Morgunblaðið - 22.11.1957, Blaðsíða 8
8
MORCVHBT AÐ1Ð
Föstudagur 22. nóv. 1957
Skáldskapur eða hoLtaþokuvæL
ÆRI-TOBBI er enn þjóðskáld
nokkurra íslendinga, ef marka
má af skrýtnum pistli, sem birt-
ist nafnlaus í dálkum Velvak-
anda á miðvikudaginn. í sjálfu
sér var pistillinn svo nauða-
ómerkilegur, að varla tekur svör-
um. Mun höfundur og hafa rennt
grun í ásigkomulag afkvæmisins,
því hann hafði vit á að leyna
nafni sínu, og ber það út af fyr-
ir sig órækt vitni því hugarfari,
sem er að baki skrifa af þessu
tagi.
Niðurstaða pistilsins er sú, að
þeir sem yrkja án stuðla og ríms
virðist „telja það aðalatriðið í
kvæða- og ljóðagerð, að línurn-
ar séu mislangar, annað skipti
ekki máli. Þeir virðast ekki vita
hvernig á að yrkja — eða geta
það ekki“.
Það er allur munur að sitja
inni með vitið og kunnáttuna!
Máli sínu til áréttingar tekur
hann ljóð eftir Jón úr Vör,
„Lítil frétt í Blaðinu", og setur
það upp „á eðlilegan hátt“, eins
og hann orðar það svo kunnáttu-
samlega, þ. e. a. s. ritar það nið-
ur í belg og biðu. -Með því þyk-
ist hann hafa sýnt fram á, að
Ijóðið sé ekki ljóð! Þeir fara
ekki allir í fötin hans bókmennta-
gagnrýnendurnir!
Síðan tekur hann brot úr
grein eftir Kristján Albertsson,
raðar orðunum í mislangar lín-
ur og telur sig hafa „búið til“
kvæði „á sama hátt og „kvæði“
Jóns úr Vör og greinarbroti
sem telja sig yrkja á óbundnu
máli“. Eftir slíka frammistöðu
er ekki að furða, þótt maðurinn
telji sig geta talað um Ijóðagerð
með myndugleik.
Hins vegar get ég ekki stillt
mig um að lýsa því yfir, að mað-
ur, sem sér ekki eðlismun á Ijóði
Jóns úr Vör og greinarbroti
Kristjáns Albertssonar, er svo
skyni skroppinn um allt, sem lýt-
ur að myndvísi, táknum og list-
sköpun yfirleitt, að hann telst
naumast viðræðuhæfur um þessi
mál.
Sami höfundur flytur okkur
þær nýstárlegu fréttir í upphafi
pistils síns, að „eftir íslenzkri
málvenju er ekki hægt að kalla
annað kvæði eða ljóð en það mál,
sem er bundið, stuðlað og rímað
og með réttum ljóðstöfum". Það
væri raunar fróðlegt að heyra,
hvaðan manninum er þessi vitn-
eskja komin. Eða er skriffinnum
af þessu tagi trúandi til að gana
út á ritvöllinn með hvaða firru,
sem yfir þá þyrmir, án athug-
unar á því, hvað sé rétt og satt
í málinu? Það skyldi þó aldrei
vera!
Maður hélt, að hingað til hefði
það verið öllum sæmilega læs-
um Islendingum kunnugt, að
mörg beztu ljóð á íslenzka tungu
eru með öllu órímuð. Þeirra á
meðal eru Eddu-kvæðin eins og
þau leggja sig. Við stuðlasetn-
ingu í Hárbarðsljóðum er líklega
sitthvað að athuga út frá „rétt-
um Ijóðstöfum". Eða hvað eig-
um við að segja um annan há-
tind í íslenzkri ljóðsköpun.
Tristranskvæði? Þar er rím og
stuðlar aðeins með höppum og
glöppum. Eða svo við tökum það,
sem hendi er nær: Hvað um
„Sorg“ Jóhanns Sigurjónssonar
eða „Söknuð“ Jóhanns Jónsson-
ar? Ætlar maðurinn að halda
því fram, að þau séu ekki ljóð,
af því þar eru hvorki stuðlar
né rím?
Þessari upptalningu mætti
halda áfram, en það er óþarft.
Hver sá, sem hefur einhvern
snefil af þekkingu á íslenzkri
ljóðlist, veit, að þorrinn af ljóð-
um síðari ára er rímlaus og
mörg þeirra líka án stuðla, en
þau eru ekki þar fyrir formlaus.
Þetta kom berlegast í ljós í „Ár-
bók skálda ’54“, en í formála að
henni segir Magnús Ásgeirsson:
„Ég álít mig ekki minni unn-
anda stuðla og ríms heldur en
ýmsa aðra, sem telja sig bera
hefðbundinn skáldskap mjög fyr-
ir brjósti, enda hef ég töluvert
um slíkan skáldskap sýslað og
haft mikið • yndi af honum, og
svo er enn. Ég hef jafnvel verið
staðinn að því vafasama tiltæki
að snúa rímlausum erlendum ljóð
um til bundins máls á íslenzku.
Hinsvegar hef ég alltaf litið svo
á, að rímlaus ljóð ættu sér til-
verurétt á íslenzku eins og öðr-
um málum og geti verið full-
gildur skáldskapur".
f eftirmála að „Fornum ást-
um“ 1919 segir Sigurður Nordal:
„Og þó mér auðnist aldrei að
skrifa ljóð í sundurlausu máli,
sem við má una, efast ég ekki
um, að sú bókmenntagrein eigi
sér mikla framtíð......Óstuðl-
uðu ljóðin ættu að eiga óbundn-
ar hendur og víðan leikvöll sund-
urlausa málsins, og vera gagn-
orð, hálfkveðin og draumgjöful
eins og ljóðin. Þau eiga sér
krappa leið milli skers og báru.
En takist þeim að þræða hana,
verður það glæsileg sigling".
Það mun mál margra nú tæp-
um 40 árum eftir að þetta var
ritað, að spá Nordals um hina
glæsilegu siglingu hafi rætzt,
hvað sem líður þeim álfum er
koma út úr hólum fyrri alda og
gera heyrinkunnugt, að Ijóð verði
ekki samin án ríms og stuðla.
Hvað er þá ljóð, fyrst það er
ekki fólgið í rími og stuðlum?
spyr væntanlega umræddur
skriffinnur. Mér vitanlega hefur
aldrei verið fundin nein endan-
leg skilgreining á ljóðlist. Hins
vegar er tiltölulega auðvelt að
benda á, hvað er ekki Ijóðlist.
Mikið af því rímaða holtaþoku-
væli, sem hagyrðingar um allar
jarðir hafa dundað við að hnoða
saman á undanförnum öldum, á
ekki skylt við ljóðlist, því ljóð-
list er skáldskapur og nærist á
hugarflugi og innsæi. Það hefur
legið í landi hér, að rím og
stuðlar hafa gegnt því hlutverki
að breiða yfir andlega fátækt
hagyrðinganna og innihaldsleysi
kveðlinga þeirra. í þessu sam-
bandi er ekki úr vegi að minna
á orð Jónasar Hallgrímssonar í
„Fjölni" um íslenzkan rímna-
kveðskap.
Nú má enginn skilja orð mín
svo, að ég sé andvígur rími og
stuðlum. Öðru nær. í höndum
skálda getur hvort tveggja orðið
til mikils fegurðarauka, eins og
ótal dæmi fyrr og síðar sanna.
En rím og stuðlar geta aldrei
orðið annað en hjálpargögn. Þeg-
ar hjálpargögnin verða að höfuð-
atriði, er skáldskapurinn dauð-
ur eða a. m. k. í bráðri lífs-
hættu. Það getur líka verið hættu
legt ljóðskáldum að eiga of auð-
velt með að ríma, því þá vill
brenna við, að kvæðin fari að
yrkja sig sjálf, ef svo má segja,
þ. e. a. s. orðin renna út á pappír-
inn án þeirrar fyrirhafnar eða
fæðingarhríða, sem hljóta að
vera samfara hverri sköpun.
Þá er og til sú tegund skálda,
sem eiga erfitt með að ríma,
en eru samt að burðast við það.
Leiðir það oft til þess, að þeir
bregða fyrir sig tyrfnu eða óeðli-
legu máli og verða ósjaldan að
notast við hreinustu ambögur
eða hortitti til að fá línurnar til
að ríma.
Það er algerlega út í hött að
nota rím og stuðla sem einhvers
konar tommustokk á gæði ljóða.
Góð ljóð, hvort sem þau eru rím-
uð.eða ekki, eru túlkun á skáld-
legri reynslu höfundarins. Þau
skapa nýjan veruleik eða veita
nýja innsýn í daglegt umhverfi
okkar. Þau segja gömul sannindi
á ferskan og sérstæðan hátt,
þannig að lesandinn vaknar til
nýrrar og dýpri vitundar um þau.
Þetta hefur Jóni úr Vör tekizt
aðdáanlega í ljóði sínu „Litil frétt
í Blaðinu". Hann hefur tjáð al-
kunna staðreynd á nýstárlegan
og lifandi hátt; hann hefur dreg-
ið upp skýra og ógleymanlega
mynd, sem ristir sig inn í hug-
skot lesandans. Blaðagreinar
eða kveðlingar eru frásagnir um
ákveðna hluti, en ljóð eru upp-
lifun ákveðinna hluta, sem m. a.
birtist í myndum og táknum. Sá
er munurinn á ljóði Jóns úr Vör
og greinarbroti Kristjáns Alberts
sonar, og hann er vissulega
gagngerður.
Það má taka það fram hér að
gefnu tilefni, að Jón úr Vör kann
að ríma. Hann fékk meira að
segja mjög góða dóma fyrir
fyrstu Ijóðabók sína, sem var
rímuð. En það var „Þorpið“, hið
órímaða ljóðakver hans, sem
setti hann á bekk með góðskáld-
um og sýndi hvað í honum bjó.
Það var líka þessi bók, sem valin
var til þýðingar á erlent tungu-
mál, og því hlutskipti hafa fáar
ljóðabækur íslenzkar átt að
fagna.
Yngri skáldin hafa ekki sagt
skilið við hefðbundin form af
forild eða kunnáttuleysi, held-
ur vegna þess að gömlu formin
voru orðin svo töm og útþvæld,
að þau voru farin að hefta ljóð-
sköpun, er byggðist á uppruna-
legri og innlífri reynslu skálds-
ins. Hins vegar ber á það að líta,
að mörg ungskáldanna hafa yngt
upp eldri formin með ágætum
árangri, og er það vel.
Það þætti líklega hlægilegt
alls staðar nema á Islandi að rök-
ræða þessa hluti; svo sjálfsögð
eru hin nýju form orðin með öðr-
um menningarþjóðum. Og marg-
ar höfðu þessar þjóðir jafnhefð-
bundin ljóðform og við íslend-
ingar. En skáldin hafa hvar-
vetna orðið að horfast í augu við
þá staðreynd, að gömul form
nægðu ekki til að tjá nútíma-
reynslu. Nýir tímar heimtuðu ný
tjáningarform af augljósum
ástæðum. Maður tjáir tæpast
alla reynslu sína á atómöld í
sonnettum eða rímum.
Hér á myndinni sést Mohamed A1 Badr frá Yemen í heimsókn
í Englandi. Hann skoðar skriðdreka af ákafa.
Formbylting er hins vegar eng-
in ný bóla í sögunni. Mörg mestu
skáld heimsins voru róttækir
formbyltingarmenn. Sapfó kom
með nýja stefnu í ljóðlist, Dante
var nýskapandi, Egill Skalla-
grímsson olli róttækri byltingu
í norrænni kvæðagerð. Sama
máli gegnir um obbann af stór-
skáldum heimsins, Donne, Jónas
Hallgrímsson, Whitman, Hopkins,
Rimbaud, Mallarmé, Pound,
Eliot, Paul la Cour og Stein
Steinar, svo einhverjir séu
nefndir. Okkur er nauðsynlegt að
fylgjast með því, sem er að ger-
ast í listum annarra þjóða, ef
við eigum ekki að staðna í ó-
frjórri dýrkun á fortíðinni. Ef
við einangrum okkur, getum við
átt það á hættu, að höfundur
pistilsins, sem var tilefni þessa
skrifs, eignist svo marga sálu-
félaga, að heilbrigði íslenzkrar
menningar sé hætta búin.
Ég vil ljúka þessum línum með
orðum Sigurðar Nordals, sem
birtust í „Vöku“ fyrir 30 árum:
„Ef íslenzkar bókmennÆr eiga
sér nokkra framtíð, verður hún
í höndum þeirra manna, sem þora
bæði að sökkva sér ofan í er-
lenda menningu og vinza misk-
unnarlaust úr henni með sjálf-
stæðri hugsun og samanburði við
íslenzkt eðli og reynslu".
Sigurður A. Magnússon.
Kristinn Jónsson vagnasmiiur
M i rmingarorð
í DAG verður gerð útför Krist-
ins Jónssonar, vagnasmiðs, hins
þjóðkunna dugnaðar- og atorku-
manns. Hann hafði verið heilsu-
hraustur þar til fyrir rúmu ári
síðan, að hann kenndi sjúkleika
sem ágerðist unz yfir lauk hinn
14. þ.m.
Kristinn var fæddur að Hrauni
í Ölfusi 30. sept. 1870 og voru
foreldrar hans Jón Halldórsson,
bóndi og kona hans Guðrún
Magnúsdóttir. Jón drukknaði,
þegar Kristinn var á 3ja ári, frá
8 börnum í ómegð.
Kristinn byrjaði snemma að
sjá sér farborða, stundaði sjó-
róðra frá Þorlákshöfn og Eyrar-
bakka, en lagði jafnframt stund
á trésmíðanám. Til Reykjavíkur
fluttizt hann árið 1904 og í apríl
sama ár hóf hann vagnasmíði, en
fékkst einnig við húsasmíði
fyrstu árin. Brátt kom þó að því,
að hann helgaði sig vagnasmíð-
inni eingöngu og lagði þar með
grundvöllinn að ævistarfi sínu.
Mun vagnasmiðja hans hafa ver-
ið hin fyrsta hér á landi og sú
eina um langt árabil. Árið 1917
byrjaði hann að smíða yfirbygg-
ingar á bíla og hefur sú starf-
semi aukizt ár frá ári, og er nú
aðalverkefni smiðjunnar. Hafa
synir Kristins aðallega séð um
þennan þátt starfseminnar, en
þeir hafa báðir starfað við fyrir-
tækið frá því að þeir komust á
legg, og séð um rekstur þess síð-
ustu árin.
Árið 1905 kvæntist Kristinn
Þuríði Guðmundsdóttur frá Seli
í Landeyjum og varð þeim 5
barna auðið. Tvö þeirra eru lát-
in: Georg, sem dó í æsku og Lára
’dáin 1940, 32 ára, mesta efnis-
! stúlka. Á lífi eru: Ragnar kvænt-
j ur Matthildi Edwald, Kristrún,
gift Gotfred Bernhöft, stórkaup-
manni og Þórir kvæntur Cörlu
Proppé. Þuríður var fyrirmynd-
ar húsmóðir, stjórnsöm og dugleg
og manni sínum samhent, en
sambúð þeirra varð ekki löng,
því að Þuríður lézt árið 1914.
Nokkrum árum eftir lát henn-
ar réðst Halldóra Andersen, er
misst hafði mann sinn, Hans Ánd
ersen, verzlunarmann, til Krist-
ins, en þær Þuríður og Halldóra
voru systradætur. Hefur hún
stýrt heimili hans til þessa dags
og gengið börnum hans í móður-
stað. Dóttur hennar, Helgu, sem
er gift Hans Petersen, kaup-
manni, gerði Kristinn að kjör-
dóttur sinni.
Með Kristni er til moldar geng
inn sérkennilegur dugnaðarmað-
ur. Hann var sívinnandi og virt-
ist þó sjaldan þreyttur. Fjörið
var svo mikið og entist honum
svo vel alla ævi, að slíks munu
fá dæmi. En þótt Kristinn væri
glaðvær að eðlisfari og hrókur
alls fagnaðar í kunningjahópi,
var hann þó alvörumaður öðrum
þræði og hafði brennandi áhuga
á ýmsum þeim málum, sem til
heilla horfði landi og lýð. Hann
var fastur fyrir, hreinskilinn og
hreinskiptinn. Við hann var. ó-
þarfi að gera skriflega samninga
því að orð hans stóðu eins og
stafur á bók. Hann var tryggur
vinum sínum og hjálparhella
margra. Slíkir menn gefa öðrum
hollt vegarnesti og áhrifa þeirra
gætir löngu eftir að þeir eru
fallnir frá. Kristinn var mikils
metinn af starfsbræðrum sínum
cg öllum þeim mörgu mönnum,
sem áttu við hann einhver við-
skipti. Árið 1944 var hann sæmd-
ur riddarakrossi hinnar íslenzku
Fálkaorðu.
Kristinn Jónsson hefur nú lok-
ið dagsverki sínu hér á jörðu, og
allir, sem til þekkja munu sam-
mála um, að vel og hlífðarlaust
hafi verið unnið. Börnum sínum,
ættingjum og vinum skilur hann
því eftir bjartar minningar og
fagrar.
Konráð Gíslason.
Byggingarfram-
kvæmdir á Raufar-
höfn
RAUFARHÖFN, 21. nóv. Tals-
verðar byggingaframkvæmdir
eiga sér stað á Raufarhöfn um
þessar mundir. í byggingu eru
nú 15 hús, flest smáíbúðarhús.
Einnig er verið að byggja nýjan
læknisbústað. Þá er verið að lag-
færa söltunarstöðvarnar og er
það vel á veg komið. Tíðarfar
hefir verið ágætt og samgöngur
hafa verið ótruflaðar. —Einar.
EGILSSTÖÐUM 21. nóv. — Stöð-
ugt er unnið við Grímsárvirkjun-
ina, enda hefur veðrátta verið
ágæt undanfarið. Þá er unnið við
að leggja rafmagnslínu um hér-
aðið og koma upp spennistöðvum.
—Ari.