eign- uðumst Heyholtið. Í Heyholti leið Jóni vel og átti hann nokkrar helgar þar í sumar þar sem hann gat setið úti á palli í veðri sem var jafnvel eins gott og í víkinni og horft á hrossin, álftirnar á Aranesinu og eins blasti Eskiholt og Klapparholt við af pall- inum. Jón var mikill áhugamaður um hesta og átti nokkur mjög góð hross, Þota var hans uppáhald og hans að- alreiðhross um tíma. Þota átti eftir að gefa Jóni jafnvel meiri ánægju með afkvæmum sínum, en þar standa Maístjarna, Þjótandi, Mökk- ur og Lýsingur fremst í flokki. Það var fátt sem Jón var stoltari af en góður árangur þessara hrossa á kyn- bóta- og keppnisvelli. Þetta eru aðeins fáein minninga- brot um ósérhlífinn og jákvæðan vinnuþjark sem ég er þakklátur fyrir að hafa átt samleið með síðastliðin 30 ár. Blessuð sé minning Jóns Bergs- sonar Guðmundur Skúlason. Með örfáum orðum langar okkur að kveðja góðan fjölskylduvin, Jón Bergsson. Við fjölskyldan í Svigna- skarði kynntumst Jóni fyrst fyrir um 30 árum og sú vinátta hefur verið óslitin og vaxandi síðan. Jón var traustur vinur, ætíð boð- inn og búinn að hjálpa til og laginn var hann við vélarnar og allt sem að þeim laut það vita allir sem hann þekktu. Það var ekki ósjaldan sem hann bjargaði málum í heyskapnum og lagfærði vélar. Hann hafði líka áhuga á hestum og átti góða hryssu sem gekk í okkar högum og hann var duglegur að koma og huga að henni og spennan var mikil á vorin þegar folöld voru að fæðast og einnig þegar verið var að byrja að temja trippin hennar Þotu. Þótt Jón væri tíður gestur í Borg- arfirðinum þá var annar staður á landinu sem hann unni mjög; æsku- slóðirnar í Vaðlavík. Þangað reyndi hann að fara á hverju sumri og kom endurnærður til baka. Ekki var verra ef ferðin þangað var það seint á sumri að hægt var að komast í berjamó. Þá var mikið tínt. Elsku Sigrún, Rúnar, Bergur, Oddný, Tóti og fjölskyldur, megi góður guð styrkja ykkur í sorginni. Svo er því farið: Sá er eftir lifir deyr þeim sem deyr en hinn dáni lifir í hjarta og minni manna er hans sakna. Þeir eru himnarnir honum yfir. (Hannes Pétursson.) Rósa og Sigríður frá Svignaskarði. MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 19. DESEMBER 2007 39 ✝ Rósa Hjaltadótt-ir fæddist á Ak- ureyri 21. febrúar 1923. Hún lést á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 12. desember síðastlið- inn. Hún var dóttir hjónanna Önnu Jón- atansdóttur hús- móður, f. 6. ág. 1899, d. 12. febr. 1937, og Hjalta Sig- urðssonar hús- gagnasmíðameist- ara, f. 22. mars 1891, d. 3. okt. 1979. Systkini Rósu eru Karl, f. 1921, d. 2000, Sigurður Reynir, f. 1925, d. 1982, Anna, f. 1932, d. 1995, Hjalti, f. 1935, og Guðrún (samfeðra), f. 1938. 21. júní 1947 giftist Rósa Huga Kristinssyni verslunarmanni, f. 24. júní 1924. Hann er sonur hjónanna Kristins Jónssonar bónda, f. 31. júlí 1880, d. 31. jan. 1954, og Guðrúnar Guðmunds- dóttur húsfreyju, f. 23. febr. 1887, d. 21. okt. 1956. Börn þeirra eru: 1) Anna Guðrún námsráðgjafi í FG, f. 20. okt. 1947, gift Guð- mundi Hallgrímssyni lyfjafræð- ingi, f. 9. ág. 1939, börn þeirra eru Vera, f. 1968, Daði, f. 1970, Hugi, f. 1977, og Alma, f. 1984. 2) Hjalti prófessor við HÍ, f. 4. febr. 1952, kvæntur Ragnheiði Sverrisdóttur djákna og sviðsstjóra á Bisk- upsstofu, f. 19. jan. 1954, börn þeirra eru Hugrún, f. 1976, og Markús, f. 1982. 3) Kristinn stjórnsýslufræð- ingur í sjáv- arútvegsráðun., f. 8. des. 1958, kvæntur Guðlaugu Hreins- dóttur verk- efnastjóra hjá SFR, f. 8. sept. 1960, dótt- ir þeirra er Rósa, f. 1993, stjúpbörn Kristins, börn Guð- laugar, eru Hjalti Hreinn, f. 1980, Ásta María, f. 1983, og Sigrún Marta, f. 1985, Sigmarsbörn. Langömmubörn Rósu eru 6, eitt þeirra er látið. Rósa lauk venjubundinni skóla- göngu og námi frá Húsmæðra- skólanum á Akureyri. Hún nam um tíma klæðasaum í Reykjavík en bjó eftir það alla tíð á Ak- ureyri. Hún var lengst af hús- móðir en vann á seinni árum í versluninni Markaðinum og mat- vöruverslun Kaupfélags Eyfirð- inga í Hrísalundi. Rósa var mikil hannyrðakona og starfaði í kven- félaginu Baldursbrá. Garðyrkja var henni mikið hjartansmál og fékk hún viðurkenningu Garð- yrkjufélags Akureyrar 1985 fyrir garðinn við heimili sitt, Kletta- gerði 2. Rósa verður jarðsungin frá Ak- ureyrarkirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 13.30. Ég kynntist Rósu tengdamóður minni fyrir hartnær 44 árum. Þá tíðk- aðist að eiginkonur með börn væru eingöngu heimavinnandi og ásamt heimilisstörfum sinntu þær mikil- vægu hlutverki við uppeldi barnanna. Það leyndi sér ekki að Rósa hafði fengið menntun á húsmæðraskóla, hreinlæti var í hávegum haft og hann- yrðir prýddu veggi, sófa, borð og gólf. Rósa var einnig frábærlega flink að sauma föt á börnin. Heimilisbragur einkenndist af ljúfmennsku og mikilli gestrisni sem Rósa hafði forystu um þar sem Hugi var oft að heiman vegna vinnu sinnar. Það þurfti mikla útsjón- arsemi og nægjusemi til að reka heimili þar sem aðeins annar aðilinn aflaði tekna, en það voru mikil forrétt- indi að alast upp á slíku heimili, enda eignuðust þau hjónin þrjú einstaklega efnileg börn sem Rósa var ætíð stolt af. Það urðu nokkur kaflaskipti í lífi þeirra þegar þau eignuðust hlut í bíl og gátu leyft sér að fara í stutt ferða- lög, en slíkur munaður eins og að taka sér sumarfrí, hafði ekki tíðkast í þeirra búskap. Um svipað leyti fór Rósa að vinna úti og þótti alls staðar sem hún vann vera fljót að tileinka sér margvísleg störf og naut mikils trausts. Tengdafaðir minn var orðinn verkstjóri í timburafgreiðslu KEA og rak hestarækt í frístundum með dyggum stuðningi Rósu. Við þetta vænkaðist hagur þeirra svo að þau réðust í að reisa sér myndarlegt ein- býlishús með fögrum garði sem Rósa átti mestan heiðurinn af. Í nýja hús- inu í Klettagerði ríkti sami myndar- bragur og áður um allt heimilishald. Það var alltaf hátíð að koma í heim- sókn og barnabörnin nutu þess að dvelja hjá þeim, stundum um lengri tíma. Minningar frá þessum dögum hrannast upp og það er eins og það hafi alltaf verið sólskin þegar við vor- um í heimsókn. Barnabörnin bundust Rósu sterkum böndum og elskuðu hana og þótt þau sakni hennar sárt geyma þau minningar um ömmu sem var í senn sterkur persónuleiki og af- ar umhyggjusöm, svo þeim fannst jafnvel stundum um of. En lífið er ekki alltaf dans á rósum jafnvel þótt menn beri nafn þeirrar fögru jurtar. Afar sjaldgæfur hrörnunar augn- sjúkdómur greindist hjá Rósu á besta aldri. Þessi sjúkdómur leiddi smám saman til þess að hún varð blind. Þeg- ar Rósa virtist sjá fram á tækifæri til að geta sinnt áhugamálum sínum að rækta garðinn, sinna margvíslegum hannyrðum, fara í ferðalög og heim- sækja börnin og barnabörnin, sem flutt voru suður til Reykjavíkur, byrj- aði þessi sjúkdómur að herja á hana. Það er vart hægt að setja sig í spor manneskju sem á fullan þrótt og lífs- löngun að þurfa að horfast í augu við það að missa sjónina. Þetta var hlut- skipti Rósu og hún bar það oftast í hljóði, en vissulega komu þær stundir að hún tjáði mér og öðrum harm sinn, en endaði svo tal sitt með því að rekja hvað hún væri lánsöm að eiga góð börn og barnabörn. Í dag kveð ég kæra tengdamóður og vin og get leyft mér að segja að það bar aldrei skugga á okkar samband. Hún sýndi mér alltaf einstaka hlýju og traust og þannig mun minning hennar lifa með mér. Þótt blindu aug- unum hennar Rósu hafi verið lokið aftur trúi ég því að hún sé komin þangað sem hún sér birtu sem ekki er í mannlegu valdi að lýsa. Guð blessi minningu þína, kæra tengdamamma. Guðmundur Hallgrímsson. Rósu tengdamömmu hitti ég fyrst við skondnar aðstæður. Ég tók eig- inlega á móti henni á hennar eigin heimili. Hún var að koma utan af flug- vellinum á Akureyri ásamt Huga til að ná í Hjalta en fluginu hafð seinkað. Ég var hins vegar komin og beið hans á heimilinu og var því þar þegar Rósa og Hugi komu heim. Þau sáu ferða- töskuna mína í forstofunni og Rósa sá að nafn eigandans byrjaði á R og hrópaði því Rósa! Hún hélt að Rósa frænka hennar væri komin í heim- sókn. Hún varð hissa þegar einhver ókunnug manneskja tók á móti henni sem sagðist vera að heimsækja son- inn sem ekki var enn kominn að sunn- an í páskafrí. Síðan þá hafa leiðir okk- ar legið saman. Það var líkt Rósu að bregðast skjótt við því hún var hvatvís mann- eskja og lét ekki bíða eftir sér. Hún var snögg í hreyfingum og fljót að hugsa og mjög skipulögð. Ekki vant- aði dugnaðinn. Mér er það minnis- stætt þegar hún var alveg að verða tilbúin með matinn á slaginu 12 að hún rauk út í garð til að gera eitthvað mikilvægt en sagði svo gjörið svo vel og við settumst að borðum. Rósa hafði áhuga á að mennta sig en að- stæður leyfðu það ekki þegar hún var ung. Hún var leið yfir því en setti því meiri metnað í að börn hennar gengju menntaveginn. Hún fór í húsmæðra- skóla og mótaðist mikið af skólahald- inu sem t.d. kom fram í myndarskap við sauma, matargerð og annað sem snerti rekstur heimilis. Í lífi sínu upplifði Rósa bæði gleði og sorg. Það var bjart yfir minningum frá unglingsárunum með Stínu vin- konu og hjólaferðum yfir Vaðlaheiði til að komast í Vaglaskóg. Þær fóru mikið í bíó saman en voru smeykar við hermennina sem einnig fóru mikið í bíó. En sorgin barði snemma upp á. Móðir hennar, Anna, dó þegar hún var aðeins 14 ára eftir langvarandi veikindi. Það var stóra áfallið í lífinu sem mótaði hana upp frá því. Hún var elsta dóttirin og tók mikla ábyrgð á systkinum sínum og sleppti í raun aldrei þeirri ábyrgð. En gleðin vitjaði hennar aftur og hún og Hugi stofnuðu heimili. Þau voru mjög ólík en stóðu saman í blíðu og stríðu. Það var sárt að upplifa afleiðingar ólæknandi augnsjúkdóms sem gerði hana næstum alveg blinda í lokin. Það var erfitt fyrir þessa kraftakonu að þurfa að sitja með hendur í skauti. Hún gerði sitt besta þrátt fyrir það, t.d. prjónaði teppi og dásamlegar borðtuskur. Það bjargaði henni að geta hlustað á hljóðbækur sem Blindrafélagðið sendi henni. Þannig las hún mikið af bókmenntum en hún hafði alltaf haft áhuga á þeim. Ég vil þakka Rósu fyrir góða sam- fylgd, mikla tryggð og samstöðu. Hún og Hugi hafa reynst mér góðir tengdaforeldrar. Blessuð sé minning hennar. Ragnheiður Sverrisdóttir. Þegar pabbi hringdi í mig með fréttirnar af andláti ömmu fannst mér ég eitthvað svo lánsöm að hafa getað eytt svona miklum tíma með henni á síðustu tveimur árum. En fyrir tveim árum síðan bauðst mér vinna á Ak- ureyri en það var í fyrsta skiptið sem ég hef búið í nálægð við ömmu og afa. Ég fór strax að venja komur mínar í Klettagerðið og svo líka á Hlíð eftir að amma flutti þangað. Þrátt fyrir að mörg ár voru liðin frá því að ég hafði eytt svona miklum tíma með ömmu og við báðar breyst töluvert, þá náð- um við enn jafn vel saman og það var alltaf hægt að fá ömmu til að hlæja. Við rifjuðum upp saman hluti sem við vorum að bralla á yngri árum. Hvað það var gaman að valhoppa saman út í búð, með armana krækta saman, eins hratt og við gátum. Ég sagði henni frá því hvað hún gat verið erfið og ná- kvæm við okkur barnabörnin. Því ekki sá hún það sem við vildum að hún sæi en hún sá alltaf illgresið í garð- inum sem var einhvers staðar á bak við þar sem við héldum að við kæm- umst upp með að skilja það eftir. Einu sinni þegar við Hugi frændi vorum í heimsókn hjá ömmu og afa ákváðum við að útbúa kaffið alveg sjálf. Eftir miklar vangaveltur var ákveðið að það ætti að vera heitt kakó með kaffinu og við fundum uppskrift að lúxus kakói. Við vönduðum okkur mikið við að lesa uppskriftina og finna allt til í hana, því þetta átti að vera svo gott. Þegar komið var að því að smakka kakóið þá var það barasta það versta sem við höfðum nokkurn tíman smakkað. Alveg í niðurbrotin náðum við í ömmu og sögðum henni hvað hafði gerst. Hún smakkar kakó- ið og skellir svo upp úr. Hún hló og hló. Hún varð að setjast niður og þurrka tárin áður en hún gat sagt okkur hvað var að. Villan var mjög einföld, við höfðum gleymt að setja sykurinn út í. Núna þegar ég hugsa til baka og minnist ömmu þá er þetta ein af þeim stundum sem mig langar að lifa aftur, að heyra þennan hlátur einu sinni enn. Nú eru þrír mánuðir síðan ég hætti að vinna á Akureyri. Þegar ég fór að heimsækja ömmu í síðasta skiptið áð- ur en ég fór alveg suður aftur var hún mjög þreytt og ég stoppaði stutt. Ég fann að þetta gæti verið í síðasta skiptið sem við hittumst og ég er ekki frá því að hún hafi hugsað það sama. Kveðjustundin var því sérstök og innileg. Núna þegar það er ljóst að ég kemst ekki norður til að kveðja hana í síðasta sinn er ég mjög glöð að hafa átt þessa stund með henni. Hugrún R. Hjaltadóttir. Núna þegar amma er á himnum hefur hún öðlast sjónina á ný en um margra ára skeið var hún blind. Ég og amma vorum alltaf mjög nánar og góðar vinkonur, kannski var það út af nafninu, hver veit. Ég var skírð eftir ömmu minni og hef verið og verð alltaf mjög stolt af því. Mér fannst ekkert skemmtilegra en að hlusta á ömmu segja mér sögur, enda var hún endalaus uppspretta sagna og sagði þær á þann hátt að maður lifði sig algjörlega inn í þær. Ég hlust- aði alltaf á hljóðspólur þegar ég var yngri og amma átti það til að taka upp sögur á kassettur og senda mér. Ég á þessar kassettur ennþá og þykir kannski vænna um þær núna en nokkru sinni. Núna í sumar meðan ég var á Akureyri fór ég að heimsækja hana á hverjum degi og við sátum lengi saman og töluðum um lífið og til- veruna. Ég verð alltaf ákaflega þakk- lát fyrir að hafa átt þetta síðasta sum- ar með ömmu, ég varðveiti allar stundir okkar saman í hjartanu og þeim mun ég aldrei gleyma. Hvíldu í friði elsku amma mín. Rósa Kristinsdóttir (Rósa litla). Um daginn spurði átta ára dóttir mín mig að því hvort ég myndi heldur vilja sjá fram í framtíðina eða fá að upplifa eitthvað úr fortíðinni. Ég var smástund að átta mig á spurningunni en svo kom svarið eins og alveg af sjálfu sér, ég vildi helst af öllu fá að upplifa stundir bernskunnar hjá ömmu og afa á Akureyri og helst fá að taka börnin mín með mér og sýna þeim allt sem ég hafði lært og upp- lifað. Mig langaði að taka þau með mér út að spássera með Rósu ömmu, leyfa þeim að liggja með mér á sól- bekknum inni í herbergi hjá ömmu og afa og hlusta á sögurnar um Gilitrutt og Hlina kóngsson, hlusta á ömmu segja sögur af sér og Stínu í gamla- daga og hlæja hástöfum, leyfa dætr- um mínum að máta kisukápuna sem amma saumaði á mig, leyfa þeim að skoða með mér töfralampann sem amma bjó til uppi á lofti, fara í Mark- aðinn á Akureyri og heimsækja þar báðar ömmurnar, fara í Hrísalund til ömmu og fá að koma með á bakvið þar sem bara starfsfólkið mátti koma, leyfa þeim að hlusta með mér á plöt- urnar með Ómari Ragnarssyni í stof- unni aftur og aftur og fá notalegt kvöldkaffi fyrir svefninn eftir að hafa háttað og þvegið okkur vel bak við eyrun. Þetta eru allt stundir sem mig langar til að upplifa aftur og aftur og vildi óska að þau gætu upplifað með mér. Amma var sannarlega Amma með stóru A. Ég er ótrúlega rík að hafa átt ömmu eins og Rósu ömmu og sakna ég hennar meira en orð fá lýst en það er líka gott að vita að nú líður henni vel. Minning hennar lifir í hjarta mér og er mér sannarlega gott veganesti út í lífið. Elsku afi, mamma, Hjalti og Kiddi og aðrir ættingjar og vinir, Guð gefi okkur öllum styrk og blessi minn- ingar okkar um ömmu Rósu. Vera. Rósa Hjaltadóttir ✝ Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, GÍSLÍNA MARGRÉT SÖRENSEN frá Eylandi, lést laugardaginn 15. desember. Jarðarförin fer fram frá Akureyjarkirkju, Vestur- Landeyjum, laugardaginn 22. desember kl. 11.00. Þórunn Ólafsdóttir, Ragna Ólafsdóttir, Einar Benediktsson, Árni Ólafsson, Ester Markúsdóttir, Jón Ólafsson, barnabörn og barnabarnabörn.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.