Litli Bergþór - 01.08.2015, Blaðsíða 11

Litli Bergþór - 01.08.2015, Blaðsíða 11
Litli-Bergþór 11 Í byrjun mars í fyrra leigði félagið sumarbústað á Búrfelli í Grímsnesi. Gistu þar nokkrar konur frá föstudegi til sunnudags og fleiri bættust við á laugardeginum og voru um 18 konur í kvöldverði þá um kvöldið. Aðalfundur Sambands sunnlenskra kvenna var haldinn 26. apríl 2014 í Gunnarshólma og fóru fulltrúar okkar, þær Oddný á Brautarhóli, Sirrí á Vatnsleysu og Sigga Jóna í Hrosshaga á hann. Var fjölmennt úr Tungunum þar sem Bryndís á Helgastöðum mætti sem fulltrúi í fjáröflunarnefnd og þau tíðindi urðu að Elinborg Sigurðardóttir á Iðu var kosin formaður sambandsins á fundinum og erum við ákaflega stoltar af okkar konu. Auk þeirra var Una María Óskarsdóttir forseti KÍ gestur fundarins. Hún á sumarbústað uppi í Úthlíð og er hún einnig félagi í Kvenfélagi Biskupstungna. Í ár var SSK fundurinn haldinn í Þorlákshöfn og fóru Svava í Höfða, Sigga Jóna í Hrosshaga og Sirrí á Vatnsleysu á hann. Það er alltaf gaman að fara á SSK fundi þar sem maður hittir og kynnist konum alls staðar að af Suðurlandi. Vorfundurinn 2014 var haldinn í Efsta-Dal og var hann jafnframt hátíðarfundur þar sem félagið átti 85 ára afmæli á árinu. Var öllum konum í sveitinni boðið þangað í mat og skemmtun þar sem leiklesinn var gamall leikþáttur sem saminn var og sýndur á 50 ára afmæli félagsins. Einnig fengum við leikkonuna Björku Jakobsdóttur til að koma og skemmta okkur við þetta tækifæri. Í ár var fundurinn haldinn í veitingahúsinu Við Faxa, sá var ekki eins viðhafnarmikill enda ekki afmælisár í ár. Við tókum aftur þátt í viðburðinum Tvær úr Tungunum með sumarmarkaðinn okkar sem var haldinn þann 16. ágúst 2014 og gekk hann mjög vel enda selt þar klassakaffi og við fengum ágætis veður þennan dag. Var leikurinn endurtekinn í ár þann 15. ágúst og tókst vel. 19. júní ferðin 2014 sem er skemmtiferð félagskvenna sem félagið hefur boðið þeim í til að sýna þeim þakklæti fyrir vinnuframlag þeirra, frestaðist af óviðráðanlegum orsökum. Var komið að haustdögum þegar farið var að huga að henni. Þá var komið svo nálægt því að fara með eldri borgarana í ferðalag að úr varð að við færum öll saman. Körlunum okkar var boðið með og ferðin gerð veglegri en venjulega í tilefni 85 ára afmælis félagsins. Sáu varakonur í stjórn um ferðalagið, þær Sigurlaug Jónsdóttir og Agnes Geirdal. Farið var til Grindavíkur í rútu þar sem við fengum leiðsögn afbragðs leiðsögumanns, heimsóttum Saltfisksetrið, drukkum kaffi og skoðuðum plássið. Veðrið var mjög fallegt þennan dag og enduðum við hann með því að borða saman kvöldverð á Hótel Selfossi og var það mál manna að það hefði verið einstaklega skemmtilegt að steypa þessum tveim ferðum svona saman og að gaman væri líka að bjóða mökunum með, enda var þáttaka góð í ferðinni. Verður þessi háttur hafður á aftur í ár og verður vonandi jafn gaman og í fyrra. Engin réttarsala var haldin í fyrra af hálfu félagsins enda ábúendur á Heiði búnir að reisa veitingahús við réttirnar og því eðlilegt að hún væri í þeirra höndum og verður svo áfram í haust. Laganefnd yfirfór lög félagsins og gerði tillögur að nýjum lögum og voru þær lagðar fyrir haustfund félagsins sem haldinn var í Aratungu 26. október 2014 og síðan samþykktar á aðalfundi í mars síðastliðnum. Félagið kom að englaverkefni SSK á árinu og var það Margrét Baldursdóttir á Króki sem gerði um helming glerenglanna sem seldir voru fyrir jólin. Samið var við Bláskógaskóla í Reykholti um samvinnu um jólatrésskemmtun fyrir börn í sveitinni og var óskað eftir að foreldrar og systkini skólabarna ættu þá greiðan aðgang að skemmtuninni og var það auðsótt mál. Var skemmtunin haldin fimmtudaginn 19. desember og gekk vel og var gríðarleg stemming og fjör á ballinu.. Fyrir hönd stjórnar þakka ég öllum þeim sem lögðu fram krafta sína á síðasta ári (2014) kærlega fyrir framlagið og öllum þeim sem eru að vinna félaginu vel í ár sömuleiðis og vona að við skemmtum okkur vel við þá vinnu eins og ævinlega. Öllu utanfélagsfólki sem styður okkur með ráðum og dáð færi ég sérstakar þakkir. Það er ómetanlegt að eiga góðan stuðning í samfélaginu. Borðhald í sumarbústaði í landi Búrfells í Grímsnesi 1. mars 2014. F.v.: Oddný, Sigurlaug, Bryndís, Inga Þyri, Sigga Jóna, Sigrún, Agnes, Svava, Margrét og Sirrý.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.