Morgunblaðið - 10.08.1966, Side 5

Morgunblaðið - 10.08.1966, Side 5
MiðvíkuðagOT 10. ágúst 1^6 MORCUNBLADIÐ 5 ÚR ÖLLUM ÁTTUM „Þú mátt til með að eiga viðtal við Gunnar Bjömstrand — hann er svo skemmtileg- ur“. Þeir sögðu þetta hver af öðrum, samferðamenn mínir og íslendingarnir, sem starf- að hafa í Skúlagarði að und- anförnu við töku kvikmynd- arinnar „Signý og Hagbarð- ur“. Og þó ég væri komin í Skúlagarð í allt öðrum erinda gerðum, vissi ég varla fyrr en ég var farin að tala við þennan kunna kvikmyndaleik ara. Hamingjan góða, um hvað aetti ég að tala við hann, höfðu verið fyrstu viðbrögð mín — ég hef ekki minnsta vit á kvikmyndum. — Það gerir ekkert til, sögðu þau, þú þarft áreiðan- lega ekki margs að spyrja, hann er svo lifandi maður. Gunnar Björnstrand í hlutverki konungsins í kvikmyndinni um Signý og Hagbarð. Verða að þora að horfast í augu við sjálfa sig... — segir sænski kvikmynda- leikarinn Gunnar Björnstrand Og það reyndist rétt vera. Gunnar Björnstrand er svo lifandi maður, opinskár og ræðinn, að fátítt má telja. Eftir nokkurra mínútna við- ræður gafst ég gersamlega upp við að reyna að skrifa eftir honum, jafnvel athuga- semclir mér til minnis, hvað þá meira og þar sem mér svo gafst ekki tóm til að skrifa viðtalið fyrr en mörg- um dögum seinna, er hætt við, að það, sem hér fer á eftir, verði aðeins daufur skuggi af samtalinu. Tæpast mundi ég telja Gunnar Björnstrand í hópi þeirra manna, sem vekja ó- skipta athygli við fyrstu sýn. Hann er hvorki fríður né ófríður, hvorki stór né lítill, hann er maður grannvaxinn og hefur engin áberandi sér- kenni, nema ef vera skyldi höfuðlagið og hárgreiðslan. Andlitið er nokkuð langt, kjálkar breiðir og svipurinn stífur — þangað tii hann fer að tala. Þá er eins og kveikt sé á kerti eða öllu heldur heilum arni. Það hlýn ar í stofunni og eins og menn hafa tilhneigingu til að orna sér við arineld, safnast menn um-hverfis Gunnar Björns- strand, til rökræðna um öll hugsanleg mál. Gumnar Björnstrand er sænskur kvikmyndaleikari, 56 ára að aldri. Hann nam leiklist í fæðingarborg sinni Stokkhólmi, fyrst tvö ár í einka leikskóla en síðan þrjú ár í leikskóla konunglega leikhússins sænska. Að lokrm námi starfaði hann í Finn- landi nokkur ár, við sænska leikhúsið í Vasa, en hélt síð- an aftur til Svíþjóðar, þar sem hann hefur að mestu starfað síðan, bæði við leik- hús og kvikmyndir. Erlendis er Björnstrand kunnastur fyrir leik sinn í kvikmyndum Ingimars Berg- mans. Hefur hann leikið í þrettán myndum ha-ns, þar af aðalhlutverk í átta mynd- um, sem margar hverjar hafa verið sýndar hér á landi, svo sem Sjöunda innsiglið, Sem í spegli, Næturgestirnir, Flísin í auga kölska og ef til vill fleiri . Bergman er hrífandi leikstjóri, sagði Björnstrand, mikill listamaður. Ég veit ekki um neinn leikstjóra, sem gæddur er svo alhliða hæfi- leikum sem hann. Sú tækni er ekki til í kvikmyndagerð, sem hann ekki hefur á valdi sínu. — Já, það er satt, mörg- um finnst Bergman fjalla full mikið um kynferðismál í kvik myndum sínum. Hann hefur tekdð fyrir mörg viðfangsefni að undanförnu er þau varða. Við vitum, að fyrr á árum hafði Bergman mikinn áhuga á trúmálum og fjallaði um guðstrúna í mörgum mynd- um sínum. Ég held hann telji sig búinn að gera þau mál upp við sig, hann hefur unn- ið sig frá þeim og snúið sér þess í stað að manninum sjálf um sem einstaklingi, mann- inum gagnvart sjálfum sér og þar er kynferðislífið og hvöt- in í sínum margbreytilegu myndum auðvitað ríkur þátt- ur. Taiið barst fyrr en v að íslandsdvölinni og . myndatökunni fyrir austan. Við sátum úti við gluggann í fátæklegri herbergiskytru Björnstrands í Skúlagarði og horfðum út í gráa rigninguna. Framundan var landið eins og eyðimörk og rann saman við þungbúin skýin 1 enda- lausa auðn. — Ömurlegt land eða hvað? spurði ég. — Nei, alls ekki, svaraði hann af sannfæringu, — það er hrífandi. Þessar tvær vi’k- ur hér hafa verið mér afskap- lega dýrmætur tími, jafnvel þótt veðrið hafi verið hryss- ingslegt og tafið okkur við kvikmyndatökuna. Við erum þegar orðin fimm daga á eftir áætlun. — Ég get auðvitað ekki sagt að ég skilji íslendinga eftir þessa dvöl — það eru aðeins ferðamenn sem „skilja“ þjóðir eftir nokkurra daga dvöl í landi þeirra. En vistin hér, nánast uppi í óbyggðum með þessu fólki, sem hér hef- ur unnið — ungu fólki úr ýmsum stéttum — hefur, að ég held gefið mér innsýn í vissa þætti islenzks mann- eðlis. Það sem hefur hrifið mig mest er hve fólkið hefur sterk einstaklingseinkenni, hvað það er frjálst og óbundr ið — og óformlegt í fram- komu. Hér eru allir jafnrétt- háir og allir koma eins fram við alla. — Það er furðulegt að koma til íslands, sem maður hugs- ar sér einangrað úti í Atlants- hafi og hitta fyrir fjölda af ungu fólki, sem fylgist vel með því sem er að gerast úti í heimi. Ég sezt hér niður á kvöldin að loknu löngu og oft erfiðu dagsverki og tala við þetta unga fólk — og kemst að raun um, að það veit allt mögulegt og skilur, fylgist vel með án þess að gleypa stefnu og skoðanir hráar, eins og svo víða verð- ur vart. — Fólkið á bæjunum hér í nágrenninu ber sömu merki í fari sínu — merki einhvers konar frumstæðs frelsis. Mað- ur finnur svo sterkt til þess hér, að einstaklingurinn skipt- ir máli í þessu landi. — Ef til vill er þetta frum- stæða frelsi okkar of sterkt afl. Því fylgir, að margra áliti visst agaleysi og er stundum haft við orð, að við íslend- ingar séum svo agalausir og ótamdir, að við getum til dæmis tæpast haldið uppi Sinfóníuhljómsveit. ' — Um þetta get ég að sjálf- sögðu ekkert sagt, þar sem ég þekki lítið sem ekkert ykk- ar list. Það er auðvitað hugsan legt, að full mikið frelsi, leiði til þess að ekki náist nema miðlungs árangur í listum. Því það er ljóst, að til þess að ná góðum litrænum ár- angri verður maður að beita sjálfan sig miskunnarlausum aga — má aldrei slaka á þeim kröfum, sem maður gerir til sjálfs sín, má aldrei segja við sjálfan sig „svona — nú er þetta orðið fullgott hjá mér“. Maður verður alltaf að spyrja sjálfan sig — „hvernig hefði ég getað gert betur“. En ég met mikils þessa sterku frelsis kennd, sem ég finn hér, — sennilega vegna þess, að ég hef sjálfur sterka frelsis- hneigð og dregst mjög að öllu og öllum, sem mér finnst lif- andi. — Hefur yður aldrei fund- izt erfitt að beita sjálfan yð- ur aga? — Ég veit ekki hvað segja skal um það. Sannleikurinn er sá, að ég er meira og minna alinn upp við það sem sjálf- sagðan hlut. Faðir minn var óperusöngvari og af hans starfi sá ég fljótt hvað til þurfti, ef nokkur von átti að vera til þess að ná því tak- marki, sem metnaðurinn setti manni. — Og hvert mark setti hann yður? — Að afla peninga. — Björrvstrand svaraði þessari spumingu snöggt og umbúða- laust. — Afla svo mikilla peninga, að ég gæti veitt börnunum mínum það, sem ég gat ekki sjálfur fengið í æsku. Faðir minn var eklti efnaður, enda ekkert sérlega góður óperusöngvari. Gunnar Björnstrand — Og hvað er það fyrst og fremst, sem yður langar að geta veitt börnunum. — Menntun og möguleika til þess að kynnast heiminum, — fólki — svo að þau verði frjáls og læri að skilja menn- ina, öðlist umburðarlyndi og skilning á gildi einstaklings- ins. Þau hafa frá blautu barns beini alizt upp við frjálslynd- an hugsunarhátt, held ég mér sé óhætt að segja. Þau hafa frá unga aldri tekið þátt í um- ræðum um allt mögulegt og meðal annars vanizt þeim hugsunarhætti, að þjóðerni og hörundslitur skeri ekki úr um manngildi. — Að sumu leyti er afar erfitt fyrir börn að eiga fræga foreldra — og getur í vissum tilfellum leitt til hat- urs barnanna á þeim. Ég held og vona, að ég komist hjá því. Samband mitt og barna minna er, að ég held, afar frjálst og óbundið. Þau eiga t.d. alit eins til að kalla mig Gúnnar og pabba. En ég held þau geti alltaf komið til mín og ta’.að við mig um hvað eina. Ég vona og trúi, að þau þroskist í rétta átt. — Þér sögðust hafa viljað afla peninga — varla hefur það þó verið eina markmið- ið? ‘ — Nei, það er rétt, þá hefði ég auðvitað valið aðra og auð veldari leið til þess. Kannski væri réttara að taka svo til orða, að ég hefði viljað verða svo góður leikari, að ég gæti sjálfur sagt „já“ og „nei“, gæti ejálfur ráðið ferðinni og sett fram mínar kröfur. Sann- leikúrinn er sá, að þetta eru tvær hliðar á sama máli — hið eiginlega markmið er að vinna sigur á sjálfum sér, sínum eig- in takmörkunum og veikleik- um. Af hvaða hvötum það er gert skiptir ekki öllu máli. Bar átta niín fyrir viðurkenningu á leikbrautinni hefur oft verið erfið og hún hefur krafizt af mér miskunnarleysis við sjálf- an mig og tillitsleysis við mína nánustu. Ég mundi ekki segja, að ég hefði verið „ofan á“ í lífinu nema síðustu tíu árin — af um þrjátíu og fimm ár- um, sem ég hef fengizt við þetta. En nú ræð ég sjálfur ferðinni. — Og hvarflaði aldrei að yður að gefast upp? — Nei, svaraði Björnstrand ákveðið, þagnaði svo andar- tak, hugsaði sig betur um og sagði rólega — og þó — það er ekki satt. Einu sinni lædd- ist að mér sterkur efi um að þetta væri til nokkurs. Það var eftir að ég kom frá. Finn- landi. Þar hafði mér gengið vel, ég hafði fengið viðurkenn ingu og leikið stór hlutverk. En þegar ég kom aftur heim til Stokkhólms vissi það eng- inn og ég varð að byrja að nýju með smáhlutverkum. En svo fór aftur að rofa til og síðan hef ég aldrei efazt um, að ég hafi tekið rétta stefnu. — Það, sem mestu máli skiptir fyrir leikara er að vinna, vinna, aga sjálfan sig, gefast aldrei upp, — skoða sjálfan sig ofan í kjölinn og gera sér ljóst, að öll hlut- verk eiga sér hljómgrunn í honum sjálfum. Maðurinn er samsafn ótal eiginleika — allra hugsanlegra mannlegra eiginleika — og þegar hann fær í hendur hlutverk, verð- ur hann að draga fram í sjálfum sér þá eiginleika, sem hlutverkinu hæfa. Hann má ekki veigra sér við að horfast í augu við sjálfan sig. Maðurinn er ekki einn og óumbreytanlegur, — hann er margir menn, safn manna á öllum aldri, búnum öllum eiginleikum, aðeins í mismun andi ríkum mæli. Ella væri hann ekki lifandi, heldur dauður hlutur. — Og það er ekki aðeins leikarinn, sem verður að hafa þessa afstöðu heldur líka áhorfendur. Það er því miður oftast svo, að áhorfendur horfa á leikrit og hugsa sem svo „að hugsa sér, að svona fólk skuli vera til“. Þeir gera sér ekki grein fyrir því, að þeir eru að horfa á sjálfan sig, sína eiginleika — en þá fyrst fá menn fullan skilning á því, sem þeir sjá og heyra, þegar þeir þora að horfast í augu við sjálfan sig á leiksviðinu. Mbj.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.