Litli Bergþór - 01.08.2015, Blaðsíða 26

Litli Bergþór - 01.08.2015, Blaðsíða 26
26 Litli-Bergþór Logafréttir Samantekt: Einar Á. E. Sæmundsen Starfsár hestamannafélagsins Loga árið 2014 var með nokkuð hefðbundnu sniði. Aðalfundur Loga var haldinn í apríl og var nokkur breyting á stjórn samkvæmt reglum félagsins. Guðrún S. Magnúsdóttir hætti sem formaður og einnig hættu Sigurlína Kristinsdóttir og Rúnar B. Guðmundsson í stjórn. Eru þeirra störf þökkuð. Í stað þeirra voru Einar Á. E. Sæmundsen kjörinn formaður og Sólon Morthens, Líney Kristinsdóttir og Marta Margeirsdóttir komu ný inn í stjórn en Hólmfríður Ingólfssdóttir hélt áfram sínu góða starfi sem gjaldkeri Loga. Árið 2014 hófst með hinni vinsælu álfareið í Reykholti á þrettándanum þar sem yngsta kynslóðin reið frá sundlauginni að Friðheimum. Tveir knapar fóru fyrir skrúðgöngunni og er þetta góð og skemmtileg venja. Reiðhöllin á Flúðum er vel nýtt yfir vetrartímann og hefur uppsveitadeildin unnið sér þar fastan sess. Mótin voru þrjú síðasta vetur og keppt einu sinni í mánuði. Deildinni hefur tekist að vekja á jákvæðan hátt athygli á hestamennsku í uppsveitunum og náð vinsældum, fyrir utan að afla reiðhöllinni nauðsynlegra tekna til að styðja við reksturinn. Æskulýðsnefnd Loga ásamt félögum í Smára og Trausta stóð einnig í ströngu við að halda úti Uppsveitadeild æskunnar ásamt öðrum uppákomum og eiga hrós skilið. Uppsveitadeild æskunnar hefur orðið mikilvægur vettvangur fyrir yngri kynslóðina þar sem hún fær athygli, hvatningu og kennslu í reiðmennsku um leið og keppt er til verðlauna. Æskulýðsdeildir Loga, Smára og Trausta stóðu að skemmtiferð í Fákasel í apríl. Um 40 manns lögðu leið sína með rútu í Ölfusið þar sem sýnd voru hesthús, aðstaðan og leiksviðið sjálft. Vetrarmót Loga og Trausta voru á sínum stað og gengu ágætlega nema að síðasta mótið var flutt inn í Reiðhöllina á Flúðum vegna veðurs og aðstæðna í Hrísholti. Miðvikudaginn fyrir páska var sameiginlegt töltmót Loga, Trausta og Smára endurlífgað í reiðhöllinni og gekk það vel. Það gekk misvel með námskeið ársins en leikjanámskeið var haldið í Reiðhöllinni síðla vetrar sem var vel sótt. Þar var riðið um að hætti kúreka og indíána og leikið sér. Mjög skemmtilegt námskeið sem dró ýmsa aðra á námskeið sem ekki höfðu komið áður. Sólon Morthens hélt námskeið fyrir eldri krakka sem voru í keppnishugleiðingum. Námskeiðið var einstaklingsmiðað fyrir þá krakka sem vildu byggja upp keppnishest og ætluðu sér að taka þátt í keppni á árinu. Kennt var í Flúðahöllinni og að Kjóastöðum, en þar voru Gunnar og Þóra svo rausnarleg að bjóða fram reiðhöllina sína. Ekki reyndist nægileg þátttaka í hinu hefðbundna reiðnámskeiði sem haldið er í Hrísholti. Líkleg skýring er að fullseint var farið af stað að kynna það og auglýsa og er það sök stjórnar að einhverju leyti. Í byrjun júní var velheppnaður fyrirlestur í samstarfi við hestamannafélagið Smára þar sem farið var yfir gæðingakeppni, reglur og áherslur ásamt því að rifjuð var upp saga keppninnar. Fyrirlesarar voru Sindri Sigurðsson og Ingibergur Árnason. Árið 2014 var landsmótsár og því var að venju haldin úrtaka Geysis, Smára, Loga og Trausta að Gaddstaðaflötum. Þá varð ljóst hverjir urðu fulltrúar Loga á Landsmótinu sem hófst í lok júní. Fulltrúar Loga á Landmótinu 2014 voru: Barnaflokkur Sölvi Freyr Freydísarson og Glaður frá Kjarnholtum 1 Rósa Kristín Jóhannesdóttir og Frigg frá Hamraendum Sólon Morthens og Jón Óskar Jóhannesson.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.