Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.06.2003, Blaðsíða 23

Neytendablaðið - 01.06.2003, Blaðsíða 23
umhverfisvænt prentverk m, W Fyrsta tölublað Neytendablaðsins á þessu ári markaði tímamót í sögu þess því að það var prentað hjá GuðjónÓ, fyrstu og einu prentsmiðjunni á íslandi sem hefur staðist kröfur norræna um- hverfismerkisins Svansins um prentverk. Neytendasamtökin hafa stuðlað að framgangi Svansins frá því að merkið var fyrst kynnt til sögunnar árið 1989 og það er vel við hæfi að hann prýði málgagn samtakanna á 50 ára afmæli þeirra. Það er líka stefna Neytendasam- takanna að hvetja framleiðendur til að framleiða og selja vörur í sem mestri sátt við umhverfið. Af þessu tilefni ræddi Neytendablaðið við Ólaf Stolzenwald forsvarsmann GuðjónÓ prentsmiðju og starfsmann Umhverfismerkjaráðs ís- lands, Sigrúnu Guðmundsdóttur. Þegar Svanurinn var settur á laggirnar á sínum tíma var það yfirlýst markmið Norrænu ráðherranefndarinnar að stuðla að sjálfbærri þróun og þá helst með því að örva neyslu almennings á umhverfis- vænum vörum og hvetja þar með til aukinnar framleiðslu á slíkum vörum. „Það getur verið ansi snúið að finna um- hverfisvænar vörur hjálparlaust," segir Sigrún. „Innihaldslýsingin á sjampóinu eða þvottaefninu sýnir okkur að ekki er um einfalt mál að ræða. Fæst okkar vita nóg um þessi efni til að við áttum okkur á þýðingu þeirra fyrir umhverfið, en norræna umhverfismerkið Svanurinn einfaldar þetta stórlega. Ef Svanurinn er á vörunni getum við sleppt öllum frekari pælingum og verið örugg um að kaupa umhverfisvæna gæðavöru, því þeir einir fá að merkja vörur sínar með Svaninum sem hefur tekist að uppfylla strangar kröf- ur um umhverfisálag vörunnar, sem og gæðakröfur - því léleg vara getur aldrei orðið umhverfisvæn," segir Sigrún. Svanurinn nýtist framleiðendum ekki Ólafur Stolzenwald forstöðumaður prentsmiðjunnar GuðjónÓ og Sigrún Guðmundsdóttir starfsmaður Umhverfismerkjaráðs íslands. síður en neytendum, þar sem þeir geta sýnt fram á það með óyggjandi hætti að þeir standist strangar kröfur um um- hverfisálag. Einnig er gert ráð fyrir því að framleiðendur hafi fjárhagslegan ávinning af merkinu, því með vaxandi meðvitund hins almenna neytanda eykst eftirspurn eftir umhverfisvænni framleiðslu og þá hafa svansmerktu vörurnar ákveðið forskot á aðrar. Ólafur Stolzenwald segir prentsmiðju GuðjónÓ þurfa að uppfylla margvís- legar og strangar kröfur til að fá að nota Svaninn á sína framleiðslu. „Þær ná yfir svo að segja allan feril vörunnar, allt frá hráefnum til förgunar. Pappírinn sem við notum verður að standast kröfur frá Norræna umhverfismerkinu, sem og litir, lökk, hreinsiefni o.s.frv. Við þurfum líka að sýna fram á að losun á silfri út í skólp- kerfið sé í lágmarki, meðhöndlun á sorpi sé rétt og margt fleira." Það er |dví í mörg horn að líta, en kostirnir við að uppfylla allar þessar kröfur eru líka margir og ótvíræðir. Þannig segir Ólafur til dæmis að starfsumhverfi hafi batnað til muna frá því sem áður var eftir að hætt var að nota sterk efni við þrif á prentvélum prentsmiðjunnar. „Núna notumst við eingöngu við jurtaolíu og vatn á flestar vélar en aðeins sterkari efni í lokuðu kerfi á stærstu prentvélina. Aður notuðum við einar tíu tegundir af sterkum efnum, þannig að hér hefur orðið stór breyting á." Það liggur í eðli prentiðnaðarins að mikið fellur til af sorpi við framleiðsluna og Ólafur segir flokkun þess, eyðingu og endurvinnslu stóran þátt í umhverfis- starfi prentsmiðjunnar. Um 30 tonn af slíku falla til á ári hverju. „Þetta er aðallega pappír, umbúðir og bylgjupappi, auk ýmissa spilliefna," segir Ólafur, „og þetta er allt flokkað og því skilað til viðurkenndra aðila. Sorp er því í algjöru lágmarki frá okkur en við getum gert enn betur hvað lífræn efni varðar. Flagur okkar og umhverfisins vænkast enn þegar endurvinnslustöðvarnar fara að endurvinna plastefni ýmiss konar og rafmagnstæki." Fyrsta skrefið í að draga úr sorpmagni, segir Ólafur, er hins vegar að koma í veg fyrir að það verði til, og það gerist með betri nýtingu á pappírn- um. „Nýtingin hefur batnað mikið hjá okkur og við teljum vitund um betri pappírsnýtingu hafa aukist hjá starfs- mönnum prentsmiðjunnar. Útbúið var sérstakt forrit sem reiknar út pappírsúr- kast og hvort merkja megi vöruna með Svaninum, en skilyrði norræna umhverfis- merkisins kveða á um að afskurður af örkinni megi ekki vera meiri en 20%o. Við höfum einnig reynt að benda viðskiptamönnum okkar á hvað betur má fara við hönnun prentgripa og nýtingu hráefna. Oft er þetta millimetraspursmál og kostnaður fer niður um leið og nýtingin batnar." Sem fyrr segir er miðað við að framleiðendur njóti góðs af Svaninum ekki síður en neytendur og Ólafur er ekki frá því að fjárhagslegur ávinningur af þessari sérstöðu prentsmiðjunnar á íslenskum markaði sé nokkur, auk ávinningsins fyrir umhverfið. „Við finn- um fyrir mikilli svörun frá markaðnum og fjölmargir viðskiptavinir okkar vilja umhverfismerkið á sína prentgripi. Menn sjá margfeldisáhrifin af því að velja um- hverfismerkta vöru, og það sést líka vel á okkar litla fyrirtæki hvað hægt er að gera til minnka álag á umhverfið." NEYTENDABLAÐIÐ 2. TBL. 2003 23

x

Neytendablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.