Litli Bergþór - 01.08.2015, Blaðsíða 13

Litli Bergþór - 01.08.2015, Blaðsíða 13
Litli-Bergþór 13 Samantekt: Kristófer Tómasson Geysir hefur starfað með ágætis þreki síðustu misserin. Segja má að nokkuð fastar skorður séu í verkum og viðburðum. Eiginleg áramót í störfum Lionsklúbba eru um mánaðamótin júní – júlí ár hvert. Sér nú brátt fyrir endann á 31. starfsári klúbbsins. Á síðasta ári eignaðist klúbburinn afkvæmi, Lions- klúbbinn Dynk í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, og dafnar það vel. Fyrsti fundur starfsársins er jafnan um miðjan september og eru fundir að öllu jöfnu fyrsta og þriðja miðvikudag í mánuði fram í maí. Farið var í haustferð með mökum í október og var ekið austur í Rangárþing ytra og Holta– og Landsveit heimsótt með viðkomu á nokkrum bæjarhlöðum. Birtust þar sjónarhorn yfir í Árnessýslu sem voru mörgum nýstárleg. Gersemar í Þjórsárdal voru einnig litnar augum og kvöldverður snæddur í Árnesi. Af höfðingsskap var, í nóvember, tekið á móti klúbbnum og Lionsklúbbnum Dynk í glæsilegu garðyrkjustöðinni í Gufuhlíð. Jón Sigurðsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins og fyrrum rektor á Bifröst, var fyrirlesari á fundi í desember. Valtýr sveitarstjóri og Helgi oddviti greindu okkur frá gangi mála hjá sveitarfélaginu í nýrri veitustöð í febrúar. Villimannakvöldið svonefnda, sem klúbburinn stendur fyrir í Aratungu á Þorraþræl, er orðinn stærsti viðburður klúbbsins og umtalsverð fjáröflun. Þar koma saman um 150 karlar úr nokkrum Lionsklúbbum á Suðvesturhorninu ásamt vinum, eta hrossaket og skemmta sér. Vorverk klúbbsins eru tvenn. Hreinsun með helstu vegum í sveitarfélaginu fyrir Vegagerðina og útplöntun í Rótarmannatorfum. Það hefur tekist að reyta saman nokkru fé á hverju ári og er það notað til góðra mála. Heilsugæslan, skólinn og íþróttamannvirki hafa notið stuðnings frá klúbbnum. Einnig hefur verið lagt fé til sameiginlegs hjálparsjóðs í héraðinu auk alþjóða hjálparsjóðs Lions. Félagar telja vel á þriðja tuginn um þessar mundir og er það þéttur hópur sem líklegur er til að halda sínu striki vel við að leggja góðum málum lið um ókomin ár. Þegar þessar línur eru settar á blað höfum við nýlega horft á eftir félaga okkar, Hallgrími Magnússyni lækni, yfir móðuna miklu. Mikill söknuður er í hjörtum okkar klúbbfélaganna. Hann var með okkur í sjö ár í klúbbnum og setti sitt mark á hann. Mörg fróðleg erindi flutti Hallgrímur okkur og lá ekki á skoðunum sínum. Þeim miðlaði hann til okkar á uppbyggjandi og mildan hátt. Undirritaður skynjaði fljótt manngæsku hans og umhyggju fyrir náunganum. Hugur okkar hefur leitað mjög til hans nánustu. Núverandi stjórn skipa Kristófer Tómasson for- maður, Helgi Guðmundsson ritari og Snorri Guð- jónsson gjaldkeri. Sú stjórn sem tekur við völdum í sumar er skipuð Guðmundi Ingólfssyni formanni, Þorsteini Þórarinssyni ritara og Snorra Guðjónssyni gjaldkera.Við erum þakklátir fyrir góðan hug íbúa sveitarfélagsins til klúbbsins. Við fyllumst stolti þegar við fáum að heyra að það muni um okkur í samfélaginu. Fyrir hönd klúbbsins, Kristófer Tómasson. Lionsstarf Tungnamanna um þessar mundir

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.